Emilia skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Emilía- Þegar ég varð stúdent 10 árum á eftir áætlun

Í dag eru akkúrat 3 ár síðan ég ákvað að skrá mig í skóla. Eftir margra ára vangaveltur var ég staðráðin í að klára þennan blessaða stúdent sem mér fannst hálf hanga yfir mér.

img_5444

Lífið lék um okkur í Danmörku.

Á þessum tíma bjuggum við Pálmi í Danmörku. Perla Emilía fór í leikskólann þennan mánudagsmorgun, Pálmi var í flugi og Aldís Huld var sofandi í vagninum. Ég sat og drakk kaffibollann minn þegar ég sá auglýsingu sem náði athygli minni strax. Háskólabrú Keilis. Kláraðu stúdentinn á 1 ári. Já takk ég var til í það! Um var að ræða fjarnám og þar sem ég var búsett erlendis færi öll kennsla fram á netinu og eins líka vinnuhelgar. Ég hringdi strax til Íslands og fékk samband við námsráðgjafa sem tjáði mér það að þetta væri mjög erfitt og krefjandi nám og þá sérstaklega stærðfræðin, námið væri kennt á stuttum tíma og að nemendur þyrftu að vera meðvitaðir um það. Fyrsta vinnuhelgin hafði verið um líðandi helgi og ég því búin að missa aðeins úr en ég gat unnið það upp.

Ég skráði mig í námið, hringdi í mömmu, og fékk hana til að fara á stúfana og redda mér öllum námsbókunum. Hún fékk það sem þurfti til og var búin að senda það í póst strax sama dag.

img_6740

Mig dreymdi um að eignast þessa.

Pálmi kom heim seinnipartinn og ég hafði heldur betur fréttir að færa honum. Ég var búin að skrá mig í 1. árs nám og ætlaði að klára stúdentinn. Fá loksins húfuna sem mig dreymdi um. Það má segja að þetta hafi verið algjör skyndiákvörðun þar sem ég var í raun ekki á leiðinni í neitt nám á þessum tímapunkti, Aldís var bara 9 mánaða og við höfðum það gott saman í fæðingarorlofi og eins líka var Perla að blómstra í danska leikskólanum en ég fann að ég varð að klára þetta.

Þetta var mjög stremmbið og mikil keyrsla en mikið var gaman að sanna það fyrir sjálfri mér að ég gat þetta og ekki bara það að ég gæti þetta heldur stóð ég mig ótrúlega vel. Ég var með glæsilegar einkunnir í öllum áföngum, stærðfræðina skildi ég vel og má segja að ég hafi haft ótrúlega gaman af því að læra hana. Vissulega komu tímar sem ég hugsaði að það væri kannski ágætt ef Aldís væri á ungbarnaleikskóla en ég hreinlega var ekki tilbúin að missa hana frá mér allan daginn, ég skipulagði mig því vel og þegar Pálmi átti frídaga lærði ég allan daginn, og með því gekk þetta allt saman upp. Það er vissulega örðuvísi að vera svona “einn” erlendis og ekki með fjölskylduna hjá sér til að aðstoða en við hjónin unnum rosalega vel saman og vorum með skýr markmið fyrir þetta ár.

Í byrjun árs 2015 fékk ég svo loksins húfuna. Orðin 30. ára gömul og má því segja 10 árum á eftir “áætlun”. Ég var að rifna úr stolti, stolti yfir því að ég hafi klárað þetta og gert það vel. Ég var loksins orðin stúdent!

img_6764

Þessi dagur var yndislegur.

Ef ykkur dreymir um að klára eitthvað þá hvet ég ykkur til að hafa trú á ykkur sjálfum og trúa því einnig að með viljann að vopni er allt hægt.

Kveðja,

Emilía Björg

Þið finnið mig á snapchat undir emiliabj og instagram undir emiliabj.snap