Oddny Silja skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Oddný Silja – Ein fegurð fyrir alla?

Fegurð

Nú þegar ekki bara ein heldur tvær fegurðarsamkeppnir hafa nýlega gengið í og úr garði finnst mér einfaldlega við hæfi að renna yfir nokkur atriði sem mér finnst (eða þið vitið, heilagur sannleikur eins og allt annað sem mér finnst) einkenna fegurð. Í fyrsta lagi þá er dökkt hár mjög einkennandi fyrir fegurð, grænblá augu, ca 168 cm á hæð, fölhvít húð, smá bollukinnar..

Ég læt bara fylgja með mynd þá skiljið þið hvað ég er að segja.

Er reyndar komin 49 vikur á leið þarna en fannst ég auðvitað sætust!

Æji ég er að sjálfsögðu bara að djóka, eða sko, mér finnst ég voða ágæt þegar ég horfi í spegilinn (flesta daga) þannig ég get algjörlega skilgreint sjálfa mig fallega að mínu eigin mati. ÉG er samt væntanlega ekki sjálf skilgreiningin á fegurð. Það væri kannski einum of mikið á eina manneskju lagt. Fegurð er líka auðvitað ekki bundin við manneskjur einar saman.

Fegurðin liggur í : (Mitt mat, þið munið sannleikurinn)

  1. „Málverki“ sem barnið þitt kemur með heim úr leikskólanum, sama hvað það er ljótt þá blindar foreldraástin hvaða bjána sem er.
  2. Deginum sem þér líður svo vel með sjálfan þig að þú kaupir Íslandsklukkuna þótt þú kunnir ekki einu sinni að lesa
  3. Snickers
  4. Að ná prófi þegar þú ert búinn að vera með niðurgang yfir því í mánuð
  5. Börnunum þínum, foreldrablindnin þið munið
  6. Fallegu tattooi
  7. Að losna við tattoo með nafni af fyrrverandi kærasta
  8. Foreldrablindni, hvar væru öll ósofandi, óværu, reynandi á öll þolrif börnin okkar stödd án hennar?
  9. Nálægð við klósett þegar manni verður brátt í brók, það eru allir sammála um þetta

Og alvöru hlutum eins og það að geta menntað sig, búið í friðsælu umhverfi, geta eignast börn og vera ástfaginn.

Að mínu mati er minnsti hluturinn útlit. Samt erum við alltaf með það á heilanum, allar auglýsingar (þá sér í lagi þær miðaðar að konum) beina okkur í átt að útlitsþáttum, vörum sem við verðum að eiga til að viðhalda eða auka á útlits fegurð. Aðgerðir, krem, skrúbbar, hárvörur og svo lengi mætti telja til þess að við endum örugglega allar eins, allar „fallegar“ eins og okkur er kennt af samfélaginu að fallegt sé.

Ég mun alltaf eiga erfitt með hugsunina að keppa í fegurð.

Þó ég geti verið fyrst til að viðurkenna að ég ætlaði mér aldrei að verða flugfreyja, hjúkrunarfræðingur eða húsmóðir heldur hreinræktuð atvinnu fegurðardrottning! Kannski gerist það eftir að árin bætast á, ég verð sáttari í eigin skinni og fyllist á þroskatankinn (já, ég geri mér grein fyrir því að ég er 100 ára) að ég skil minna og minna í keppni í meðfæddu (og stundum keyptu líka) útliti þar sem ég sé fegurðina í 95% öðru en útliti annarra og mínu. Skilaboðin eru einfaldlega skringileg, erum við þá að segja að stúlkurnar sem tapa séu þá einu sönnu næst sætustu stelpurnar á Íslandi? En ég þekki svo margar sætar konur og stúlkur sem hafa aldrei tekið þátt í fegurðarsamkeppnum að það getur varla verið rétt.
Þegar einum finnst brúnt hár fallegt og öðrum ljóst hvernig getum við þá komist að rökréttri niðurstöðu og kosið eina fallegasta af þeim sem keppa? 

Þetta er svosem gömul tugga og ný, enginn heilagur sannleikur og allt bara huglægt blaður frá einni konustelpu, ástkonu/mömmu, fluffu/hjúkku í Garðabæ.

Mér þætti samt gaman af því að vita hvað ykkur finnst einkenna fegurð, kannski eru fleiri svona skrýtnir eins og ég að sjá fegurðina í klósettferðum og uppblásnu sjálfstrausti. Endilega hendið út í kosmósið ykkar hugmyndum á #mínfegurð og dreifum allskonar fegurð fyrir alla.

Að þessu sögðu þá óska ég nýkrýndum fegurðardrottningum að sjálfsögðu til lukku með árangurinn í fegurð sinni en í hreinskilni sagt vona á sama tíma að þessar keppnir komi til með að deyja út áður en ég á unglings stúlku sem fer að berja sig niður fyrir að líta öðruvísi út en fyrirfram ákveðin uppskrift af fegurð, ekki það að mín unglingsstúlka myndi auðvitað rúlla öllum heimsins fegurðarstöðlum upp #foreldrablindnin.

Ég er svo á snapchat fyrir áhugasama : oddnysilja