Oddny Silja skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Oddný Silja – 9 atriði sem á EKKI að ráðleggja fólki

Kæra bloggdagbók,

Fyrir nokkrum dögum rakst ég á grein sem gerði mig dapra.

Greinin fjallaði um 9 atriði til þess að gera sig aðlaðandi.

Eitt af atriðunum var eftirfarandi : Að umgangast ljótt fólk gerir þig meira aðlaðandi.

( Ásamt auðvitað því að ganga í hælum, rauðum fötum, fá aðra til að hlæja og brosa því vísindamenn hafa sagt (mjög vísindalegt sko) að bros bætir upp fyrir ófríðleika. )

Flest atriðin eru fyrir konur (æji já ég ætla að segja það: auðvitað fyrir konur), eitt er bara fyrir karlmenn. Við konur eigum eins og vanalega að troða okkur í skó sem eru óþægilegir, brosa meira og vera minna ljótar, láta aðra hlæja, vera í rauðum fötum og ilma vel fyrir karla.

Karlar eiga að leika við barn.

Hvar á ég einu sinni að byrja? Hjálp!

Fyrir það fyrsta gerir það mig dapra að einhver fullorðinn skuli hugsa svona og ekki nóg með það heldur láti það út úr sér í þeim tilgangi að ráðleggja öðru fólki.

Það er kannski ekki skrýtið að við séum öll að drukkna í kviksyndi samanburðar við “fyrirmyndir” sem eru ekki einu sinni raunverulegar heldur tálsýn sköpuð til að græða á óöryggi okkar. Það er stanslaust verið að segja okkur að “hætta vera ljót, feit, illa lyktandi, í bláum fötum, vera svona eða hinsegin” og það eina sem við þurfum að gera er að vera öðruvísi en við erum, oftast til að kaupa vöru en hér í þeim tilgangi að skemmta lesandanum með sniðugum og hnyttnum ráðum. Auðvitað eru þessir tilteknu punktar bara skrifaðir í afþreyingar tilgangi og voru líklega aldrei til þess að breyta lífi neins en samt eru þeir  komnir út og þar með byrjaðir að hafa mismunandi áhrif á mismunandi aðila.

Það væri bara svo frábært ef enginn hugsaði svona. Ef enginn hugsaði svona þá væri ekki ljótt eða fallegt fólk, engar fegurðarsamkeppnir og heldur engin lýti og engin afbrigðilegheit heldur bara allskonar fólk í allskonar líkömum hver með sitt sérkenni. Það erum VIÐ sem sköpum þá hugmynd í hugum barnanna okkar að það sé til mis fallegt fólk, það er ekkert barn sem fæðist með þessa hugmynd tilbúna og reiðubúna til þess að berja niður sjálfa/n sig eða aðra sem upplifa sig ekki nógu góða fyrir kröfur samfélags sem auðvitað enginn getur uppfyllt. 

Í sambandi við þessa tilteknu grein sem ég sá, ég veit að þetta er eitthvað sem var þýtt úr annarri erlendri grein, orð annars aðila en þess sem þýðir hana. Æji, það er bara samt ekki nógu góð afsökun því þó að einhver annar láti svona kjaftæði út úr sér er það ekki skylda neins að þýða og þannig gefa þessum ömurlegu orðum meira vægi en þau hefðu haft úr munni eins apakattar.

Maðurinn minn tók þessa mynd af frábærri fjölskyldustund þetta sumar. Ég man ég hugsaði þegar ég sá myndina “ég er svo mygluð, æji eitthvað svo feit svona á hlið”. Það er óþolandi og algjört bull, ég er stórfín á þessari mynd og barnið mitt auðvitað fallegastur allra og svo er þessi minning eitt það fallegasta sem ég á. Er ekki kominn tími á að hætta þessu kjaftæði og fara að snúa okkur að því sem skiptir einhverju máli í þessu lífi?

Ég ætla að ljúka þessu lauflétta pústi mínu á leiðbeiningum fyrir fólk í leiðbeininga-hugleiðingum fyrir annað fólk.

  • 9 atriði til að ekki ráðleggja fólki 
  1. Ekki segja fólki að umkringja sig ljótu fólki, það er ekkert fólk ljótt. Öðruvísi fólk en við sjálf er ekki ljótt heldur bara öðruvísi.
  2. Ekki segja fólki að brosa því það dragi úr því hvað það er ljótt. Ráðlegðu fólki að brosa því mannverunni líður almennt betur í hjartanu þegar hún brosir. Þegar manneskju líður vel að utan sést það að utan og voula, fegurðin er hamingjan!
  3. Ekki segja fólki að litir á fötunum hafi ein áhrif umfram önnur á KARLMENN. KARLMENN hafa mismunandi skoðanir á litum almennt, alveg eins og konur.
  4. Ekki segja karlmönnum að leika við eitthvað barn, það er bara furðulegt.
  5. Ekki segja konum að ganga í hælum til að vera meira aðlaðandi. Segðu frekar konum að konur geti verið aðlaðandi í þeim skóm sem þær vilja vera í. Afþví skór eru ekki mælikvarði á vellíðan, fegurð eða útgeislun.
  6. Ekki segja fólki að ilma vel. Ef fólk elskar sig sjálft og iðkar sjálfsumhirðu af virðingu við sinn eigin líkama þá lyktar það vel. Líka þótt það kjósi að ganga ekki með ilmvatn hannað af aðilum sem segja einmitt svona hluti, ilmaðu vel með rándýru lyktinni minni…
  7. Ekki þýða bara einhverja grein því það vantar lestur á síðuna þína, sérstaklega ekki ef hún er bara ömurleg upptalning á því hvernig fólk geti hætt að vera ljótt.
  8. Ekki tala um „ljótt“ fólk. Æji bara ekki vera týpan sem talar svona.
  9. Ekki (missa móðinn, ég er að klára og þá kemstu að því hvað Á að gera) brjóta niður aðra með “ráðleggingum” sem geta haft slæm áhrif á þann sem les. Leitaðu leiða til að byggja upp fólk í kringum þig frekar en öfugt. Það er reyndar það sem við ættum öll að tileinka okkur. Þannig verður heimurinn miklu miklu fallegri.

 

Að lokum-lokum

Ég veit að þessi færsla er sjálf endurtekning á því sem gerði mig dapra og jafnframt ekki til að byggja neitt upp en mér líður eins og að á móti röddum sem segja “vertu mjórri, betri og öðruvísi” verði að heyrast hinar raddirnar sem við flest (vil ég trúa) höfum, heilbrigði og hamingjusemi er það eina sem skiptir máli, gleðjumst yfir því frekar en að berja okkur niður fyrir að eiga ekki réttu hælana.

Jæja elsku lesendaskotturnar mínar, drífið ykkur nú með hlýju í hjarta út í nýja viku og reynið að vera svolítið góð við hvort annað.

Ykkar óvenju einlæg að þessu sinni, Oddný