Ása Steinars skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Ása Steinars – Vetraferð í Þórsmörk

Þórsmörk er án efa einn af fallegri stöðum landsins! Það er ekkert sem jafnast á við kyrrðina inni í dalnum sem er umlukinn jöklum og háum fjallatindum. Þórsmörk er drauma staður náttúruunnenda og ljósmyndara á öllum aldri. Landslagið er samspil eldfjalla, jökla, og jökuláa og er ægifagurt hvert sem litið er.

Útivistarmöguleikarnir eru endalausir og þá sérstaklega þegar kemur að fjallgöngum. Auk þess er veðurfarið í Þórsmörk frekar milt þar sem há fjöllin mynda ákveðið skjól. Sem betur fer er nokkuð torfærið að komast í Þórsmörk og nánast ómögulegt er að ferðast þangað á venjulegum fólksbíl. Ég hins vegar, tek því fagnandi þar sem það verndar svæðið frá massatúrisma og fyrir mikilli umferð um svæðið.

Vetrarferð í Þórsmörk

Við ákváðum að skella okkur í helgarferð í Þórsmörk í lok Janúar á þessu ári. Ég hef oftast heimsótt Þórsmörk að sumri til en sjaldnar um hávetur. Því fanst mér eitthvað einstaklega heillandi við að skella mér þangað á þessum tíma þar sem ferðamannastraumur í Þórsmörk liggur nánast niðri yfir vetratímann.

Ein af uppáhaldsmyndunum sem ég tók, hægt er að finna fleiri hér. 

Hvað þarf að hafa í huga?

Við vorum ansi stressuð áður en við lögðum af stað, sérstaklega eftir rigningarveðrið sem hafði geisað síðustu daga þá voru flestar ár landsins straumharðar og vatnsmiklar. Við hins vegar útveguðum okkur viðeigandi búnað og eflaust það mikilvægasta í þessu öllu, fjórhjóladrifinn upphækkaðann Land Rover frá Geysi bílaleigu.

Flotti kagginn okkar!

Það eru aðeins fjallajeppar sem komast yfir grýttu og straumhörðu árnar á borð við Krossá sem er jökulá og breytir sér því oft. Yfirferðir yfir árnar geta verið hættulegar og hafa orðið nokkur banaslys í ánni. Auk þess er mikilvægt að þekkja svæðið og alltaf kanna aðstæður hverju sinni. Það getur verið skynsamlegt að hafa meðferðis reipi, skóflu og jafnvel prik til þess að vaða árnar og kanna dýpt þeirra.

Gisting

Þrátt fyrir stressandi akstur þá nutum við þess að keyra í Þórsmörk en stoppuðum að sjálfsögðu á helstu stöðum á leiðinni eins ot t.d. við Gígjökul.

Fundum þennan litla íshelli

Eftir hálfsdags akstur vorum við farin að verða spennt að komast í skálana hjá Volcano Huts sem er staðsettur í Húsadal. Volcano Huts býður upp á gistingu og veitingar í notalegum fjallaskálunum þeirra. Auk þess eru í boði fjögurra til fimm manna smáhýsi og einnig tveggja manna herbergi. Við vorum enn spenntari þegar við sáum að það var gufubað og heit náttúrulaug á staðnum. Skálinn var afar tómur á þessum tíma árs en þar voru samankomnir nokkrir ljósmyndarar sem dvelja þar oft yfir vetramánuðina í leit að fallegu myndefni.


Við flugum drónanum yfir Stakkholtsgjá!

Valahnjúkur, draumur ljósmyndarans

Við ákváðum að slást í hóp með nokkrum ljósmyndurum að ganga upp á Valahnjúk rétt fyrir sólarupprás og fylgjast með fyrstu geislunum dagsins varpast á fjallatindana. Gangan er nokkuð auðveld og er ein af vinsælustu gönguleiðunum í Þórsmörk enda er fátt sem toppar útsýnið þar sem þú ert með hringsjá yfir allan dalinn og nærliggjandi fjöll í 458 m hæð. Þegar upp er komið sést markarfljót teygja sig niður í átt að suðurströndinni og auk þess sjást ýmis gil og sprungur. Við nutum þess að sitja á toppinum og finna sólina koma hærra upp á meðan við smelltum af myndum.

Ótrúlega magnað útsýni þennan morguninn!


Þessir tveir eru uppáhalds ferðafélagarnir mínir!


Sólin að koma upp sem endurvarpast í Markafljóti fyrir neðan! 

Áhugaverðir staðir

Það væri auðveldlega hægt að eyða heilum mánuði í Þórsmörk og kanna nýja og spennandi staði. Það er til dæmis mögulegt að ganga á jökulinn, ganga hina þekktu gönguleið Laugaveginn yfir í Landmannalaugar, Stakkholtsgjána eða Fimmvörðuháls. Einnig eru einstaklega fjölbreyttar styttri gönguleiðir innan svæðisins og mætti þar sem dæmi nefna göngu í Litla Enda eða Strákagil.


Hvað er betra en smá jóga í náttúrinni! 🙂 

Dýralíf

Það er ekki einungis falleg náttúra sem heillar ljósmyndarana, heldur er það einnig fjölbreytt dýra- og plöntulífið. Þegar við vorum þarna í Janúar var refafjölskylda á vappi um svæðið okkur til mikillar ánægju. Við eyddum ófáum stundum liggjandi í snjónum að fylgjast með þeim.


Þeir bræddu hjartað mitt!!


Afhverju er ekki hægt að eiga ref sem gæludýr?

 

Myndavélabúnaður

Sem ferðaljósmyndari eru nokkrir hlutir sem skipta mig máli. Annars vegar er það að myndavélin skili góðum gæðum og hins vegar að hann þoli smá hnjask og erfiðari aðstæður. Þessa dagana er ég með Canon EOS 760d vél sem ég er rosalega ánægð með. Það sem ég hef tekið sérstöku ástfóstri við er WiFi eiginleikinn og snerti-shutterinn, þá get ég valið hvaða viðfangsefni ég við hafa í fókus einfaldlega með því að snerta það á skjánum.

Linsur

Á ferðalaginu mínu um Þórsmörk var ég einungis með eina linsu (ótrúlegt en satt..). En þar sem ég á eftir að uppfæra linsuflotann minn þá smellti ég öllum myndunum á föstu portrait linsuna: Canon EF 50mm f/1.4 USM. Hún er ekki beint ætluð í landslags og dýralífsljósmyndir, en maður kemst samt ótrúlega langt með henni og myndirnar verða yfirleitt afar skarpar.

Finndu mig einnig á Instagram:

Bestu kveðjur,

Ása Steinars