Stefania skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

#metoo – Kynferðislegt áreiti er ekki ásættanleg hegðun og hana á ekki að samþykkja

 

Þetta myllumerki #metoo eða #églíka, fékk mikla athygli á fyrir stuttu þegar leikkonan Alyssa Milano setti það inn á twitter aðgang sinn ásamt myndskoti, sem hvatti konur til þess að setja það inn á samfélagsmiðla hafi þær upplifað kynferðislegt áreiti eða ofbeldi. Þetta er gert til þess að vekja athygli á stærð vandamálsins sem vonandi hefur opnað augu margra.

Undirteknir hafa verið gífurlegar um heim allan og ekki síst á Íslandi. Þegar ég opna Facebook blasir #metoo við mér hjá flestum konum, sem og nokkrum körlum. Það sem mér finnst virkilega sorglegt er að þetta kemur mér ekkert á óvart.

Mörg þeirra hafa bætt við sögum af upplifunum þeirra og það sem ég hef sérstaklega tekið eftir eru þær sem byrja á því að skrifa:

„Fyrsta sem kom upp í hugann var að þetta hefði ekki hent fyrir mig, en síðan fór ég að hugsa og þá fattaði ég að…“

Ég hef áður skrifað um mikilvægi þess að setja fólki mörk og benda á þegar kynferðilegt áreiti á sér stað, vegna þess að ég tel að tilvikin sem að konur þykjast ekki heyra, eða láta sem ekkert sé þegar þær verða fyrir kynferðislegu áreiti séu fleiri en telja má.

Og ég skil það!

Ég skil að það sé þreytandi að þurfa að vera í sífellu að taka upp hanskann fyrir sig sjálfa. Að „hafa ekki tíma“ til þess að díla við einhverja menn úti á götu þegar ég er á leið í vinnuna. Að vilja ekki fá viðbrögð eins og „róleg, ég var bara að grínast“, „kanntu ekki að taka hrósi?“, „Afhverju ertu að vera tussa?“

Jafnvel viðbrögð fólks í kring um mann, sem segir hluti eins og „Æ hunsaðu þetta bara, ekki láta þetta eyðileggja daginn þinn“ og heldur að það sé að hjálpa.

Kynferðislegt áreiti er ekki ásættanleg hegðun og hana á ekki að samþykkja. Það á ekki að láta eins og ekkert sé. Kynferðislegt áreiti á ekki að vera hluti af daglegu lífi. Hvorki á vinnustað, á djamminu eða í öðrum aðstæðum.

Því biðla ég til allra kvenna þarna úti.

Stattu með sjálfri þér og ekki leyfa öðru fólki að ráðast á þig á þennan hátt.

Ekki láta eins og ekkert sé.

Mundu að þú hefur rétt á því að setja mörk, rétt á því að verja sjálfa þig og rétt á að benda á óviðeigandi hegðun.

Stöndum saman. Höfum hátt. Berum virðingu fyrir sjálfum okkur og verum fyrirmyndir.

Stefanía