ErnaKristín skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Erna Kristín – Gleði alla daga…..já takk.

Hver vill ekki vara glaður alla daga?

Ég held að þú viljir lesa áfram ef ég segi þér að lausnin fyrir þig er mögulega hér fyrir neðan….

Hvað er gleði? 
Við vitum að gleði er tilfinning, sem getur haft mikil áhrif á huga okkar.
En afhverju er svona erfitt að stjórna því hvenær við erum glöð og hvenær ekki ? Afhverju þarf stundum lítið sem ekkert að gerast, til þess að spilla gleðinni ?

Mig langar að biðja ykkur um að hugsa hvenær þið voruð síðast glöð.

Dagurinn er aðeins hálfnaður en ég tel miklar líkur á að flest okkar höfum fundið fyrir gleði í dag, því það er nefninlega svo margt sem færir okkur gleði í lífinu.

Mig langar að biðja ykkur um að hugsa í hvernig aðstæðum tilfinningin gleði kom upp í huga ykkar, hvað var það sem þú varst að gera?

Í hvernig aðstæðum varst þú þegar þú fannst gleði.

Mér finnst líklegt að gleðin hafi læðst að þér þegar þú varst með manneskju sem þú elskar,
..eða þegar þú hugsaðir um manneskju sem er ekki með þér lengur, en þú minnist í dag,
..eða kannski varst þú manneskjan sem veittir þér innri gleði, kannski varstu úti í náttúrunni eða að iðka eitthvað sem ræktar gleðina innra með þér.

Gegnumgangandi í boðskap Jesú er að hann talar um himnaríki og þegar hann rammar sæluboðin inn í þetta hugtak, himnaríki, þá er hann að tala um einhvern stað, hvorki í nútíð né framtíð, hvorki á jörðu né á himni, og eins og ég skil þetta, þá eru sæluboðin sjálfsmyndin okkar og himnaríki er hugur okkar. Jesús staðhæfir að við séum fædd til að vera glöð og að okkur sé ætlað að lifa í fögnuði og því er mikilvægt að rækta sjálfsmyndina og gleðina.

Víngarðurinn byrtist okkur víða í Biblíunni og hefur að geyma ýmisskonar túlkanir en þar á meðal samlíkingu fyrir akur andlegrar vinnu. Í ritningunum táknar víngarðurinn venjulega Ísraelsætt eða ríki Guðs á jörðu en stundum er átt almennt við fólkið í heiminum, fólkið í kringum okkur og fólkið sem við mætum á götum úti.

Í mínum skilningi er himnaríki því ekki staður og stund, nútíð né framtíð….himnaríki er ástand, en hvernig ástand?

Ef við hugsun okkur einn vikudag til að vera ekki glöð á þeim degi, hvaða dagur væri það?
Það er frekar erfitt að velja dag, því auðvitað viljum við vera glöð alla daga. En hvernig? Hvernig förum við að því að vera glöð alla daga.

Núna langar mig að biðja ykkur að hugsa aðeins út í það, hvenær og í hvernig aðstæðum þið voruð í síðast þegar eitthvað spillti gleðinni ?

Varstu sett eða settur í hóp í skólanum eða vinnunni með manneskju sem þér líkar ekki við?
Varstu að lesa leiðinleg komment undir fréttum á vísi? Eða varstu jafnvel með ástvini sem sagði eitthvað eða gerði eitthvað sem þér mislíkaði ?

Það þarf nefninlega ekki mikið til að spilla gleðinni.

Sumir hafa lengra þol en aðrir, en þetta snýst í raun ekki um það, á einhverjum tímapunkti í þessari eða í næstu viku mun einhver eða eitthvað spilla fyrir þér gleðinni á einhvern hátt, þótt það sé bara eitt stundarkorn eða jafnvel til þess að eyðileggja gleðina allan daginn.

Gott er að muna að ekkert sem annað fólk gerir er vegna þín.
Það sem aðrir segja og gera, er speglun af þeirra eigin veruleika, og hugarástandi.
Þegar þú hættir að taka orðum og gjörðum annara persónulega, verður þú ekki lengur fyrir neikvæðum áhrifum annara.
Við getum ekki stjórnað því hvernig aðrir haga sér eða hvernig aðrir sjá lífið.

Ég tók fram í byrjun að gleði væri tilfinning.

Er tilfinning ekki eitthvað sem við finnum innra með okkur?

eitthvað sem ákveður hvernig okkur líður með ákveðna atburði, aðstæður, lykt, bragð eða manneskjur.

En hvað ef við skoðum líkamann aðeins nánar, þá vitum við að hjarta okkar slær hraðar þegar við erum stressuð, við jafnvel svitnum í erfiðum aðtæðum og umræðum, við brestum í grát, við hlæjum, hugur okkar fer á fullt og allt stundum án nokkurra útskýringa.

Hvað ef við náum stjórn?

Hvað ef við hugsum að allar þær tilfinningar sem við upplifum sé hugarástand.Hugarástand sem við getum náð stjórn á?

Og ef svarið væri að með því að ná stjórn á hugarástandi þá höfum við stjórn á gleðinni og tilfinningum okkar.

Væri það þá ekki vert að skoða nánar?

Ég held að við flest getum verið sammála um að það væri amk ekki verra að hafa smá stjórn og ákveða sjálf hvenær við erum glöð og að hætta að láta aðra bera ábyrgð og hafa áhrif á okkar gleði.

Við sjálf ákveðum nefninlega hvenær við erum glöð, við þurfum bara að komast í þessa djúpstæðu gleði, því hún hverfur ekki þó að eitthvað komi okkur úr jafnvægi.

Það er því mikilvægt að rækta gleðina, víngarðinn, svo við séum betur í stakk búin að takast á við þá erfiðileika sem mæta okkur.

Jesús sagði að við yrðum glöð með því einu að eiga vináttu sína. Vertu í mér, þá verð ég í þér. Ég dó og reis upp fyrir þig. Ég er freslari þinn. Ég elska þig. Jesús gefur okkur styrkinn til að taka á móti gæfu hvers dags og hann gefur okkur frið hugsans til að gera það sem við þurfum og langar. Hikum því ekki, tökum við því, verum ávallt glöð í Drottni.

Okkur er inn í himnaríki boðið, ætlum við að stíga inn ?

Þetta er Hugvekja sem ég skrifaði fyrir námið, en ég er í Guðfræðinámi og tvinna því Jesú vin okkar inn í gleðina, annars er ég nú eins og
Justin Bieber….mér líkar agalega vel við hann Jesú, og er það enmitt ástæðan fyrir þessari mynd af Bieber…en hér má sjá hann glugga í, vel út glósaða Biblíu…hann er trúlega að lesa dæmisöguna um Víngarðinn.

Þar til næst

xx

Erna Kristín

Snapchat & Instagram : Ernuland