ErnaKristín skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Erna Kristín – Fyrirmyndir samfélagsmiðla

Nú held ég uppi stórum Snapchat reikning Ernuland með mjög breiðum aldurshóp. Á snappinu mínu sýni ég allskonar nýjungar, listaverkin mín, held safnanir, sýni frá daglegu lífi og tek fylgjendahóp minn með mér í allskonar ævintýri og verkefni sem fylgja mínu daglega lífi ofl.
Ég reikna með að aldurinn fari alveg niður í 9 ára til 60 ára.
Vert er að taka fram að snapchat er með 13ára aldurstakmark & er það því algjörlega á ábyrgð foreldra hvað börnin þeirra horfa á.
Ábyrgð….já enmitt, hvar liggur ábyrgðin þegar kemur að Snapchat?


Núna fæ ég að heyra reglulega að ég sé fyrirmynd, sem er auðvitað æðislegt ! Ég vil auðvitað vera fyrirmynd….en ég vil samt alls ekki breyta mér fyrir þennan miðil, því þá fyrir það fyrsta væri ég ekki sönn sjálfri mér, né að koma með raunhæfa mynd fyrir aðra hvað varðar sannleikan á bakvið mig sem persónu.

Ég er langt frá því að vera fullkomin, ég á það til að blóta.
Ég fæ mér stundum 1 ískaldan bjór á virkum kvöldum & ég kem til dyrana eins og ég er klædd. Þvotturinn fær oft að bíða & fleiri atriði sem passa ekki inn í þennan ákveðna fyrirmyndarramma látin flakka inn á snappið. Ekkert af þessu er ég að fela til þess að standast fyrirmyndar stimpil sem skyndilega hlekkjast við mann þegar maður opnar snapchat reikning. Ég er fullorðin manneskja sem er hæf til þess að taka ákvarðanir hvort mér finnist í lagi að fá mér bjór á miðvikudagskvöldum frekar en að brjóta saman þvottinn.

Ég er ekki að hjóla hjálmlaus niður kambana með bjór í hönd, öskrandi blótsyrði á meðan ég snappa, en skilaboðin sem ég fæ stundum ef ég er ekki fullkomin fyrirmynd allra, hljóma stundum eins og ég hafi verið að fremja glæp eða jú enmitt hjóla niður kambana hjálmlaus, blindfull & öskrandi á satanísku….

Ég vil ekki breyta mér sem persónu þótt ég opni Snapchat eða verði prestur.
Ég tel mig vera fyrirmynd vegna þess að ég er heiðarleg og samkvæm sjálfri mér.

Auðvitað hvet ég alla til þess að nota hjálm, ekki blóta & drekka í hófi, en það breytir því ekki að ábyrgðin liggur ekki hjá mér hvað þið kjósið að gera eftir áhorf ykkar á Snapchat.

Fólk fylgist með snöppurum, allskonar snöppurum. Sumir eru með öll öryggis atriði á hreinu, sem er æðislegt…en þá er líka eins gott að fylgja því 100% eftir ef maður ætlar að taka það stóra hlutverk að sér.

Sumir eru alltaf vel til hafðir og líta út fyrir að eiga fullkomið líf án nokkura hindrana, sem er líka bara æðislegt…ef svo er.

Sumir mála sig áður en þeir snappa, sem er bara algjörlega þeirra ákvörðun, en þeir sem horfa verða að gera sér grein fyrir því að þótt að þessi manneskja sé alltaf máluð, þá þurfið þið ekki að missa það yfir viðkomandi fyrir að vera ekki fyrirmynd ungra barna, heldur þurfið þið að útskýra fyrir barninu ykkar að allt er gott í hófi og fegurð gefi ekki hamingju…eða hvernig sem þið viljið útskýra þetta.
Sú sem snappar er ekki ástæðan fyrir því að barnið þitt geti ekki lengur farið út úr húsi án þess að mála sig, heldur er það þitt sem foreldri að fylgjast með, og útskýra hvað er eðlilegt, rétt eða rangt hverju sinni.

Sumir snapparar eru ekki með neina sérstaka dagskrá á snappinu, sýna þegar þeir snappa og keyra, djamma, blóta, og guð má vita hvað….ég myndi t.d ekki vilja að barnið mitt myndi fylgjast með reikingi sem slíkum, en þótt svo að ég sjálf fylgist með, þá myndi eg líka alltaf vita að þótt að þessi manneskja snappi og keyri eða blóti og djammi, þá ætla ég ekki endilega að apa það eftir eða senda þessari manneskju skilaboð um að nú sé hún snappari og því dæmd til þess að passa inn í fyrirmyndarkassan þar sem allir eru með allt á hreinu, blóta ekki, hjóla með hjálm, borða ekki sykur nema um helgar, drekka ekki bjór & eiga hreint heimili….

spáum aðeins í hvernig snapchat heimurinn væri ef allir væru svona…ef fjölbreytileikinn væri neyddur til þess að fara inn í þennan ákveðna fyrirmyndarkassa sem er jú mjög breytilegur eftir fólki & því mjög erfitt að standast, og ef við hlýðum ekki þá fáum við skammir fyrir að vera ekki fyrirmyndir fyrir ykkar börn eða ykkur sjálf.

En hvar liggur ábyrgðin á að vera hin fullkomna fyrirmynd fyrir aðra….er það hjá okkur snöppurum? eða er það hjá okkur sjálfum og foreldrum barnanna sem horfa? Ég tel seinni kostinn vera réttan. Afhverju ? Vegna þess að það er á okkur sem einstaklingum og foreldrum að útskýra fyrir börnunum okkar eða okkur sjálfum hvað við teljum vera eðlilegt í daglegum athöfnum.
Það er ekki á ábyrgð snappara að breyta sér eða passa að fitta inn í hinn fullkomna fyrirmyndarramma fyrir börnin ykkar eða ykkur sjálf.
Við öll verðum að geta gert greinamun á hvað er rétt og rangt, eðlilegt eða of mikið, og þannig enmitt útskýra fyrir börnunum okkar, því það erum jú við sjálf sem ölum þau upp og kennum þeim hvað við teljum vera rétt hverju sinni.

Snapchat er óritskoðaður miðill og vil ég því hvetja foreldra að fylgjast vel með hvar börnin ykkar eru að horfa á, og vera sjálf meðvituð um hvað þið eruð að horfa á. Við berum ábyrgð á okkar ákvarðanartökum og uppeldi.

Ást & Friður. 

xx

Erna Kristín