Hvað er til ráða ef að verðmæti fara óvart í nytjagáma Sorpu ?

Hvar, hvert og hvað ef?

Endurnýting hefur sem betur fer aukist og það er hægt að gera mjög góð kaup í Góða hirðinum.

Aðstoðaverslunarstjóri Góða hirðisins er hún Sigrún Björg og við fengum að leggja fyrir hana nokkrar spurningar.

Hvert er markmiðið með Góða hirðinum?

Markmið Góða hirðisins er að endurnýta nytjahluti til áframhaldandi notkunar.

Hvert á að fara með húsgögn og húsbúnað sem gefinn er í Góða hirðinn? Má koma með hluti í verslunina?

Allt sem gefið er til Góða hirðisins þarf að skila á einhverja af endurvinnslustöðvum Sorpu og í gám merktan okkur þar. EKKI er tekið á móti vörum í versluninni.

Er tekið við öllu því sem er sett í nytjagáma?

Á næstu dögum verður sett upp skilti á endurvinnslustöðvunum um hvað má setja í nytjagáma og í hvernig ástandi hlutirnir þurfa vera.  Við tökum t.d. ekki á móti neinum öryggisbúnaði s.s. hjólastólum, hjálmum, bílstólum o.fl.

Árstíðarvörur eru líka árstíðarvörur hjá okkur og garðhúsgögn seljast t.d. mjög illa í desember, snjóþotur seljast ekki í júlí o.s.frv. Jólaskraut selst þó allt árið.

Búsáhöld sem eru illa rispuð, eða ef kvarnað er upp úr þeim, seljast ekki og fer mikið af svoleiðis hlutum beint í endurvinnslu hjá okkur.

Blettóttir stólar, sófar og dýnur seljast ekki og er mikill kostnaður við flutninga og förgun á húsgögnum sem ekki seljast.  Sófi sem kemur til okkar kostar um 1.800 krónur kominn í búðina. Ef við þurfum svo að farga honum fer kostnaðurinn upp í 4.700 krónur (flutningur, starmsmannalaun, förgunarkostnaður).

Má hirða úr nytjagámum á endurvinnslustöðvunum?

Nei, það má ALLS EKKI.  Bæði er það öryggisins vegna og vegna þess að hluti sem eru í nytjagámum er búið að gefa til góðra málefna (markaðarins). Það er á okkar ábyrgð að koma þeim í sölu svo að hægt sé að gefa ágóðann áfram til góðgerðar- og líknarfélaga.

Hvað selst best í verslun Góða Hirðisins?

Það sem selst mest hjá okkur er svo kölluð smávara, búsáhöld og skrautmunir. Antík húsgögn seljast í nánast hvaða ástandi sem er.

 En hvað er erfiðast að selja?

Húsgögn sem eru rispuð eða blettótt og slitin (þó ekki antík). Dýnur með blettum, stór skrifstofuhúsgögn, göngubretti, stór æfingatæki og ryðguð hjól seljast sjaldan eða aldrei.

Hvað ef hlutir eru óvart settir í nytjagám hjá SORPU? Er hægt að fá þá til baka?

Ef eitthvað er sett óvart í nytjagám er mikilvægt að tala við okkur strax sama dag eða í seinasta lagi daginn eftir. Við losum yfirleitt gámana daginn eftir að þeir fyllast. Hlutir fara hratt í gegnum búðina og seljast oftast um leið og þeir eru settir fram. Það er alltaf hætta á að hlutnum sé fargað eða seljist um leið og búðin opnar.

Fólk þarf að geta sannað eignarrétt sinn, t.d. með myndum.  Ekki er hægt að fá að fara í gámana á endurvinnslustöðvunum til að leita að sínum hlut, öryggisins vegna.

Hlutur sem hefur farið óvart í nytjagám, og er þegar seldur í versluninni hjá okkur þegar viðkomandi áttar sig á mistökunum, er því miður glataður.

Hvað er gert við það sem er mjög verðmætt og lendir hjá ykkur?

Við leitum ráða með verðlagningu, t.d. á netinu, og einnig erum við í góðu sambandi við margar verslanir sem hafa aðstoðað okkur. Við höfum fengið ómetanlega aðstoð frá versluninni Jón og Óskar, Gallerí Fold og fleirum.

Hvað er það verðmætasta sem hefur komið til ykkar?

Það verðmætasta sem hefur komið til okkar var stytta sem seldist á 450.000 krónur.

Við erum með uppboð 1-2 sinnum á ári þar sem verðmætari hlutir eru boðnir upp ásamt öðru skemmtilegu sem hefur komið til okkar.

Í hvað fer ágóði Góða hirðisins?

Góði hirðirinn greiðir allan rekstrarkostnað sem fellur til í rekstri markaðarins. Undir það fellur flutningur á gámum frá endurvinnslustöðvum til markaðarins, flutningur og móttökugjöld vegna þess sem ekki selst og fer í endurvinnslu eða urðun, leiga á húsnæði, launakostnaður og annar tilfallandi kostnaður. Verði rekstrarafgangur í lok árs fer hann til góðgerða- og líknarfélaga. Upplýsingar um allar úthlutanir má sjá inn á sorpa.is.

Hér má fylgjast með verslun Góða hirðisins á facebook þar er reglulega sett inn skemmtilegt efni.