Erna Sigmundsdóttir skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Hvað á að gera um helgina? Hér eru nokkrir spennandi viðburðir

 

Markaður í Verkó við Hringbraut – Flóamarkaður Vesturbæjar

Markaður verður haldinn í portinu á Verkamannabústöðunum v/Hringbraut, Hofsvallagötu og Bræðraborgarstíg þann 24. júní 2017.
Allir velkomnir að koma og líka að selja og vera með! Kominn tími til að taka til og koma góðum hlutum í verð og fá sér eitthvað nýtt jafnvel í staðinn.

Barnadagurinn í Viðey 25. júní

Hinn árlegi Barnadagur verður haldinn í Viðey laugardaginn 25. júní frá kl. 13 – 16. Eins og nafnið bendir til er dagurinn helgaður börnum og fjölskyldum þeirra enda er Viðey með sín fallegu tún og fjörur kjörinn staður til barnaleikja. Að þessu sinni munu Skátarnir úr Landnemum taka þátt í dagskránni ásamt Leikhópnum Lottu, Skringli skógarálfi og Arnbjörgu Kristínu jógakennara sem leiðir fjölskylduslökun. Hægt verður að kaupa grillaðar pylsur við Viðeyjarstofu allan daginn. Frír ís í boði á meðan birgðir endast. Dagskráin hefst kl. 13 og lýkur kl. 16. Ferjrurnar fara frá Skarfabakka yfir sundið á klukkustundar fresti allan daginn. Best er að fjölskyldur sigli yfir með 12:15 ferjunni til þess að ná örugglega Leikhópnum Lottu. Sjá nánar www.videy.com

Drangey tónlistarhátíð – þar sem vegurinn endar   24.júlí

Tónlistarhátíðin Drangey Music Festival fer fram í þriðja skiptið, laugardagskvöldið 24. júní 2017. Líkt og fyrri ár verður áherslan á frábæra tónlist og fallega stemmingu í glæsilegri náttúru þar sem Drangey blasir við frá Reykjum á Reykjaströnd þar sem tónleikarnir fara fram.
Á Reykjum er tjaldstæði, næg bílastæði, kaffihús og auðvitað Grettislaug. Ferð í Drangey frá Reykjum með Drangeyjarferðum er ógleymanleg upplifun.

DIMMA á Hard Rock Café 24 júní. (Fjölskyldu og kvöldtónleikar)

Þungarokksveitin DIMMA kemur fram á tvennum tónleikum í tónleikasal Hard Rock Café laugardaginn 24. júní.
Fyrri tónleikarnir hefjast kl 16:00 (dyr 15:30) og eru opnir öllum aldurshópum. Miðaverð er kr 1500 og frítt fyrir krakka undir 6 ára. Forráðamönnum er bent á að hafa meðferðis heyrnahlífar fyrir lítil eyru.
Seinni tónleikarnir hefjast kl 22:00 (dyr 21:00) og er miðaverð kr 2900.
DIMMA gaf út plötuna Eldraunir í maí og hefur platan verið ein mest selda plata landsins síðan þá. DIMMA er að fylgja plötunni eftir af krafti og mun koma fram á tónleikum víðsvegar um landið á næstu mánuðum, bæði eigin tónleikum sem og á helstu tónleikahátíðum landsins svo sem Eistnaflugi, Þjóðhátíð, Neistaflugi og Menningarnótt.  Á þessum standandi tónleikum á Hard Rock Café mun sveitin leika plötuna Eldraunir í heild sinni í bland við sína helstu slagara.  Þetta verður sveitt, hátt og dimmt og þungt.

 

Kristjana Stefáns og Svavar Knútur – Miðsumartónleikar

Vinirnir og söngvaskáldin Svavar Knútur og Kristjana Stefáns blása aftur til sinna árlegu miðsumarstónleika í Víkinni Sjóminjasafni sunnudaginn 25. júní næstkomandi.  Kristjana og Svavar Knútur hafa undanfarin ár vakið verðskuldaða athygli fyrir stórskemmtileg dúettakvöld. Þar ríkir bæði gleði og angurværð ásamt örlitlum fíflagangi og bera þau vinirnir á borð fjölbreytta dagskrá dúetta, sem rúmar allt frá Abba til Dolly Parton með viðkomu hjá The Righteous Brothers og Páli Ísólfssyni, auk frumsaminna laga og hinna ýmsu gleði- og tregabomba, ljóðalestri og gamansagna. Þá eru þau alltaf að dúlla sér með ný lög og smá tilraunaeldhús og hlakka til að kokka aðeins fyrir gestina í Víkinni Miðaverð er kr. 3.500 en ókeypis er fyrir börn. Miðasala er á miði.is og auðvitað við dyrnar, ef húsrými leyfir. Um tvenna tónleika er að ræða, klukkan 16 (betri fyrir börnin) og klukkan 20.
Komið og njótið dásamlegrar stemmningar með okkur vinunum!

 

Menningarvitar á Jónsmessu – Culture lighthouses at Jónsmessa. 24.júní

Menningarviðburðir í og við alla vita landsins. Almenningur komi saman við vita landsins og standi fyrir menningarviðburði í sínum vita.
Gæti verið tónlist, myndlist, upplestur ljóða og kvæða, upplestur úr bókum eða eitthvað í líkingu við þetta. Hvort sem einn eða hundrað koma saman.   HÉR má sjá nánar