Ingibjörg Katrín Linnet skrifar Flokkað undir Matur & Vín.

Inga Kristjáns: Uppskrift af mínum uppáhalds drykk – Jarðaberja Límónaði

Strawberry Lemonade – Uppskrift

Þótt það sé kalt og vetrarlegt á Íslandinu okkar góða, þýðir það ekki að við getum ekki fengið sumarlegan drykk. Ég smakkaði jarðaberja límónaði eða “Strawberry Lemonade” í fyrsta skipti þegar ég fór til Los Angeles í september 2017. Ég endaði á að fá mér drykkinn tíu sinnum í ferðinni, þetta er bara svo gott! Þegar ég kom heim fór ég á stúfana eftir uppskrift og hef ég búið drykkinn til oft síðan. Ég má til með að deila þessum dásemdar drykk með ykkur.

Það eina sem er pirrandi við þennan drykk er að það er hrikalega mikill sykur í honum svo ég hef verið að prufa mig áfram með stevíu sykur frá The Good Good Brand og finnst mér það alveg jafn gott!

Hér kemur uppskriftin – Njótið vel:

  • 5-6 ferskar sítrónur
  • matskeið sítrónubörkur (saxaður)
  • 5 dl af vatni
  • 1 dl Steviusykur (bætið við eftir smekk)
  • Bolli af jarðaberjum (bollinn sem ég nota er 6 dl)
  • 3 dl kolsírt vatn

Sjóðið vatnið og sykurinn þangað til sykurinn hefur alveg bráðnað niður. Þegar það er tilbúið skal setja sítrónubörkinn og sítrónusafann saman við. Þetta skal fá að kólna alveg. Þegar þetta er orðið alveg kalt skaltu setja jarðaberin í blandara og hella svo útá drykkinn og hræra vel. Þegar þetta er allt komið skal hella kolsýrða vatninu útá. Skellið drykknum svo í kælinn í klukkutíma. Ekki hika við að bæta smá vodka útí ef þið eruð í þannig stuði, það bragðast mjög vel 🙂

Njótið vel!