Ritstjórn KRÓM skrifar Flokkað undir KRÓM TV, Matur & Vín.

KRÓM tv 3. þáttur – Ostabrauðstangir með piparostasósu og fyllt kartöfluhýði, fullkomið með boltanum!

Nýja þáttaröðin Matur&Vín með Tinnu Björg heldur áfram en að þessu sinni sýnir hún okkur hvernig skal búa til fyllt kartöfluhýði og ostabrauðstangir. Næstkomandi fimmtudaga ætlum við að sýna ykkur auðveldar og skemmtilegar uppskriftir þar sem hún Tinna Björg sýnir ykkur réttu handtökin.

Í þessum þriðja þætti af Matur&Vín hér á KrómTV ætla ég að sýna ykkur hvernig hægt er að útbúa einfalt en ljúffengt nasl sem tilvalið er að raða í sig yfir boltanum á laugardaginn.

Ostabrauðstangir með piparostasósu

Ostabrauðstangir

120 ml volgt vatn
1 1/2 tsk þurrger
1/2 msk sykur
1 tsk salt
1 msk olía
240 g hveiti
1 1/2 hvítlauksrif
30 g brætt smjör
30 g fínt rifinn parmesanostur
200 g rifinn ostur
pizzakrydd
sjávarsalt
svartur pipar 

Leysið upp ger og sykur í volgu vatni og blandið salti og olíu saman við. Hrærið hveiti smátt og smátt út í deigið og hnoðið þar til það fer saman í kúlu sem festist við hnoðarann á hrærivélinni. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið hefast í um 1 klst.

Gott er að smyrja botn og hliðar á glerskál með smá smjöri og færa deigið yfir í hana þannig að auðveldara sé að losa það úr að hefun lokinni. Ég legg deigskálina oftast á heitan stofuofn til að flýta fyrir hefuninni, enda með eindæmum óþolinmóð.

Sáldrið smá hveiti á borðflötinn og fletjið deigið út þannig að það passi í ferhyrnt kökuform. Smyrjið formið með ágætis dassi af olíu, leggið deigið svo ofan í og teygið það út í öll horn.

Pressið hvítlauksrif og blandið saman við brætt smjör. Penslið hvítlaukssmjöri á deigið og sáldrið parmesanosti og osti yfir. Kryddið með pizzakryddi, sjávarsalti og svörtum pipar. Ég nota Heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum.

Bakið við 260° í 8-10 mínútur eða þar til deigið hefur dökknað og osturinn verður stökkur. Skerið brauðið í stangir og berið fram með heitri piparostasósu.

Piparostasósa

1 piparostur

1 1/2 – 2 dl nýmjólk

Rífið piparost þannig að hann bráðni fyrr. Hitið piparost og nýmjólk í potti þar til osturinn bráðnar og sósan verður kekkjalaus.

Athugið að getur tekið svolítið langan tíma fyrir ostinn að bráðna og því þarf að passa að hafa ekki of lágan hita á hellunni. Athugið þó að sósan brennur auðveldlega við svo það þarf að fylgjast vel með hitanum.

Fyllt kartöfluhýði

4 litlar bökunarkartöflur
½ – 1 dl mjólk
3 msk smjör
1 dl sýrður rjómi
6 vorlaukar
8 sneiðar súrsað jalapeño
3 dl rifinn cheddarostur
sjávarsalt
svartur pipar
6 sneiðar beikon

Þvoið burt óhreinindi af kartöflum og þerrið. Ég nota hreinan uppþvottabursta til að skrúbba þær.

Nuddið örlítilli olíu og sjávarsalti á kartöflurnar og bakið í ofni við 200° í 40-50 mínútur eða þar til þær hafa bakast í gegn. Kælið kartöflurnar þannig að hægt sé að meðhöndla þær og skerið í tvennt.

Skafið karftöflurnar innan úr hýðinu með skeið en athugið að skilja eftir um 2-3 mm þykkt lag svo hýðið rifni ekki. Leggið hýðið af kartöflunum fjórum til hliðar og setjið innihald þess í skál.

Stappið kartöflurnar með gaffli ásamt mjólk, smjöri, sýrðum rjóma, 2 dl af cheddarosti, salti og svörtum pipar. Byrjið á ½ dl af mjólk og bætið svo við eftir þörfum.

Saxið 4 vorlauka og súrsað jalapeño og blandið saman við kartöflustöppuna. Skerið beikon í strimla, steikið og leggið til hliðar.

Fyllið kartöfluhýðin með skeið og stráið beikoni og 1 dl af cheddarosti yfir.

Grillið í ofni við 200° í 5-10 mínútur eða þar til osturinn verður stökkur.

Saxið 2 vorlauka, sáldrið yfir fylltu kartöfluhýðin og berið fram með sýrðum rjóma.

Þegar maður hefur fyrir því að útbúa svona dýrlegt nasl fyrir fótboltaveisluna þá er nú nauðsynlegt að fá sér eins og einn eða sjö kalda.

Með ostabrauðstöngunum og fyllta kartöfluhýðinu hentar Stella Artois alveg einstaklega vel. Best þykir mér Stellan nýkomin úr frystinum eftir nokkura tíma túrbókælingu, héluð og svalandi.

Fallega bláa diskinn undir fylltu kartöfluhýðin fékk ég í Litlu Garðbúðinni. Hvíti diskurinn og litla skálin undir ostabrauðstangirnar fást í Líf & List.

Fleiri ljúffengar uppskriftir er að finna á tinnabjorg.com

Fylgist með mér á Facebook: www.facebook.com/matarbloggtinnu

Instagram @tinnabjorgcom

Kveðja

KRÓM
Munið eftir að líka við okkur á facebook HÉR