Inga Kristjáns – Markmiðasetning – sjö mikilvæg atriði sem gott er að hafa í huga þegar þú setur þér markmið

Nú er ég ein af þeim sem á gríðarlega erfitt með að setja mér markmið og fylgja þeim eftir. Ég vil að allt gerist strax og verð alveg hrikalega óþolinmóð þegar ég sé fram á að vegurinn að markmiðinu muni taka langan tíma.

Nú í fyrsta sinn á æfinni, hef ég náð að setja mér markmið og standa við það, því fylgir alveg gríðarlega hamingja og sjálfstraustið eykst með hverjum deginum sem líður.
Mig langaði því að deila með ykkur nokkrum grundvallaratriðum og pælingum sem hafa þarf í huga við markmiðasetningu, allavega hefur það virkað fyrir mig að setja þetta svona upp.


Hvað langar mig að gera?
Fyrst af öllu er auðvitað mikilvægast að vera viss um hverju þú stefnir að, hverju langar þig að áorka? Nýr bíll? Missa 10 kíló? eignast 10 moomin bolla?

Gera markmiðið “raunverulegt”
Skrifaðu niður markmiðið þitt, sama hversu mörg þau eru. Að skrifa þau á blað gerir þessa ákvörðun raunverulega.

Hvað þarf ég að gera?
Síðan þarftu að ákveða hvað þú ætlar að gera til þess að ná markmiðinu, ef þú ætlar t.d að missa tíu kíló þá þarftu væntanlega að endurskoða mataræðið og íhuga hreyfingu. Eða ef þú ætlar að safna þér fyrir einhverju þarftu að gera sparnaðaráætlun. Mér finnst þetta mjög mikilvægt skref, því maður þarf að skuldbinda sig því að fylgja skrefunum í átt að markmiðinu.

Eru kröfurnar sem ég set mér raunhæfar?
Passaðu að setja þér raunhæfar kröfur. Ef að markmiðið þitt er að missa tíu kíló geturðu ekki ætlast til þess að missa þau á tvem vikum. Reyndu frekar að einbeita þér að lifa heilbrigðara lífi og njóta vegferðarinnar að markmiðinu, ekki einblína á kílóin, settu það sem eitt skref að borða hollari mat, setja upp matarprógram og koma inn hreyfingu. Um leið og þú sérð að planið er að virka og þú ferð að sjá eitt kílóið á fætur öðru fjúka, muntu öðlast extra sjálftraust sem mun hvetja þig til að halda áfram.

Tímarammi
Setja upp tímaramma. Það finnst alls ekki öllum þetta skref nauðsynlegt. En ég myndi sterklega mæla með þessu skrefi fyrir þá sem eiga erfitt með að setja sér markmið, þá sérstaklega langtíma. Passaðu að hafa tímaramman raunhæfann. Ef ég held áfram með að nota 10 kílóa markmiðið sem dæmi, þá væri t.d raunhæft að hafa tímaramman 100 daga. Þá hefurðu nægan tíma en samt ákveðinn tíma, bæði til að ná markmiðinu og einnig til að ná rosalega góðum tökum á þeim breytingum sem þú tileinkar þér. Spáðu líka í auka hamingjunni þegar þú fattar að þú hefur kannski misst 16 kíló eftir 100 daga? Það er alltaf gaman að gera betur en maður ætlaði sér.

Ræða markmið þín
Vera dugleg/ur að ræða markmiðin þín við vini þína eða fjölskyldu. Þetta skref hljómar kannski óþarft en það er samt alveg ótrúlega mikilvægt og minnir mann á það sem maður er að gera, ásamt því að fá auka hvatningu. Það skemmir aldrei að fá hrós frá fólkinu sínu fyrir vel unnin störf.

TRÚÐU
Síðasta og MIKILVÆGASTA skrefið er að trúa, trúa á að þú getir allt sem þú ætlar þér. Vera stolt/ur af þér að ná hverju skrefi í átt að markmiðinu og vera dugleg/ur að líta í spegil og segja ÞÚ GETUR ÞETTA OG ÞÚ GETUR ÞETTA VEL

Endilega skrifaðu niður eða prentaðu út þessa minnispunkta

1. Ákveða markmið
2. Skrifa niður markmið
3. Ákveða hvað þú þarft að gera til að ná markmiðinu
4. Athuga hvort kröfur til þín séu raunhæfar
5. Setja tímaramma, hvað ætla ég að gefa mér langan tíma til að ná markmiðinu?
6. Ræða markmið við vini og vandamenn
7. Trúa á að þú getir náð markmiðinu

Ég vona innilega að þessir punktar muni hjálpa ykkur, ég allavega hef fulla trú á ykkur og þessi atriði hafa hjálpað mér alveg rosalega. Markmiðasetning er svo gríðarlega mikilvæg, hún kennir manni sjálfsaga og hjálpar manni að vera meðvitaðari með lífið okkar.

G – Æ – S = get, ætla skal!

Þar til næst

xx