Ása Steinars skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Ása Steinars – Heimsókn í Friðheima

Heimsókn í Friðheima

Ég hef lengi ætlað mér að heimsækja Friðheima! Jafnvel Kim Kardashian var á undan mér.

Ég lét loksins verða af því í síðustu viku að heimsækja þetta yndislega fjölskyldurekna gróðurhús sem sérhæfir sig í tómataræktun og býður einnig upp á hina ýmsu tómatrétti úr hreinræktuðum úrvals “Friðheima” tómötum.

Á ferðalögum um suðurlandið eða gullna hringinn passar einsaklega vel að stoppa við í Friðheimum í Reykholti. Bærinn er einstaklega fallegur, umkringdur gróðri í skjóli trjáa. Í bakgarðinum eru hestar á vappi sem hægt er að heilsa upp á en einnig er boðið upp á sérstakar hestasýningar fyrir áhugasama.

Gróðurhúsin

Það er einstök upplifun að heimsækja björtu gróðurhúsin í Friðheimum og kynnast ekta íslenskri tómataræktun. Hægt er að fá leiðsögn um svæðið og fá fræðslu um garðyrkjuna og starfsemina. Hér eru ræktaðir tómatar í raflýstum gróðurhúsum og jarðhitinn nýttur svo hægt sé að rækta allan ársins hring þrátt fyrir langan og dimman vetur. Á göngu um svæðið sáum við býflugur sveima á milli plantna, en þær eru um 600 talsins og gegna mikilvægu hlutverki í tómataræktuninni.

Veitingarstaðurinn

Á veitingarstaðnum er boðið upp á allskonar góðgæti, þar á meðal þeirra frægu tómatsúpu, nýbakað brauð og ýmsa spennandi tómatdrykki. Hvorki meira né minna en hin víðfrægi fréttamiðill “The Guardian” nefndi Friðheima sem einn af bestu stöðum í heimi til þess að smakka “Bloody Mary”!!

Eftir létta göngu um svæðið settist ég niður á veitingarstaðnum. Ég get varla lýst því hversu góður maturinn var! Hér er allt fyrsta flokks, bæði gæði matarins og þjónustan. Ef ég ætti að nefna einn rétt sem stóð upp úr kemur ekkert annað til greina en eftirrétturinn, dýrleg skyrostakaka með hunangi, borin fram í krúttlegum blómapotti.

Það er einnig lítil verslun í Friðheimum þar sem hægt er að kaupa ýmis fersk matvæli af býlinu en einnig hina ýmsu “matarminjagripi” úr tómötum og gúrkum.

Fullkomið í sumar

Heimsókn í Friðheima er æðisleg afþreying í sumar, hvort sem það er rómatísk paraferð eða með alla fjölskylduna. Staðurinn er þó gífurlega vinsæll og því þarf núna að bóka borð fyrirfram.

Kveðja,

Ása Steinars