Inga Kristjáns: Ég hreinlega nenni þér ekki!!

Screen Shot 2017-02-24 at 5.15.56 PM.png

Ég get ekki hugsað mér að fara fram úr rúminu, mig langar ekki að takast á við það sem bíður mín.
Ég vildi óska að ég gæti bara legið hérna undir sænginni og engin myndi sakna mín eða spyrja hvar ég sé.
Í dag mun fólk örugglega spyrja mig spurninga og þegar ég svara þeim þá lýg ég. Ég lýg svörum mínum við spurningum því ég er svo hrædd um hvað fólki mun finnast ef ég segi eitthvað annað en þeim langar að heyra.

Í dag mun ég örugglega lenda í aðstæðum sem mér finnst óþægilegar og ég mun ekki vita hvernig ég á að haga mér.
Í dag mun fólk örugglega horfa dæmandi augum á mig og hugsa með sér ” afhverju gerir hún þetta svona ” eða ” afhverju er hún í þessum fötum ”
Í dag verður örugglega hringt í mig og beðið mig um að gera eitthvað sem mig langar ekki að gera en ég mun samt segja já því ég vil ekki valda manneskjuni sem hringir vonbrigðum.
Í dag mun ég örugglega velta framtíð minni fyrir mér, ég mun átta mig á því að það verður ekkert úr mér því ég er ekki búin að ákveða hvað mig langar að læra eða vinna við.

Ég verð örugglega ömurleg móðir því ég kann ekki neitt og geng illa um.
Mér mun alveg örugglega mistakast því ég er ekkert það vel gefin og klúðra nánast öllu sem ég geri.
Ég er bara drullu kvíðinn, fyrir öllu.

Kannastu við þessar hugsanir ?

Ég kannast við þær. Ég díla við þær alla daga. Ég veit að fleiri gera það.

Það eru svo ótrúlega margir að díla við einhverskonar kvíða. Þú getur í rauninni litið allt í kringum þig og annar hver maður er kvíðinn, bara öðruvísi kvíðinn en þú. Kvíði dregur með sér svo marga ömurlega fylgi fiska, þetta er ekki eins einfalt og sumum finnst það hljóma.
Maður fær ekki bara lítinn kvíða hnút í magann rétt fyrir próf, allavega ekki ég. Kvíðinn étur mig upp að innan. Hann lætur mig efast um sjálfa mig og hvað ég get.

Ég hef sagt nei við ótal tækifærum því ég var viss um að ég myndi klúðra og þeim eða að ég fékk svo yfirgnæfandi kvíða að hann þróaðist yfir í þunglyndi. Ég hef forðast það að hitta fólk því ég veit ég mun ekki svara þeim rétt. Fyrir sumum hljómar þetta fáránlega en aðrir vita nákvæmlega hvað ég er að tala um.

Skólaganga er mjög erfið fyrir þá sem díla við kvíða, því þá þurfa þeir fronta fólk, lærdóm og próf. Ekki sé minnst á þessa ógeðslegu kynningar sem maður þarf stundum að halda fyrir framan bekkinn.
Skólaganga kvíðasjúklings getur verið eins og að labba á þúsund kaktusum, gangan er erfið, sár og næstum ómöguleg. Kvíðasjúklingur lætur svo mikla pressu á sjálfan sig að hið minnsta feil spor mun brjóta niður heim þeirra.

En hey, á ég að segja þér svolítið ?

Ef þú virkilega vilt og þú virkilega bítur það í þig, þá geturðu sagt kvíðanum til syndanna. Kvíðinn þarf ekki að stjórna þér, hann þarf ekki að eyðileggja lífið þitt. En þú verður að ákveða það sjálf/ur. Ég get lofað þér því að þú getur allt sem þú ætlar þér.

Það besta sem guð skapaði er nýr dagur. Spáðu í því hversu heppin þú ert að fá að upplifa nýjan dag á hverjum degi, þú færð ekki bara að upplifa hann, þú færð að skipuleggja hann og ákveða hvað þú ætlar að gera með hann. Þú getur leyft kvíðanum að stjórna þér og eyðileggja daginn en þú getur líka ákveðið að dagurinn í dag verði besti dagur sem þú hefur upplifað.

Tæklaðu aðstæður sem þú ert hrædd/ur við eins vel og þú mögulega getur, þú getur ekki gert meira en það. Ef fólk getur ekki tekið þínum skoðunum þá er það fólk ekki þess virði.

Allar ástæður sem þú hefur búið til í huganum til að sleppa við hitt og þetta eru afsakanir sem þú býrð til ósjálfrátt. Kvíðinn hefur kennt þér svo vel að búa til afsakanir að þetta kemur náttúrulega. Segðu afsökunum að fara eitthvað annað, þær eru ekki velkomnar hjá þér. Ekki sleppa við hluti sem þér innst inni langar til þess að gera. Þú munt sjá svo innilega eftir því seinna meir.

Skoraðu á sjálfa/n þig á hverjum degi, reyndu að fara út fyrir þægindarammann. Með tíð og tíma muntu læra að gefa skít í kvíðann, hann verður alltaf til staðar en þú ræður fyrir honum.

Lífið er núna, njóttu þess. Þú ert flottasta og sterkasta manneskja á þessari jörð og allir sem þekkja þig eru heppnir að eiga þig að. Þú lætur kvíða ekki stjórna þér heldur stjórnar þú honum.

Kvíði, ég nenni þér ekki.

þar til næst xx