Gúrý – Love You Love You

Gúrý – Love You Love You

 

Fyrir um hálfu ári síðan missti ég móðursystur mína, hana Öggu frænku.

Agga var ein af mikilvægustu manneskjunum í mínu lífi. Hún var eiginlega meira eins og hin mamma mín heldur en frænka. Hún giftist aldrei eða eignast börn sjálf.

Pabbi djókaði alltaf með það að þegar að hann giftist mömmu þá giftist hann Öggu frænku líka, svo mikið var hún inn á heimilinu og með okkur alla tíð.

Agga frænka barðist við krabbamein í 18 ár. Hún var ein sú mesta stríðshetja sem ég hef þekkt. Jákvæðni og meiri jákvæðni, hjálpsemi, ást og umhyggja í garð annara er besta lýsingin á henni.

Síðustu 2-3 árin hringdi ég í hana annan hvern dag, stundum á hverjum degi, notaði tækifærið þegar að ég fór í kvöldgöngu með hundinn svo að við gætu-m spjallað í næði.

Ég gat talað við hana um allt, en hún hjálpaði mér til dæmis mikið með heilsukvíðann minn. Minnti mig reglulega á að LÍFIÐ ER NÚNA, að ég ætti að njóta lífsins með manninum mínum og yndislegu fallegu börnunum okkar.

Sjáðu mig sagði hún oft , eftir allt sem ég er búin að ganga í gegnum þá er ég ekki að stressa mig á þessu.

Við Agga kvöddumst alltaf með að segja „LOVE YOU LOVE YOU“ þetta var okkar kveðja.


Ég var hjá Öggu minni er hún tók sinn síðasta andardrátt, það er ég endalaust þakklát fyrir. Þegar að okkur fjölskyldunni var sagt að koma inn á herbergið hennar á Líknadeild til að kveðja, þá söfnuðumst við öll í kringum rúmið hennar og kvöddum.

Ég hvíslaði að henni mína hinstu kveðju og endaði á að segja Love you Love you, en þá blikkaði hún allt í einu tvisvar sinnum, Dilla frænka í Ameríku fékk sjokk og sagði mér að segja þetta aftur sem ég gerði, þá blikkaði hún aftur tvisvar sinnum.

Þetta voru einu viðbrögðin sem hún sýndi þessar síðustu klukkustundir í lífinu hennar. Ég veit að hún var að kveðja mig þarna með sömu kveðju og ég, með kveðjunni okkar.

Agga frænka var alltaf með gullhálsmen um hálsinn, það er gullplata með nafninu hennar sem var grafið í. Ég sagði við hana þegar að ég var lítil að þegar að hún yrði eldgömul og mundi deyja þá vildi ég eiga hálsmenið hennar, en í dag er ég búin að erfa þetta hálsmen.

Ég fór aðeins að grennslast fyrir um hvað hún hefði átt þetta hálsmen lengi. Mamma hélt kannski 18-20 ár þangað til að ég fann mynd af henni þar sem hún heldur á mér og bróðir mínum, ég er kannski 1 árs á myndinni.

En á þessari mynd skartar hún hálsmeninu, svo hún er allavega búin að bera það í 38 ár.

Ég fékk hugmynd að láta grafa í hálsmenið kveðjuna okkar, en það varð að vera handskriftin hennar og skriftin mín svo það yrði extra persónulegt. Ég bað mömmu og pabba um að leita af einhverju með handskriftinni hennar á, en þegar að þau voru að pakka innbúinu hennar saman þá fundu þau búnka af bréfum.

Pabbi skannaði inn eitt af bréfunum hennar, tók stafi úr því og myndaði setninguna

LOVE YOU fyrir mig.

Breki maðurinn minn hreinsaði skriftinna svo í tölvunni eftir að pabbi sendi okkur hana og skannaði mína skrift inn líka.

Eftir að hafa pússað plötuna og gert hana tilbúna fyrir letrið,

fór hann með hálsmenið og skriftina til leturgrafarans sem hann vinnur mikið með.

Þeir tóku fjóra daga í að gera það tilbúið. Þeir setja skriftina inní tölvuforrit sem laser-grefur síðan nákvæmlega eins og skriftin sýnir.

Það var smá bútur eftir af keðjunni sem Breki maðurinn minn gerði armband úr, ég gaf svo Tinnu systur minni það í þrítugsafmælisgjöf.

Mér fynnst svo oft að þegar að fólk erfir skartgripi að þeir fara niður í skúffu, því þeir eru oft gamaldags og kannski hallærislegir í útliti. En það eru svo margir möguleikar að gera eitthvað með þá, annað hvort að laga hönnunina og gera hana eitthvað öðruvísi. Eða jafnvel bræða til dæmis gullið og búa til eitthvað annað.

Ég hef gert svona áður en þá fékk ég nokkra gullskartgripi í arf frá ömmu minni. En einn af þessum skartgripum var alveg hrikalega lummó gullhálsmen, risa klumpur með frekar ljótum stein í.

Svo í staðin fyrir að láta það vera í skartgripaskríninu mínu það sem eftir er, fékk ég manninn minn til að bræða það.

En með hans hjálp bjó ég til þrjá hringa sem voru allir eins. Ég gaf svo mömmu minni og systur þá í gjöf að morgni brúðkaupsdags systur minnar. Svo í dag eigum við allar eins hringa sem eru búnir til úr gullklumpa hálsmeninu hennar ömmu.

Þann hring ber ég á hverjum degi saman með giftingarhringnum mínum.

Ef fólk hefur ráð á, þá mæli ég svo með því að finna sér góðan gullsmið sem getur hjálpað þeim að hanna eitthvað fallegt.

Fyrir vikið þá notar maður skartgripinn frekar.

Það er leiðinlegt að eiga skartgrip sem maður hefur fengið í arf og af því hann er ekki alveg eins og maður vill hafa hann þá er hann aldrei notaður.

 Ég er svo ánægð með lokaútkomuna á hálsmeninu, ég gjörsamlega elska það !

Ég ber það á hverjum degi með öllum hinum uppáhalds hálsmenunum mínum og hugsa með kærleika og söknuði til Öggu minnar.

Ef þú ert með skartgrip sem þig langar að gefa nýtt líf þá getur haft samband við Breka manninn minn hér 

XxX

Gúrý

gury@krom.is

 Instagram guryfinnboga 

Snapchat gury79