Oddny Silja skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Oddný Silja – Hvað á að borða í kvöld?

Hvað eigum við að borða í kvöld?

Ég ELSKA þessa spurningu, ég meina það við hreinlega elskum þessa spurningu á þessu heimili!

En til að forðast að fá ógeð af þessari spurningu og lenda í þessari botnlausu hýt af hugmyndarleysi sem virðist hafa heltekið fólk út um allan bæ þá undirbý ég alltaf mánuð í senn enda ekkert vit í öðru í svona uppteknu nútíma lífi.

Svo þegar dagar koma upp og ég á ekki í réttinn sem ég planaði þann daginn þá er eg með plan B.

Og þess vegna á ég alltaf heimagerðar glútein/sykur/aukaefna/transfitu lausar kjötbollur í frystinum sem ég vippa í ofninn og ber fram ásamt gufusoðnum gulrótum og vítamín sósu.

 

Frekar heiðarleg og ófilteruð eldamennska bara

Eða, Æji. Ég er að ljúga, ég er alltaf á leiðinni að gera svona matarplan og fara eftir því. Mig langar rosalega að vera skipulagðari og hollari og betri eldabuska svona almennt en Á ég að segja ykkur leyndarmál?

Ég á alltaf kjötbollur frá IKEA í frystinum, allavega mjög oft.

Og gulræturnar?  Ég bara atti ekki kartöflur.

Það var heldur engin vítamín sósa á boðstólnum, bara venjuleg sósa sem var nú kannski minnsta sem ég gat sett í verk.

Sko.

Ég ætla ekki þangað sem er svo mikið í tísku í dag : “Það er bara bilað að gera þú hlýtur að skilja það, má ekkert lengur eða? Mega mamma og pabbi ekki fá smá frið eftir erfiðan vinnudag? Það hefur enginn tíma fyrir heimaeldaða máltíð lengur þú hlýtur að skilja það, við erum svo bissí manneskja!”.

Ég nefnilega elska að elda og vildi að ég hefði tíma til að standa yfir pottum og pönnum hvert einasta kvöld og elda holla, heilnæma og góða fæðu fyrir fjölskylduna og áður en þið hugsið “jááá ein af þeim, hún á bara að standa yfir pottunum á meðan hann horfir á fótboltann!” þá þvær maðurinn minn nánast allan þvottinn, enda ástríðan hans. Eða, meira algjör Ó-ástríða mín og við skiptum á milli okkar verkum því við erum mjög nútímaleg og flott og frábær fjölskylda eins og þið vitið.

Jafnvel þótt að eldamenskan væri ekki ástríðan mín finnst mér samt að barnið mitt / börnin mín / ég og maki minn eigum að hugsa vel um kroppinn okkar og budduna i leiðinni, í því felst einfaldlega að borða heimalagaðan mat úr eins hreinu hráefni og hægt er í flestum tilfellum.

Að því sögðu þá var ég að viðurkenna að ég á oftast poka af kjötbollum úr IKEA í frystinum… Þessar bollur eru ekki það besta en þær eru klárlega ekki verstar heldur.

Í staðinn fyrir að panta fimmtu pizzuna þá vikuna eða hárreita sig yfir flóknum fiskrétt sem átti að vera í matinn það kvöldið eru svona valkostir ágætis millivegur, þegar ég segi svona valkostir meina ég uppskrift dagsins en hana má útfæra á alla vegu, fyrir mjólkurlausa, grænmetisætur, vegana, hnetuofnæmispésa eða bara það sem hugurinn girnist, það eru til allar gerðir af tilbúnum semí hollum bollum í pokum úr frysti í flestum matvöruverslunum.

Það getur enginn verið 100% á öllum stöðum alltaf en erum við ekki bara að gera okkar besta?

Þetta er einfalt mál, ef ég fæ aðeins meiri gæðatíma með fjöllunni (fjölskyldunni, finnst þessi færsla bara orðin svo miðaldra að ég er með góðum árangri að yngja hana upp með slangri) með tilbúnum bollum úr poka þá munum við bara stundum borða tilbúnar bollur úr poka. Allir glaðir.
 Það tók mig ekki 2 tíma að taka þessa mynd, bara svona 3 sekúndur þangað til strákarnir misstu alla þolinmæði fyrir bloggandi myndatökumömmu og borðuðu allt sem var á diskunum

Ég er svo á snapchat fyrir áhugasama : oddnysilja