ErnaKristín skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Erna Kristín – Ég man að kvíðinn á milli rembinga var það skelfilegasta sem ég hef upplifað, að bíða eftir næsta rembing var andleg pynting

Ég var að skrolla niður pistlana sem ég hef skrifað síðan ég byrjaði að blogga hjá krom.is…
Ég fann einn sem ég póstaði aldrei, en hann var samt tilbúin. Ég man ástæðuna afhverju ég póstaðu honum aldrei, en ástæðan var sú, að ég þorði ekki að pósta honum. Ég þorði ekki að deila þessum “veikleika” með rúmlega 70 þúsund manns á viku sem lesa bloggið okkar . Í dag hef ég allt aðra sýn á þennan “veikleika” ég vil frekar nýta mér þann styrkleika að geta deilt viðkvæmum málefnum í von um að hjálpa öðrum.

Pistilinn má lesa hér að neðan

Þegar ég gekk með Leon Bassa var ég rosalega kvíðin fyrir fæðingunni. Ég gat ekki horft á þættina “One Born Every Minute” því ég átti þá til að ofanda úr hræðslu, og ég meina það….Bassi þurfti að halda mér í svefn vegna hræðslu. ( Enda tók hann þættina úr umferð mjög fljótlega ) Ég hefði farið í keisaraskurð hefði það verið í boði á þeim tímapunkti, og ekki einusinni hikað.
Ég var rosalega hrædd, en reyndi þó að sannfæra sjálfan mig með því að segja reglulega upphátt að margar konur ganga í gegnum fæðingu, geta þetta, gera þetta aftur og jafnvel aftur. Ef þær geta það, þá get ég það líka.

Þetta gat ég, ég gat fætt barn án mænudeyfingar en alls ekki án ótta.

Fæðingin mín var löng og var ég virkilega þreytt. Ég get varla farið að telja þetta upp í skrefum, ykkar vegna aðallega…..
Allt ferlið tók um 28 tíma og á undan þessum 28 tímum hafði ég lítið sem ekkert sofið alla vikuna vegna grindagliðnunar.
Leon Bassi var skakkur í grindinni og frekar stór, sem gerði það að verkum að rembingarnir voru margir.
Ég las margar fæðingasögur eftir fæðinguna, og áberandi var hversu ólíkar þær voru.
Upplifun kvenna í þessu óútreiknanlega ástandi er svo mismunandi.

Ég man að kvíðinn á milli rembinga var það skelfilegasta sem ég hef upplifað, að bíða eftir næsta rembing var andleg pynting. Mér leið eins og ég væri varnarlaus, hrædd lítil stelpa í pyntingum sem ætluðu engan engi að taka.
Ég skammaðist mín lengi fyrir þessa upplifun því ég vildi vera þessi hugrakka magnaða kona sem samfélagið er búið að mála mynd af.

 Þegar ljósið í lífi mínu kom í fangið á mér var mín fyrsta hugsun “þá er þetta búið, þetta geri ég aldrei aftur” Ég er viss um að ef hræðslan hefði ekki verið svona rosaleg, hefði upplifunin verið betri og fæðingin farið betur fram. Mér fannst ég einfaldlega ekki hafa staðið mig vel og fékk því samviskubit í garð barnsins míns. Fyrstu nóttina svaf Leon Bassi lítið og var því þreytan komin á annað stig. Líkamlega og andlega veit ég ekki hvar ég var. Ég var hamingjusamasta móðir í heimi en á sama tíma var ég full af ótta og andlegri bugun.

Svo leið á og litla kraftaverkið okkar bræddi okkur sundur og saman og alla aðra í kringum sig.
Tengingin á milli okkar var svo undur sterk og mér fannst ég hafa þekkt hann alla mína æfi, ég var einfaldlega of heppin. Ég sveif á hamingjuskýjinu mínu og tók að einangra mig frá raunheiminum.

Mér fannst best að vera með hann heima þar var hann öruggur. Þegar leið á sumartímann var vagninn tekinn fram en þá fyrst fór ég að finna aftur þennan ótta, hann var nánast áþreyfanlegur. Kvíðinn og hræðslan við allt í kringum mig tóku völdin. Ég var hrædd við allt og mér leið eins og allir voru að elta mig eða plana að taka barnið mitt frá mér, á miðjum sumardegi. Það voru alls ekki allir dagar jafn slæmir, ég var rosalega dugleg að labba með vagninn en það klikkaði ekki að í hverri gönguferð þá kom þessi tilfinning upp, sama tilfinning og ég fékk í fæðingunni, varnarlaus.

Kvöldin voru einnig mjög erfið því öll vitum við að hugsanir rétt fyrir svefninn geta verið óraunhæfar. Ég var farin að ímynda mér það allra versta, og náði því ekki að festa svefn sökum hræðslu. Þessi ótti og þetta varnarleysi minnkaði með tímanum vegna þess að ég var svo heppin að átta mig á vandamálinu.

Ég vildi óska að meiri fræðsla væri um fæðingarkvilla, en ég tók próf hjá ljósmóðurinni sem allar mæður taka á einhverjum tímapunkti varðandi fæðingaþunglyndi og aðra kvilla. Ég flaug auðveldlega í gegn um þetta svokallaða próf þrátt fyrir kvíðan eftir fæðinguna, það sá í raun enginn hvað var að, ekki einusinni ég sjálf.
Í dag er óttinn ekki farinn en ég hef mun meiri stjórn á honum. Ég myndi ekki telja mig varnarlausa lengur en ef ég verð það heppin í framtíðinni að ganga með annað barn þá er ég meðvitaðari um þessa upplifun og get þá leitað mér hjálpar fyrir fæðinguna og eftir fæðinguna ef þess þarf.

Ég hvet allar mæður til að gera sitt allra besta í að finna góð tengsl við tilfinningar sínar á meðgöngunni og eftir fæðinguna. Það skiptir svo rosalega miklu máli að geta notið þess að vera með ungabarn án þessarar ótta tilfinningu allan sólarhringinn.


Verum duglegri að biðja um hjálp og tala opinskátt fyrir okkur sjálf og aðra í kring !

Instagram & Snapchat : Ernuland

Takk fyrir að lesa

Xx

Erna Kristín