Stefania skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Munurinn á hrósi og óviðeigandi hegðun – Stattu með sjálfri þér!

Í þau ár sem ég hef verið á atvinnumarkaðnum hef ég mestmegnis verið í þjónustustörfum. Það er margt sem mér finnst gaman við það og oftast nýt ég mín vel í vinnunni. Ég hef gaman af því að eiga í samskiptum við fólk og hjálpa því og góð samskipti gera daginn betri fyrir báða aðila. Mér hefur verið boðið á stefnumót af viðskiptavinum og það get ég kurteisislega þakkað eða afþakkað, án þess að það séu nein leiðindi sem fylgja þar á eftir. Að vera opin og brosandi gerir það líka að verkum að fólk hrósar þér, sem er yndislegt.

En það er stór munur á því að kurteisislega hrósa manneskju og að vera óviðeigandi.

Það kann að hljóma fáránlega að þurfa að taka það fram en ég og svo ótalmargar stúlkur í kring um mig getum staðfest að þess er oft þörf á. Í þjónustustörfum hefur mér verið „hrósað“ fyrir líkamsparta, orð mín snúin til þess að gefa í skyn kynferðislegan undirtón, það hefur verið gripið í mig og togað mig í fangið á sitjandi viðskiptavini á veitingastað. Þegar þessi hegðun lætur mér líða óþæginlega og ég orða það er svarið yfirleitt hið sama: „Hvaða, hvaða. Þetta er bara grín. Kanntu ekki að taka hrósi?“

Að kalla slíka hegðun „hrós“ gefur það til kynna að þessi hegðun sé sýnd með virðingu. Það er hinsvegar langt frá sannleikanum. Það versta er að þessi hegðun verður svo algeng að maður kippir sér varla upp við þetta lengur. Þó svo að þessar aðstæður skapist oft við þjónustustörf takmarkast þær alls ekki við þau.

Um daginn var ég gangandi niður Bankastrætið þegar maður á aldur við föður minn kallar á eftir mér hvað ég sé sæt. Ég ákvað að snúa við og gekk til þessa manns og spurði hann kurteisislega hvers vegna hann hefði kallað til mín.

Ég: Afsakið, en hvers vegna kallaðir þú þetta á eftir mér?

Maðurinn: Nei bara

Ég: Nei ég er raunverulega forvitin, hvað var það sem að þú hélst að myndi gerast?

Maðurinn: Nei bara, fyndið

Ég: Það finnst mér ekki.

Maðurinn tekur símann sinn upp úr vasanum og labbar í burtu.

Það er mér enn hulin ráðgáta hvers fólk væntir þegar það hagar sér á óviðeigandi hátt, og af þessum manni að dæma þá vita það ekki einu sinni gerendurnir sjálfir. Ég vil hvetja alla sem að verða fyrir óviðeigandi hegðun, hvort sem það er á vinnustað eða úti á götu, að standa mér sjálfum sér. Það er ekkert rangt við það að neita að taka þátt í slíkum samskiptum, sama hverjar aðstæðurnar eru. Þú þarft ekki að brosa, hlægja eða láta sem þú heyrir það ekki þegar komið er fram við þig á hátt sem að þér líkar ekki. Mér t.d. grunar að maðurinn sem að ég ákvað að ræða við hugsi sig um áður en hann hagar sér svona aftur.

Stattu með sjálfri þér og hjálpaðu til við að gera samfélagið sem við búum í heilbrigðara og fallegra.

Stefanía