Emilia skrifar Flokkað undir Matur & Vín.

Emilía – Kryddbrauðið sem svo margir elska

Þegar við Pálmi og stelpurnar áttum heima í Danmörku þótti mér fátt skemmtilegra en tilraunast inní eldhúsi. Við Aldís vorum heima á daginn, Perla í leikskólanum og Pálmi að fljúga og það má segja að það hafi alltaf beðið eitthvað nýtt góðgæti handa þeim í lok dags þegar þau komu heim. Ég nýtti vel tímann sem Aldís svaf úti til þess að baka og einn daginn prófaði ég þessa uppskrift.

Við buðum oft vinum í kaffi og undantekningalaust ef ég hafði bakað þetta kryddbrauð endaði sú heimsókn á að ég skrifaði niður uppskriftina, svo vinsæl var hún. En það sem ég elska við þetta kryddbrauð að það er enginn hvítur sykur, og í raun má leika sér með sætuna. Það er hægt að nota hrásykur, kókospálmasykur, sukrin, svo eitthvað sé nefnt en sjálf hef ég notað helst hrásykurinn og kókospálmasykur til skiptanna.

Jæja, ég ætla að hætta þessu blaðri-  hér kemur uppskriftin

Kryddbrauð Emilíu

2,5 msk kakó
3 dl gróft spelthveiti
3 dl haframjöl
2 dl hrásykur eða kókospálmasykur (ég nota 1 dl af hvorum)
2,5 tsk vínsteinslyftiduft (minna ef þið eruð með venjulegt)
1 tsk engifer
1 tsk negull
2 tsk kanill
1/2 tsk múskat
3,5 dl mjólk

Aðferð:
Þurrefnum blandað vel saman
Mjólk útí
Deig á að vera vel blautt
Sett í mót
Bakað við 180 gráður í 40 mín.
*Brauðið á að vera svolítið blautt og klesst

Persónulega finnst mér svo langbest að borða brauðið nýbakað með smjöri og rjúkandi heitum kaffibolla.

Ég skora á ykkur að  prófa, sérstaklega ef ykkur langar að velja hollari bakstur.

Kveðja,

Emilía Björg
Snapchat: emiliabj

ebo-11