Oddny Silja skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Oddný Silja – Flottasta barnaafmæli ársins í Garðabænum

ATH, engin tár voru felld við undirbúning afmælisins né gerð þessa pistils, hreina satt.

Nú spyrjið þið ykkur “ en hvernig, hvernig fór hún að því að halda besta barnaafmæli allra tíma, hvernig er hún svona chic og afslöppuð?!

Ég vil vita ALLT!”

Ég skal segja ykkur það, fáið ykkur bara kaffi og lesið elsku foreldrar og almennt áhugafólk um frábær barnaafmæli.

Í fyrsta lagi væri kannski við hæfi að kynna mig sem nýjasti bloggarinn á Króm. Höfum það samt stutt, svo virðist sem einhverskonar bráðaofnæmi hafi herjað á landann fyrir kynningum á samfélagsmiðlum.

Kynning :

Oddný Silja, 30 ára, unnusta, mamma og allt það. Mjög fyndin og skemmtileg en kaldhæðin svo héðan í frá verður að taka það með í myndina við lestur á mínum pistlum.

Ókei? Ókei.

Afmælið góða, sonur minn varð 1 árs sem ég skil ekki því ég var að fæða hann í gær. Vá frumleg Oddný… Hvað hafið þið lesið þessa setningu oft áður? Ég veit, klisjan uppmáluð en svo virðist sem maður breytist í einvherskonar gangandi klisju þegar maður verður mamma.

Það er allavega þannig að tíminn flýgur þegar það er gaman, skjalfest og það sérstaklega eftir að maður eignast barn!

Þannig að fólk sem á ekki börn veit í rauninni ekki hvað það er að hafa gaman…

DJÓK!

(Í alvöru, þetta var djók ekki senda mér haturspósta plííís)

Talandi um að hafa gaman, vá hvað það er skemmtilegt að halda barnaafmæli! Allir sem við elskum mest komu til að fagna afmælinu hans B og  njóta dagsins með okkur. Þvílík lukka að fá að upplifa þetta allt og já ég veit nítjánda klisjan frá því þið byrjuðuð að lesa en meina ég varaði ykkur við.

Nú eins og þið sjáið á myndunum er um að ræða mjög venjulegt barnaafmæli. Ég gekk meir að segja svo langt að skreyta ekki neitt!

Þið núna : “En bíddu sagði hún ekki flottasta afmæli ársins og í Garðabæ í þokkabót?!”

Æji jú ég þurfti bara smá sjokk faktor til að lokka ykkur inn, þið vitið ég er ekki orðin jafn fræg og margir bloggarar og ef ég hefði sagt “venjulegt barnaafmæli” hefðuð þið ekki opnað bloggið. Og svo langar mig aðeins að ræða þetta líka þannig smá lygi smá satt,

sorry.

Sko, ég hélt nafnaveislu fyrir um ári fyrir sama barn. Halló hvað það var í alvöru flottasta veislan á Íslandi! Eða nei reyndar alls ekki, hún var aðeins flottari en samt sennilega langt frá alvöru Instagram kröfum. Ég bakaði makkarónur og skreytti húsið með veifum og myndum. Svo bakaði ég köku sem var svipað stór og trampólín, ein, með grenjandi ungabarn og ég ósofin í 3 mánuði. Eftir að hafa bakað hana í 7 bútum og lagt á föndraðan platta úr serísós kössum ætlaði ég lauflétt að leggja fondant sem ég hafði sjálf gert. Ég hafði búið til fondnant sem hefði passað yfir vatnsglas, kakan þurfti svona sirka fallhlíf af fondnant. Ókei við getum mögulega ímyndað okkur hvernig þetta endaði? Með rosalega mikið af tárum og meðfylgjandi “vellíðan”.

Ég áttaði mig á að ég myndi ekki klára verkið ein og leitaði á náðir systkina minna sem björguðu málunum. Ég gat hlegið af þessu eftir á en mér var alls ekki hlátur í hugsa þegar ég horfði á meistarastykkið (ímyndaða, ég er ekki góð að baka og vissi það alveg þá líka) í molum. Ég hafði nefnilega séð fyrir mér rosalega mörg like á instagram, og svakalega mörg hrós í veislunni sem ég gæti svarað svona : Takk fyrir, ég gerði hana ALEIN! Afhverju? Ég veit það ekki, maður myndi halda að þrítug konan gæti áttað sig á að instagram like eru ekki lífið og útgrátin kaka er ekki jafn góð og kaka sem er gerð af glöðum systkinahóp.

