Erna – Dásamlega falleg Orkídea ein af mínum uppáhalds

Orkídeur eru svo fallegar og ein af mínum uppáhalds blómum.

 

Umhirðan: Orkídea verður að standa á vel björtum stað, norður-, austur- og vesturgluggi er heppilegur vaxtarstaður og suðurgluggi yfir háveturinn, plönturnar geta staðið rétt innanvið góða birtuglugga. Orkídeur þola hitastig frá 15-27°C og því er okkar stofuhiti, 18-24°C, hentugur fyrir þessar hitabeltisplöntur.

Jarðvegur: Orkídeum er plantað í mjög grófan og loftríkan jarðveg sem minnir á þær aðstæður sem þær vaxa á í náttúrunni, þetta er einskonar barkarmulningur. Ekki rjúka til og umplanta nýkeyptum plöntum og þær gömlu geta verið í 2-3 ár í sama pottinum ef þeim er gefinn smá næring yfir sumartímann, munið máltækið “vikulega veika blöndu”.

Vökvun: Ráðlagt er að vökva vikulega að sumrinu og á 10-14 daga fresti að vetrinum, magn u.þ.b. 1 bolli, 1/2 glas. “Gullna reglan” meiri birta meira vatn, minni birta minna vatn, passa að ekki liggi vatn á rótunum og varast skal að láta vatn sitja í blaðhvirfingunni, það getur orsakað fúa.

Áburðargjöf: Góð regla, að gefa á tveggja vikna fresti að sumrinu ½ styrkleika af ráðlögðum skammti á áburðarglasinu og á 4 vikna fresti að vetrinum ¼ styrkleika af ráðlögðum skammti. Það tekur ungar plöntur 3-6 mánuði að mynda nýja blómsprota.