Andrea S skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Andrea – Dagur 1 og 2 hringinn í kringum Ísland

Við litla fjölskyldan erum að ferðast hringinn í kringum landið í fellihýsi með 11 mánaða gömlu dóttur okkar. Það er búið að vera draumur okkar beggja að láta verða af því svo okkur fannst tilvalið að fara í ár og taka litlu dömuna með.

Mig langaði því að deila ferðinni með ykkur hér á Króm.is með “nýjum lið” eða koma með einskonar ferðablogg fyrir áhugasama í sömu hugleiðingum og aðra áhugasama.

Ég er einnig að deila hringferðinni á Instagram en ég er búin að vera sýna hvaða áfangastaði við erum búin að heimsækja á Instagram story hjá mér. Við erum stödd núna á Vestfjörðunum en þú getur enn séð á Instagram hvað við höfum verið að bralla upp á síðkastið.

Instagrammið mitt er:

andreagudrun

Við byrjuðum ferðina um helgina en við fórum upp í bústað í Vaðnesi með góðum vinum og nutum helgarinnar þar áður en “hringferðin” eða eins og við viljum kalla hana “andreaáflandri” var formlega hafin. Það mætti því segja að fyrsti dagur ferðarinnar hafi verið sunnudaginn 9. júlí.

Við skipulögðum hringferðina áður en við lögðum af stað en svona leit okkar hugmynd út eftir að hafa tekið saman fjölda daga og staði sem okkur langaði mest að heimsækja (til og frá). Þetta voru áfangastaðir sem við vildum 100% reyna heimsækja og svo að sjálfsögðu finna nýja og skemmtilega staði samhliða.

Ég mun koma til með að fara nánar út í staðsetningarnar sem við heimsækjum eftir hvern hluta en við erum staðsett núna á Vestfjörðum og sit ég hér inn í fellihýsinu okkar að blogga um þá daga sem eru liðnir.

Ef ég byrja frá byrjun yfir þá daga sem teljast “hringferðar dagar” þá byrjuðum við ferðina frá Grímsnesi / Vaðnesi og ákváðum að byrja á Vestfjörðunum. Við erum að fara í brúðkaup á Austurlandi næstu helgi og vildum við fikra okkur áfram frá Vestfjörðunum. Kærasti minn er frá Pareksfirði og ég var lang spenntust yfir Vestfjörðunum.

Ég er alltaf með myndavélina á lofti svo hér koma nokkrar úr bústaðnum.

Planið fyrsta daginn var að keyra frá Grímsnesi á Flókalund og byrja dag nr. 2 á að fríska okkur upp í Hellulaug sem er fyrir neðan Flókalund en þar sem litla barnið svaf og svaf ákváðum við að breyta til og keyra beint inn á Patreksfjörð og tjalda þar í 2 nætur í staðin. Við settum okkur plan frá byrjun með öllum dögunum en erum ekki viðkvæm fyrir breytingum en allt getur gerst með lítil börn með í ferð.

Ég mun koma til með að blogga á meðan ferðinni stendur en við komum aftur til Reykjavíkur 20. Júlí svo það verður því mikið ferðast á stuttum tíma. Einnig mun ég vera virk á Instagram og Instagram story þar sem ég deili með ykkur hvern dag í ferðinni og vonandi koma með hugmyndir fyrir aðra hvað það getur verið skemmtilegt að ferðast um landið okkar og hvað allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi en ég hef fengið nokkrum sinnum spurningu hvort það sé skynsamlegt að ferðast um landið með svona ungt barn .. svar mitt er JÁ.

En yfir í ferðalagið sjálft…

Sunnudagurinn var því eins og við köllum hann “keyrsludagur” en við vildum ekki eyða mörgum dögum í keyrslu á Vestfirðina svo við ákváðum að taka þá keyrslu í einum rikk. Kærasti minn er frá Patreksfirði svo við ætlum að gista hér í 2 nætur.

