Ritstjórn KRÓM skrifar Flokkað undir KRÓM TV, Matur & Vín.

KRÓM tv 2 þáttur – Himneskt kjúklingasalat

Ný þáttaröð á KRÓM tv næstkomandi fimmtudaga ætlum við að sýna ykkur auðveldar og skemmtilegar uppskriftir þar sem hún Tinna Björg sýnir ykkur réttu handtökin.

Þetta kjúklingasalat gerir móðir mín stundum fyrir okkur fjölskylduna en uppskriftina fékk hún hjá samstarfskonu sinni. Þær krúttkerlingar eru alltaf að skiptast á girnilegum uppskriftum svo það eru reglulega nýir réttir á boðstólnum hjá mömmu sem ég fæ að njóta. Við uppskriftina bætti ég kasjúhnetum því mér finnst ómissandi að hafa einhvers konar hnetur í salötum.

Þar sem ég er sérlegur sósuáhugamaður og vil helst hafa matinn minn fljótandi í sósu þá er þetta salat mitt allra mesta uppáhald. Sem er svolítið kaldhæðnislegt því ég man að ég ojaði og ullaði á mömmu mína eins og smákrakki þegar hún sagði mér að það væri balsamikedik í salatinu. Ég er semsagt ekki mikill aðdáandi. En þegar edikið er komið í sósuna þá opnast bara eitthvað himnaríki. Þið verðið að prófa.

Kjúklingasalat í balsamiksósu

3 kjúklingabringur

sjávarsalt

svartur pipar

1 bréf beikon

1 dl sykur

1 dl balsamikedik

3 msk majones

1 dós sýrður rjómi

1 rauðlaukur 

1 krukka fetaostur

1 1/2 dl kasjúhnetur

100 – 130 g klettasalat

Saltið og piprið kjúklingabringur og steikið þær í ofni við 170° í 40-50 mínútur. Skerið kjúklingabringurnar í hæfilega stóra bita þegar þær koma úr ofninum og látið kólna aðeins ef tími gefst.

Skerið beikon í bita og steikið á pönnu eða í ofninum með kjúklingabringunum.

Sjóðið sykur og balsamikedik í potti þar til sykurinn bráðnar og kælið. Hrærið majones og sýrðan rjóma saman í skál og bætið balsamikblöndunni við.

Saxið rauðlauk smátt, hellið olíu af fetaosti og blandið saman í skál ásamt kjúklingabitum, beikoni, kasjúhnetum og klettasalati. Hrærið balsamikediksósunni saman við salatið.

Ég kýs að elda kjúklingabringurnar heilar í ofni frekar en að steikja þær í bitum á pönnu því þá verða þær síður brasaðar og þurrar. Beikonið steiki ég hins vegar frekar á pönnu því mér finnst það verða svolítið eins og gúmmi þegar það er eldað í ofni.

Fleiri uppskriftir er að finna á www.tinnabjorg.com

Kveðja

KRÓM
Munið eftir að líka við okkur á facebook HÉR