Inga Kristjáns: Vegan spjall við Helgu Maríu Ragnarsdóttur “Ég er vegan fyrir sjálfa mig, jörðina okkar, dýrin og mannfólkið”
Helga María Ragnarsdóttir heldur útí bloggsíðunni Veganistur.is ásamt Júlíu systur sinni. Helga breytti um lífstíl árið 2011 og gerðist vegan, þá aðeins nítján ára gömul.  Það hefur verið áhugavert að fylgjast með bloggsíðu þeirra systra blómstra og er hún orðin ansi þekkt á Íslandi. Helga leifði okkur á króm að skyggnast aðeins inní lífið sitt og fræða okkur um vegan lífstíl.

Ég heiti Helga María Ragnarsdóttir og er 25 ára gömul. Ég er búsett í Svíþjóð ásamt Sigga kærastanum mínum. Við höfum verið búsett í Gautaborg í um tvö ár, en erum að flytja til Norður Svíþjóðar í haust, þar sem hann er að fara í mastersnám í hljómsveitastjórnun. Ég held útí bloggsíðunni Veganistur ásamt Júlíu systur minni, en ég myndi segja að bloggið væri mitt stærsta áhugamál, ásamt öllu sem tengist vegan matseld. Ég hef síðan alla tíð sungið mikið og tónlistin er mér mjög kær, í frístundum les ég og skrifa ljóð.

Júlía Ragnarsdóttir og Helga María Ragnarsdóttir

Ég tók upp nýjan lífstíl árið 2011 og gerðist vegan, svo sjötta vegan árið rann upp núna í júlí. Að verða vegan var alls ekki erfitt því ég var svo spennt fyrir því að byrja nýjan lífstíl, árið 2011 voru örfáar manneskjur á Íslandi sem vissu hvað orðið “vegan” þýddi, svo það var skrýtið að geta ekki gengið inná venjulega veitingastaði og beðið um vegan rétt. Ef það var eitthvað erfitt við að byrja, þá var það sennilega það. Síðan þurfti ég að læra vel og vandlega að lesa utan á pakkningar, en í dag er það alls ekkert mál.  Ástæðan fyrir því að ég vildi láta á þetta reyna var fyrst um sinn heilsunnar vegna, en í dag er ég vegan vegna þess að mér finnst engin ástæða fyrir því að vera það ekki. Ég er vegan fyrir sjálfa mig, jörðina okkar, dýrin og mannfólkið.

 

Fyrst um sinn fann ég fyrir miklum fordómum vegna nýja lífstílsins. Ég man að fólk varð oft reitt þegar það komst til tals að ég væri orðin vegan. Það skildi þetta ekki og fannst það eitthvað óþægilegt, sennilega því það þekkti ekki málefnið. Ég er löngu hætt að finna fyrir þessu í dag. Ég held að það sé bæði vegna þess að ég er hætt að taka eftir því en líka vegna þess að veganismi hefur stækkað þvílíkt síðustu ár.

Reykjavík er orðin ein besta borgin fyrir vegan fólk að heimsækja og veitingastaðir keppast við að bjóða uppá flottustu kostina fyrir grænkera, ég held sérstaklega uppá Vegan Pizzurnar á Íslensku Flatbökunni og Vinyl á Hverfisgötu, en ég mæli sérstaklega með síðunni Vegan Guide to Iceland, en þeirri síðu heldur félagi minn út, á þessari síðu getur þú fundið vegan staði á Íslandi. Síðan ég flutti til Svíþjóðar hef ég aldrei þurft að rökræða eða afsaka minn lífstíl. Viðhorfið í svíþjóð er öðruvísi en á Íslandi, hér finnst flestum mjög eðlilegt að vera grænmetisæta eða vegan og margir sem borða kjöt velja frekar grænmetiskostinn þegar hann er í boði.
En á hvaða hátt breytir veganismi manni, fyrir utan það augljósa?

Vegan lífstíll gjörbreytir lífi manns á margan hátt. Ég hef þurft að horfa mikið inná við og opna augun fyrir því að mínar ákvarðanir hafa áhrif á allt í kringum mig. Ég er því orðin mun tengdari sjálfri mér og umhverfinu mínu. Ég hef þurft að átta mig á því að þó sumir hlutir hafi alltaf viðgengist þýði ekki að þeir séu réttir. Samband mitt við mat hefur breyst gríðarlega og ég hef lært að nota matvörur sem ég vissi ekki einu sinni að væru til. Matarvenjur mínar eru á allan hátt fjölbreyttari eftir að ég gerðist vegan.

Uppáhalds Vegan réttur Helgu Maríu


Helga var svo góð að deila með okkur hennar uppáhalds vegan uppskrift, en það eru Amerískar Pönnukökur

Hráefni:

 • 2 bollar hveiti
 • 2 msk sykur
 • 4 tsk lyftiduft
 • Smá salt
 • 2 bollar haframjólk – eða önnur jurtamjólk
 • 4 msk olía
 • 1 tsk vanilludropar eða vanillusykur

Aðferð:

 1. Byrjið á því að hita smá olíu á pönnu við meðalhita
 2. Blandið þurrefnum saman í stóra skál
 3. Bætið mjólkinni, olíunni og vanilludropunum útí skálina og hrærið þar til engir kekkir eru
 4. Steikið pönnukökur úr deiginu, sirka 2-3 mínútur á hvorri hlið
 5. Berið fram með því sem ykkur lystir.Ég setti á þær:
  Hlynsíróp
  Ichoc súkkulaði sem ég skar niður
  Hindber
  Og kókosmjöl

Namm!

 

Helgu er svo sannarlega margt til lista lagt, burt séð frá því að vera bloggari, vegan, dýrindis kokkur, kærasta og nemi þá er hún líka framúrskarandi söngkona. Aðspurð um söngferil hennar:
Söngferill minn er ekki langur, en ég lærði klassískan söng í nokkur ár en færði mig svo yfir í FÝH þar sem ég lærði Jazz hjá Jóhönnu Linnet. Ég hef alltaf verið feimin við að koma fram en ef unnið mikið í þeim ótta síðastliðið ár. Ég hef sungið mikið með kórum sem mér finnst alveg frábært. Nú er næst á dagskrá að fara að æfa mig að koma meira fram og njóta þess. Því myndi ég segja að söngferill minn væri rétt að byrja og ég hlakka til komandi tíma.
Ég hvet ykkur til að smella á linkana hér að neðan og hlusta, hún er með dásamlega rödd.

Smelltu HÉR til að heyra cover af Only God Knows með Helgu

Smelltu HÉR til að heyra lagið Tear Drop (Massive Attack Cover) Með helgu

Smelltu HÉR til að heyra Helgu syngja einsöng (Heyr himna smiður)

En hvað myndiru segja að væri þitt lífsmottó?
Ég hef  reynt að tileinka mér það að taka lífinu ekki of alvarlega. Við erum svo upptekin af því að spá í hvað öðrum finnst að við missum oft af lífinu á meðan. Ég hef líka verið að vinna í því að tala hvorki sjáfa mig niður né aðra.

Ég vil svo hvetja ykkur til að fylgjast með matarblogginu Vegnastur, en þú getur smellt HÉR til að byrja strax að skoða. Það var alveg dásamlegt að fá að spjalla aðeins við Helgu, hún er jarðbundin og staðföst í því sem hún vill. Öll ættum við að taka það til fyrirmyndar.

þar til næst xx