Nokkrar myndir af degi númer 1 (“keyrsludaginn”)

Ég mæli svo mikið með náttúrulauginni í Sælingsdal við Hótel Eddu. Mjög viðeigandi að byrja fyrsta stopp ferðarinnar við Guðrúnarlaug í ljósi þess að ég heiti jú Guðrún Andrea og er gjörsamlega veik fyrir náttúrulaugum.

Ég fjallaði mikið um hana á Instagram á sunnudaginn en ég deili myndum og staðsetningum jafnt óðum inn á Instagram svo mæli með að kíkja þangað.

Dagur 2 í hringferðinni 

Við vöknuðum ELD snemma en dóttir mín ákvað að klukkan 07:00 væri tímin til að vakna og það var því ekki aftur snúið. Hún er mikil svefnburka og því ólíkt henni að vakna svona snemma. Forvitnin að vakna í tjaldi í birtu var því ansi spennandi en þetta var erfiður morgun í ljósi þess að við fórum að sofa klukkan 03:00.

Við drifum þó daginn í gang (með mörgum kaffibollum) lokuðum hjónasvítunni og lögðum í hann.

Ferðinni var heitið meðal annars á Látrabjarg, Rauðasand ofl. skemmtilegt. Einnig er ég með blæti fyrir náttúrulaugum, fallegum vitum og kirkjum svo ég pinnaði allskonar staðsetningar til að mynda, kærastanum til mikillar gleði.

Dagurinn í gær heppnaðist því mjög vel.

Það sem við skoðuðum var:

Hellulaug á Flókalundi

Við byrjuðum daginn á að baða okkur upp úr Hellulaug sem er við Flókalund og er æðisleg náttúrulaug með mjög skemmtilegt útsýni. Það kostar ekkert í þessa laug,

Sundlaugin í Birkimel

Með börn er kanski þæginlegra að fara í sundlaugina á Birkimel þar sem þar eru klefar og það er bæði “náttúrulaug” og skemmtilega gömul sundlaug. Það kostar þó ofan í þessa laug en minnir að það var um 700 kr. á mann.

Látrabjarg

Himnaríki fyrir fuglaaðdáendur. Ótrúlega fallegur staður en ég er rosalega lofthrædd og átti erfitt með að setja mig i stellingar og mynda þennan stað vel.

Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti

Hnjótur en þar er æðislegt minjasafn, gamlar flugvélar (frá seinni heimsstyrjöldinni) og gamlir bílar og bátar. Mér finnst þetta safn ÆÐI þar sem ég elska að mynda og skoða gamlar flugvélar, bíla, báta ofl. Þetta er mjög áhugavert safn og mæli mikið með því.

Rauðasandur

Rauðasandur er búin að vera efst á óskalistanum og var því æðislegt að fá að koma og sjá hann loksins. Þetta var klárlega toppurinn eftir daginn. Þvílík náttúrufegurð!

Við enduðum svo kvölldið á að rölta um Patreksfjörð í góðum félagsskap en mikið er þetta fallegur bær.

Ef þið eruð í sömu hugleiðingum þá endilega fylgist með á Instagram en ég vona að ég komi með skemmtilegar hugmyndir fyrir ykkur. Eins hafa fylgjendur mínir á Instagram verið yndisleg og hent á mig allskonar hugmyndum sem við höfum bætt við í ferðina okkar, sem er svo gaman. Mér þykir rosalega gaman að heyra frá ykkur og fá sendar á mig ábendingar. Gerir alveg daginn minn.

Nokkrar myndir frá deginum koma hér að neðan. Ég set inn mikið af vídjóum á Instagram en næ því miður ekki að setja þau inn hér svo ég mæli með að kíkja þangað.

Fyrir áhugasama þá er dagurinn í gær enn inni í Instagram story fyrir ykkur sem misstuð af.

Hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast með okkar ferðum en á morgun liggur leiðinni til Ísafjarðar.

Mikið sem ég hlakka til að skoða mig um þar en þangað hef ég aldrei komið það verður þá ófáum myndum deilt á Instagrammið (og að sjálfsögðu hingað).

Þangað til næst

Hægt að fylgjast með mér á:

Instagram: andreagudrun eða www.instagram.com/andraegudrun