Asta Magnusdottir skrifar Flokkað undir Matur & Vín.

Ásta – Kjúklingur með sætum kartöflum, feta og spínati

Heil og sæl! Uppskriftin sem að ég deili með ykkur í dag geri ég oft á mínu heimili. Systir mín og eiginmaðurinn hennar buðu mér í mat og þessi frábæri réttur var á boðstólnum. Innihaldið í þennan kjúklingarétt eru kjúklingabringur, sætar kartöflur, krukka af fetaosti og poki af spínati.

Kjúklingur með sætum kartöflum, fetaosti og spínati.

1. Byrjið á því að hita ofninn í 200°C og á meðan skerið þið sætar kartöflur í þunnar skífur. Setjið þær svo í eldfast mót með skvettu af ólífuolíu og kryddið með salti og pipar. Þær fara svo inn í ofninn í 15-20 mínútur.

2. Á meðan kartöflurnar eru í ofninum takið þið kjúklingabringurnar og „lokið“ þeim á heitri pönnu, nokkrar mínútur á hverri hlið og kryddið með salti og pipar. Það þarf ekki að fullelda kjúklinginn á pönninni en hann fer í ofninn seinna og fulleldast þar.

3. Þegar kjúklingabringurnar eru „lokaðar“ tekur þú kartöflurnar úr ofninum og leggur kjúklingabringurnar ofan á þær.

Kærastinn minn kom með þá frábæru hugmynd en það var að smyrja pestó á kjúklingabringurnar, áður en þær fara í ofninn. Ef þið eruð pestó aðdáendur mæli ég eindregið með að smyrja því á kjúklinginn eftir að búið er að „loka“ honum. Kjúklingabringurnar tvær til hægri á myndinni eru smurðar með rauðu pestói en hinar tvær eru eintómar.

4. Setjið spínat á milli kjúklingabitanna og passið að brenna ykkur ekki! Ég nota ca.100 grömm af spínati en það fer bara algjörlega eftir smekk. Ef þið eruð ekki fyrir eldað spínat er í góðu lagi að sleppa því og borða það ferskt með.

5. Að lokum setjið þið svo fetaostinn yfir allt saman. Ég nota ekki mikið af olíunni í ostakrukkunni heldur veiði ég allan ostinn upp úr og set yfir. Setjið svo mótið inn í ofninn aftur í 25-30 mínútur þar til kjúklingurinn er fulleldaður.

Njótið vel!

Ásta

Fylgstu með á Instagram HÉR

Snapchat: astaeats