Oddny Silja skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Oddný Silja – Árlegu áratímamótin runnin upp og ég elska þau

Ég elska áramótin!

Einu sinni þoldi ég ekki þetta kvöld. Sprengjur eru almennt mjög heimskulegt fyrirbæri, hávær, óumhverfisvæn, lungnaskaðandi slysahætta í boði björgunarsveitanna. Djammið er alltaf vonbrigði á þessu kvöldi. Ég var frekar ódauðleg svo eitt lifað ár til viðbótar var ekkert til að hlæja eða gráta yfir, bara sjálfsagður hlutur eins og hver annar þriðjudagur í Hámu og svo fannst mér áramótaheit asnaleg.

Núna elska ég þessi tímamót! (Er samt ennþá sammála sjálfri mér um sprengjurnar, þær mun ég aldrei fatta.)

Èg elska að horfa yfir árið mitt sem er renna sitt skeið á enda og fara yfir fréttir ársins þessa síðustu viku þess.

Ég fer yfir árið með þakklæti í huga, til dæmis hef ég þakkað fyrir það oftar en 1x og 2x á þessu ári að vera ekki Ragnar enda hlýtur að vera meira en litið lýjandi að þurfa ekki bara að hugsa um eigin prófíl myndaval heldur líka hjá fullt af öðru fólk! #ekkiveraragnar þið munið en er meira svona #takkfyriraðégerekkiRagnar.

Ég hef líka oft þakkað fyrir að vera ekki Bjarni Ben. Þvílíkt úthald sem maðurinn hefur fyrir því níði sem hann verður fyrir, ég hef til dæmis líka oft lent í að koma gráhærð úr klippingu en það er enginn sem kippir sér upp við það!

Svo er ég eins og allir íslendingar þakklát fyrir costco. Hvar keypti ég eiginlega klósettpappírinn minn áður en sú stórfenglega verslun mætti og hversu oft! Mér líður eins og að nú fá ég loksins tilbaka dýrmætan tíma sem áður fór í alltof tíð klósettpappírkaup sem ég get framvegis notað í eitthvað mun skemmtilegra.

Ég á mér líka fyrirmyndir sem hafa verið áberandi á árinu eins og Guðni minn elskulegi Th Jóhannesson, fyrir utan það að við aðhyllumst sömu boð og bönn, eða aðallega ananasbannið á pizzur þá er hann bara svo yndislegur, hver annar keyrir tvo pilta heim úr sundi svona óundirbúið? Nú keyri ég reglulega framhjá sundlaugum bæjarins og býð börnum far heim (en grínlaust hver elskar ekki Guðna? Hann hefur gert undanfarin ár og mun gera fleiri ár svo miklu miklu betri).

Fyrir utan þetta allt er ég þakklát fyrir eurovision en ég er það svosem hvert einasta àr enda bregst aldrei að eurovision er einn besti dagur ársins! Hvar væri allt glimmer heimsins staðsett í maí ef ekki væri fyrir eurovision? Hvar væri Svala stödd og hvenær hefðum við kynnst Daða? Ég vil ekkert hugsa þangað.

Og skaupið, maður lifandi þvílík skemmtun! Eina sem myndi mögulega gera það betra væri að ég fengi að leika það (öll hlutverk að sjálfsögðu) og skrifa það! Hef það í huga fyrir áramótaheitin…

Mitt persónulega ár (svo ég deili nú einhverju persónulegu á opinberu dagbókinni minni) var svo stútfullt af allskonar hamingju.

Þegar fólk setur inn mynd af BS “skilum” með ritgerðina í fanginu, útlítandi eins og eðlilegt fólk sem hefur sofið undanfarnar vikur og ekki þurft að ljúga til um hversu margar baðferðirnar voru þessa síðustu viku fyrir skil, þá er það fólk að ljúga, það er ekki eðlilegt “ég var að skila inn BS ritgerðinni minni áðan” útlit… ÞETTA er eins og eðlilegt “ég var að skila ritgerðinni minni” útlit! Þannig gjörið svo vel, fullkomlega heiðarleg “ég var að skila inn BS ritgerðinni minni” mynd af mér.

BS skilin, Ó vá what a feeling! 

Barnið mitt varð eins árs og við foreldrarnir fögnuðum svo ákaft að úr varð annað barn.

Maðurinn minn útskrifaðist úr sínu námi og fékk draumastarfið.

Við áttum (eigum) eigin íbúð og erum loksins fullborgandi og gildir farþegar um borð í góðæris lestinni. Svo fórum við í útilegu með stórfjölskyldunni og sköpuðum dýrmætar minningar. (Já ég veit helvíti væmið en svona er lífið, væmið á köflum).

Svo bara vöknuðum við andfúl saman alla morgna, drukkum gott (stundum vont kalt, við eigum barn þið munið) kaffi, fórum á deit í Berlín, fórum á deit í philadelfiu, fórum á deit heima í stofu og spiluðum scrabble (rústaði alltaf…) (Okei ekki alltaf, stundum)(en svindlaði allavega aldrei!) (okei svindlaði smá, ég er að vinna í því) (eða ekki).

Átti gæðastundir með vinum.

Árið 2017 varð ég líka þrítug, eintóm tímamót og gleðihót þetta ár. Þvílík lukka að fá að eldast og ég fagnaði því ákaft í partýfaðmi vina og vandamanna, fór svo í boði míns heittelskaða á tónleika úti í hinum stóra heimi (ok UK en samt flugvél, vegabréf og allur pakkinn).

Heppin, heppin, heppin!

Í umræddri þrítugsferð í hinum stóra heimi, UK

 

Hvað varðar heitin, hvernig getur verið asnalegt að setja sér markmið? Ég hef algjörlega verið sú sem hefur strengt heit og ekki uppfyllt þau öll en hvernig ætla eg að ná mínum markmiðum ef ég þori ekki einu sinni að setja þau fram? Stundum eru þau bara einföld eins og að lesa ákveðna bók eða láta mér líða vel með því að fara oftar í pottinn. Markmiðin þurfa ekki öll að vera “drekka meira vatn, minni bjór, kötta út sykur, hveiti, kolvetni, prótein og fitu, keppa í heimsleikunum og þrífa meira en Sólrún Diego, verða hin fullkomna mannvera”.

Það er gaman að setja sér markmið og fylgja þvi eftir, þvi fylgir einhverskonar tilgangur og gleði. Gefur næsta ári byr undir báða vængi, bara til dæmis það að ég ætla að vera glöð/glaður og njóta!

Ég deili kannski heitunum mínum þetta árið með ykkur seinna en þangað til þá get ég deilt með ykkur í grófum dráttum framtíðarplaninu fyrir 2018. Vera ennþá meira glöð, tuða minna og njóta meira, vera til staðar og hætta að láta spegil myndina stjórna svona miklu af innri líðan. Halda áfram að þakka fyrir stundirnar sem ég fæ með fólkinu mínu og eins og Sigga Bei segir alltaf “láttu þér líða vel, þetta líf er til þess gert” (jú jú nú er maður farinn að kvóta í íslensk dægurlög eins og enginn sé morgundagurinn, þá er líklega tími til að enda þessa færslu).

 

 

Ólétt að vanda, getum bara ekki hætt þessari mannveru framleiðslu, enda einu verðmætin

 

Áramóta og gleði (ekki sprengju!) kveðjur

Oddný