Æji hvað ég get sagt, ég er mannleg og meingölluð.

ALLAVEGA.

Ég ákvað að þessi mistök ætlaði ég ekki að endurtaka. Ég naut mín ekki jafn vel og ég hefði átt að gera, til hvers eru annars þessar veislur? Fyrir myndir á Instagram eða að njóta þess að vera saman með fjölskyldunni og borða góðar ósaltar kökur? (Oh ég sé alveg klisjuna sem vellur uppúr mér hér líka…)

Undanfarið ár er búið að vera eitt besta og á sama tíma erfiðasta ár hingað til, ekki útaf Benjamín heldur tókum við Atli (maðurinn minn) okkur ekki frí frá námi heldur héldum bæði áfram í fullu háskólanámi ásamt því að byrja fljótlega í hlutastörfum og með nýfætt barn sem svaf ekki nógu vel. Síðustu vikur fóru í það að við vorum bæði að skrifa BS ritgerðir og ég byrjaði í sumarvinnunni minni samhliða því. Ég var orðin (lesist: ég ER) úrvinda, nánast örmagna.

Ég hafði hugsað mér að baka allavega eina Betty, það má alveg monta sig aðeins af svoleiðiss köku er það ekki?

Besta ákvörðun sem við tókum : COSTCO. Ég er ekki einu sinni pínulítið að grínast.

Við fórum kl 09 á afmælisdegi prinsins (jú jú klisjumömmur kalla strákana sína prinsa) í Costco, það skal strax tekið fram að Benjamín var hæstánægður með þá heimsókn, benti á öll ljósin og fannst gaman af mannlífssýningunni eins og mömmunni. Við vorum líka komin áður en alvöru örtröðin byrjaði. Jæja allavega áfram með smjörið! (já gleymdi líka að segja að ég er langoftast langorð eða langskrifandi þegar ég skrifa blogg, verðið að venjast því)

Við keyptum allt til alls. Ekkert var heimatilbúið nema rískökur sem brósi og mágkona mín voru svo elskuleg að gera fyrir mig. Ég lyfti ekki fingri nema til að breiða pappírsdúkinn á borðið og hella kaffi á brúsann. Og vitið þið hvað, það var frábært! Ég bara naut dagsins. Við tókum ekki einu sinni myndir nema í litlum mæli, ég eyddi tímanum með fjölskyldunni og að njóta með B og A, uppáhalds mönnunum mínum.

Þvílík lukka!

Og ekki misskilja, þetta blogg er ekki hugsað sem niðurrif á aðrar mömmur sem gera allt lífrænt frá grunni með skreytingar úr gulli og Omaggio vösum eða á önnur blogg. Ég hef nefnilega líka mjög gaman af hinu og ef það er tími og afslöppun í kring þá nýt ég þess að baka góða köku og ég geri svakalega góðan brauðrétt sem ég tek alltaf við hrósum fyrir, ég hef líka gaman af því að skreyta og gera fínt enda þekkt fyrir bestu eurovision partý Íslands (eða í vinahópnum þið skiljið, same same).

Í ár hafði ég ekki orku eða tíma og mig grunar að við séum mörg foreldrarnir í þeim sporum. Enginn hefur tíma en samt eru kröfurnar þannig að við þyrftum öll 37 klt í sólahringnum.

Einu kröfurnar sem skipta máli eru þær sem barnið setur, vitið þið hverjar kröfur þeirra eru?

Að eyða tíma með okkur, að njóta og eiga mömmu sem fær sér líka kaffibolla í afmælinu, er kát og afslöppuð.

Hitt er auka, og má alveg ef það skemmir ekki fyrir aðal málinu J

ATH! Engin tár féllu ofan í keyptu kökuna frá Costco og hún var góð og flott. Ég fékk nefnilega mörg hrós fyrir hana, ég og Costco þökkuðum bara kærlega fyrir okkur.

Kveðja

Oddný Silja