Erna Sigmundsdóttir skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Askasleikir prýðir Óslóartréð á Austurvelli sem kveikt verður á klukkan 16:00 í dag 3.desember

Kveikt verður á ljósum Óslóartrésins á Austurvelli kl. 16 í dag, sunnudaginn 3. desember.

 

Tréð er prýtt Jólaóróa Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, Askasleiki, eftir Guðmund Odd Magnússon (Godd). Ásta Fanney Sigurðardóttir, handhafi Ljóðstafsins í ár, samdi kvæðið Nótt nr. 17um Askasleiki en það verður flutt á tendruninni.

 

Allur ágóði af sölu rennur til Æfingastöðvarinnar

Þetta er í tólfta sinn sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur út jólaóróann. Kertasníkir var fyrstur í röðinni en hann kom út fyrir jólin 2003. Reykjavíkurborg hefur frá upphafi stutt verkefnið með því að skreyta Óslóartréð með óróa ársins. Allur ágóði af sölu jólaóróanna rennur til Æfingastöðvarinnar sem Styrktarfélagið rekur.

 

Á Æfingastöðinni sækja börn og ungmenni með frávik í hreyfingum og þroska þjónustu. Þau fá aðstoð sjúkra- og iðjuþjálfa við að bæta færni sína í leik og starfi svo þau geti þroskast, dafnað og notið lífsins.  Æfingastöðin sinnir einnig ákveðnum hópi fullorðinna einstaklinga, svo sem þeim sem hafa verið hreyfihamlaðir frá barnæsku eða eru með Parkinsonsjúkdóm. Nánar um Æfingastöðina hér.

 Sala Askasleikis fer fram í gjafavöruverslunum um land allt dagana 6. – 20. desember og í glænýrri netverslun Styrktarfélagsins á http://www.jolaoroinn.is Askaleikir kemur í gjafaöskju og honum fylgir bæklingur með ljóðinu Nótt nr. 17.