Oddny Silja skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Oddný Silja – Jól á raðgreiðslum með gleði í hjarta!

Það eru örfáir dagar í jólin í þessum skrifuðu orðum.

Þau nálgast með öllu tilheyrandi, hangikjöti og uppstúf, vel og í hreinskilni sagt oft illa skreyttum trjám (rétt upp hönd sem á börn), samverustundum með fjölskyldunni og smá fríi frá hversdagsleikanum, yndisleg.

Jólin eiga þó sínar skuggahliðar eins og með svo margt sem við sköpum okkur.

Við erum skrýtnar skrúfur við mannfólkið. Við tökum til dæmis lifandi tré úr jörðinni til að geyma inni í húsunum okkar þangað til þau deyja drottni sínum þar og þaðan beinustu leið á haugana. Við borðum mat ekki bara til að uppfylla næringarþörfum eins og flest dýr heldur oftar en ekki þangað til við liggjum í fósturstellingu í fullu starfi að reyna melta eftir ofátið eða að kroppurinn hreinlega fer í hjartastopp. Við rásum um Kringluna með 120 í púls til að kaupa jólagjafir, jólaskraut, jólakjól og jólaskó, hver hlutur þarf að vera hinum flottari og dýrari og að því loknu með útbrennd visakort og skuldasvita milli tánna förum við heim og kvörtum undan ríkisstjórninni því þetta brjálæði er dálítið fjárhagslega sligandi, eiginlega bara mjög sligandi.

Jæja ég ætla nú ekkert að tala um ágæti ríkisstjórnarinnar í þessari færslu né það hvort henni sé um að kenna að við förum heim með reikning skipt niður í 12 jafnar greiðslur út árið svo við getum endurtekið leikinn að ári eða þá hvort við þurfum að líta í eigin barm að einhverju leyti.

Við bara gleymum okkur stundum. Verðum að taka þátt í partýinu sem er í gangi sama hvað það kostar! (Jólapartýið, afmælispartýið, 66 norður og timberlake partýið, skírnarveislan og júrópartýið, þið skiljið, öll partýin). Hvert heimili þarf að vera flottast, hreinast, með stærsta tréð, flestar heimabakaðar sortir og mestu jólagleðina líka. Einfaldar kröfur sem við höfum sett okkur að vanda…

Ofan á þetta allt eru jólin skrýtinn og oft flókinn tími, á meðan hann er besti tími ársins fyrir marga er hann sá allra versti fyrir aðra.

Flest eigum við það þó sameiginlegt að gleyma okkur í ofantöldum atriðum, þið munið tímakreppu, kreditkortabruna og skuldatásusvita atriðunum. Líka ég. Gleymi mér i stressi yfir síðasta pakkanum og allt i einu verður innpökkun gjafa að skylduverki í miðri stress hringiðunni í staðinn fyrir að vera eitt af því skemmtilegasta sem ég geri um jólin.

Persónulega vildi ég óska að öll jólin væru minna af ofangreindu og meira af streitulausum samverustundum fjölskyldunnar, bara að njóta þess að vera saman í fríi. Ég hugsaði svolítið um þetta þegar ég var að skera út laufabrauð með fjölskyldunni minni um daginn. Sú hefð samanstendur af fáu öðru en samveru og ró, þessi ró sem ætti í raun að yfirtaka allt um hátíðarnar en virðist oft gleymast.  Krakkarnir skera út eina köku eða svo og fara svo að leika sér á meðan fullorðna fólkið sker út og drekkur kaffi, jólastress er ekki til á þessum skemmtilega samverustað.

Persónulega er ég samt líka svakalegt jólabarn sem vill 10 sortir af smákökum, 3 metra jólatré og 2 seríur í alla glugga. Svo er ég líka skilnaðarbarn í sambandi með öðru skilnaðarbarni, ss. allir út um allt sem oft flækir hlutina OG mér finnst jólin ekki mega koma nema það sé tandurhreint og straujað á rúmunum. Líklega fullkomin uppskrift í jólakvíðasjúkling eins og þeir gerast verstir.

Núorðið finnst mér algengt að heyra ” jólin koma þótt þú náir ekki að þrífa inn úr öllum eldhússkápum, skúra forstofuna eða kaupir  tilbúnar smákökur osv.fr. “, þ.e. allt til að létta á þessari heimatilbúnu streitu sem hefur læðst með auknum tilþrifum undanfarin ár inn á hvert heimili.

Og hvað í ósköpunum eigum við þá að gera í þessu til þess að njóta sem best og mest?

Augljósa svarið er að útbúa sér svona skreytingu, þá fyrst getum við byrjað að njóta jólanna.

 

Æji, ég er svo lítil sjálfshjálparbók í mér. Erum við ekki öll fullorðið fólk sem gerum okkar besta hverju sinni? Ef þér finnst jólin koma með bónuðu stofugólfi gerðu það þá. Ef þú ert ekki þar en jólatréð leikur stærsta hlutverkið í þínum jólum einbeittu þér þá að því. Nú eða bara þú ert algjör skröggur og tekur ekki þátt í þessu, þá er það í lagi líka.

En sama hvað okkar jól snúast helst um, reynum að njóta. Sumir eyða nefnilega jólunum á landspítalanum að berjast við sjúkdóm sinn eða þá sem aðstandendur. Sumir hafa nýlega misst sinn allra nánasta og enn aðrir eiga lítið í sig og á. Þegar við setjum það í samhengi við þetta hefðbundna stress verður þetta auðvitað allt kristaltært.

Hættum’essu væli, fáum okkur smjör með laufabrauði og skolum niður með maltiogappelsíni. Knúsum þá sem við elskum oft og mikið og setjum tærnar upp í loft, hendum jólarós í omaggio vasann og horfum á hann fylla okkur lífshamingju, visa reikningurinn fer ekkert fyrr en í fyrsta lagi í febrúar og við getum ekkert gert í honum núna hvort sem er.

 

 

Einlægar jólakveðjur frá jólaskilnaðarbarninu

Ég er svo á snapchat fyrir áhugasama : oddnysilja