ErnaKristín skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Karítas Harpa sigurvegari í The Voice Ísland 2017 gefur út frumsamið jólalag

Fullt nafn : Karitas Harpa Davíðsdóttir

Áhugamál : Númer 1, 2 og 3 söngur og tónlist, ferðalög, samverustundir með syni mínum Ómari Elí, góður matur og langar gönguferðir á ströndinni eða þú veist

Hvað ertu að gera þessa dagana? Ég er móttökuritari 8-13:00 virka daga og annar tími fer í að vera móðir og söngkona

Þú varst að semja þitt fyrsta jólalag, hvað kom til ? Já, það er góð spurning. Ég hef satt að segja verið mjög feimin við að semja og gera mitt eigið efni og hef falið það á bak við grín, samið texta með gríni í og þessi byrjaði þannig fyrir 2 vikum þegar félagi spurði hvort ég ætlaði ekki að semja jólalag. Ég hló og samdi eitthvað grín en líkaði laglínan og grunntextinn svona vel að ég ákvað að leyfa mér að fara full krúttlegt og jólalegt og samdi þetta lag, á svona hálftíma sem hefur bara held ég aldrei gerst fyrir mig áður.

Hver er baksaga lagsins ? Ég held að flestir geti tengt á einn eða annan hátt við að sakna einhvers á jólunum, fjölskyldu eða ástvina. Textinn kom svolítið bara til mín án þess að ég spáði mikið í því hvaðan en innblástur myndbandsins er yndisleg kona sem mér þykir svo vænt um, sem hefur ekki talað við næst elsta barn sitt í næstum því 15 ár núna og ég veit að jólin eru henni alltaf erfið. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er og hræðist þá tilhugsun svo ég helgaði myndbandið sambands foreldris og barns þó vissulega megi túlka lagið og textann á marga vegu.

Ertu jólabarn? Já, haha það má svo sannarlega segja það. Þegar ég var lítil var ég búin að ákveða að gefa út jóladisk, ég sat inni hjá mér tímunum saman að semja (hrikalega) íslenska texta við erlend jólalög svo það er viðeigandi að fyrsta lag sem ég sendi frá mér einni (þ.e.a.s. Ekki ábreiða eða í samstarfi við einhvern) sé jólalag.

Ég elska þennan tíma, ég held að aðfangadagurinn sé næstum því minnst uppáhalds við þennan tíma, fyrir mér eru jólin bara árstíð. Undirbúningurinn, ljósin, tilhlökkunin og jólalögin!

Hvað er það besta við jólin ? Ég hugsa að jólalögin séu mitt uppáhalds (jóladiskurinn A very Ally Christmas er minn allra allra uppáhalds, var furðulegur krakki og Ally McBeal voru uppáhalds þættirnir mínir) við jólin og auðvitað allar jólamyndirnar! Svo er aspassúpan hennar mömmu í forrétt á aðfangadag ómissandi hluti af jólunum fyrir mér!

Ég reyni líka að horfa á Hringardróttinssögu trílógíuna á hverjum jólum, mér þykir það alveg einstaklega hátíðarlegt! Bara að geta slakað á, borðað góðan mat með vinum og fjölskyldu er svo dýrmætt, þessi tími er svo yndislegur!

Hvað er næst á dagskrá? Það er nóg að gera í desember, ýmsir jólatónleikar og uppákomur. Ég verð síðan með mína eigin jólastund á Sólon Bistro á Bankastræti 21. Desember þar sem frítt verður inn en möguleiki á frjálsum framlögum sem fara til góðgerðamála svo ég er rosalega spennt fyrir þeim. Ég mæli með því að kíkja inn á www.facebook.is/karitasharpamusic ef þið hafið áhuga á því að fylgjast með því sem er framundan.

Svo eru tilvonandi flutningar til Reykjavíkur um áramótin sem ég er líka hrikalega spennt fyrir, við Ómar Elí erum að flytja með bestu vinkonu minni (hún talar hiklaust um það að hún sé að verða stjúpmóðir) svo við erum spennt fyrir því og ég á fullu að leita að hlutastarf með tónlistinni!

Áttu einhverja dulda hæfileika ? Fullt af þeim! Ég get hrist í mér augun til dæmis OG sett lappir á bakvið höfuðið (fyrrverandi fimleikastúlka)

Hægt er að hlusta á nýja jólagið : HÉR 

Takk fyrir spjallið Karítas og til hamingju með nýja lagið þitt ( sem er núna nýja uppáhalds jólalagið mitt takk fyrir pent )
Einstaklega hæfileikarík stelpa hér á ferð með gullfalegt hjartalag og undurfagra rödd!
Fyrir áhugsama þá er hægt að fylgjast með henni á öllum samfélagsmiðlum undir nafinu : karitasharpa

Þar til næst

xx

Erna Kristín

Snapchat & Instagram : Ernuland