Stefania skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Er það undir karlmönnum komið að taka fyrsta skrefið?

Hlutverk kynjanna er síbreytilegt og hafa þróast með árunum. Það var sá tími (og er vissulega enn í vanþróaðri löndum) að konur fengu engu um það ráðið hverjum þær giftust eða um fjölda barna sem þær eignuðust. Þegar þetta fór að breytast og réttur kvenna varð meiri voru samt húsverk yfirleitt í verkahring kvenna þar sem þær voru heima með börnin, ef farið var út að borða sá karlmaðurinn um reikninginn vegna þess að það var hann sem fékk tekjurnar osfr.

En þrátt fyrir breytinguna sem hefur átt sér stað á síðustu áratugum er margt af þessu gamla fari sem situr eftir. Meira að segja í dag, á Íslandi, þar sem konur hafa jafn mikinn rétt til atvinnu og ákvarðanna um líf sitt og karlmenn eru enn stúlkur sem að bíða starandi á símann eftir því að strákar sendi þeim skilaboð. Nútíma aðferðir svo ótalmargra stúlkna í dag til þess að ná hylli karlkynsins takmarkast við það að setja inn sætar myndir á Instagram eða í Snapchat story. Síðan er beðið eftir viðbrögðum. Ég veit ekki hversu oft stelpur í kring um mig segjast tengja við þessa setningu þegar lagið heyrist í útvarpinu:

„Ég mun like-a þig á insta, ég er búin að reyna allt baby finnst það“

Virkilega?

Þessar hömlur sem að stúlkur finna fyrir hafa líka slæm áhrif á strákana. Afhverju er enn í dag sett pressa á þá til þess að taka fyrsta skrefið? Hvers vegna er það ekki jafn mikilvægt að kenna stúlkum að vera sjálfstæðar og sterkar og það er að kenna strákum að fela ekki tilfinningar sínar og óöryggi?

Ég átti athyglisvert samtal um daginn við vin minn þar sem að við ræddum þessi mál. Hann var að tjá vonbrigði sín um hversu lítið konur taka af skarið og ég sagði honum að sorglegt en satt, þá óttast stelpur það að strákum finnist það óheillandi ef að það séu þær sem að taki fyrsta skrefið. Við þessu fékk ég eitt besta svar sem ég hef heyrt:

„Hversu mikill aumingi þarf sá maður að vera að hann höndli ekki konu með smá bein í nefinu?“

Vegna þess að við búum ekki lengur í samfélagi þar sem að það er karlmannsins skylda að ganga á eftir konum og kvenna að láta eftir sér ganga. Við þurfum að losna undan áhrifum gamalla hefða fyrir sakir beggja kynja. Kennum stúlkum að þær megi hafa öryggið til þess að reyna við þá stráka sem að þær heillast af og kennum strákum að það sé eðlilegt að vera óöryggir við að gera hið sama. Tökum þessa pressu af báðum kynjum og höldum áfram að þróast í átt að samfélagi jafnréttis og virðingar.

Stefanía