Heimilið – Staðsetning pottaplantna með tilliti til birtu

Plöntur þurfa birtu til vaxtar, hversu mikla veltur m.a. á uppruna þeirra. Flestar þeirra tegunda sem ræktaðar eru sem blaðpottaplöntur þrífast vel við bjartar aðstæður, aðrar þrífast betur við dálítinn skugga. Flestar tegundir plantna hafa þó ótrúlega aðlögunarhæfni og geta vel aðlagast meiri eða minni birtu. En gera skal ráð fyrir að líftími þeirra plantna skerðist, t.d. mun ljóselsk planta á endanum tapa laufblöðum sínum á dimmum vaxtarstað og skuggsæl planta mun tapa laufblöðum sínum vegna sviðnunar á sólríkum stað, t.d. í suðurglugga.

Hafa ber þetta í huga þegar pottaplöntu er valin staður til vaxtar:
Birta er breytileg og eru þættir eins og árstíðir, skýjafar, nálægar byggingar, hávaxinn gróður fyrir gluggum og litir á veggjum áhrifavaldar á birtumagn og gæði birtunnar.

Til að plöntur fái næga birtu innandyra er ágætis viðmið að staðsetja ljóselskar plöntur ekki fjarri suðurglugga en 3-4 metra og 2-3 metra frá norðurglugga. En athugið að færri plöntur en fleiri þola að standa í suðurglugga á bjartasta tíma ársins. Plöntur sem henta í suðurglugga yfir bjartasta tíma ársins eru með þykk og leðurkennd laufblöð.

Ef rýmið er í ljósum litum, þá mun eitthvað af birtunni endurkastast og koma plöntunum til góða, dökkir veggir munu hins vegar drekka í sig birtuna og er þá ráð að staðsetja plöntur nær gluggum. Ljóselskar plöntur sem fá of litla birtu, tapa blöðunum, hægt er að draga úr slíkri áhættu með því að koma upp ljósum, en athugið að litróf pera er mismunandi og hefur mismunandi áhrif á vöxt plantna, leitið því til fagmanna í þar til gerðum verslunum.

Plöntur munu vaxa í átt að birtunni ef hún er takmörkuð, því gæti verið ráð að snúa þeim annað slagið.

Grein frá NLFÍ  HÉR