Oddny Silja skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Oddný Silja meðganga 2  – Ég er hætt að sjá allt fyrir neðan nafla, nema tærnar!

Kæra meðgöngu dagbók.

Nú er það svart (bjúgað, brjóstsviðað, þið fattið).

Ég er hætt að sjá allt fyrir neðan nafla, nema tærnar. Ég óttast samt það versta, það eru 2 og1/2 mánuður eftir, líklega endar það þannig að ég sé ekki einu sinni glitta í stóru tá. Nú er líka úti um rakstur á hvers kyns líkamspörtum fram að fæðingu. Mér verður allavega ekki kalt á kálfunum á næstunni.

Ég er farin að hafa áhyggjur af fæðingunni, aðallega auðvitað órakstrinum. Órakað allt fyrir neðan nafla og naglalakks leyfar á tánum? Aumingja ljósmæðurnar!

Ég er komin 23 vikur, eða var það 31? Man það ekki.

Á fyrri meðgöngu taldi ég niður dagana í að hitta litla manninn. “Æjjjjjj hann er eins og VÍNBER í dag”! Núna á ég erfitt með að halda utan um hvaða mánuður er genginn í garð og finnst þetta líða helst til fljótt enda að verða ljósara og ljósara hvað við erum búin að koma okkur í, vökunætur og 10 kúkableyjur á dag, þetta rifjast óðfluga upp þessa dagana.

Brjóstsviðinn hefur náð nýjum hæðum á þessari meðgöngu. Tómatar, Jarðaber, súkkulaði og lime fara ekkert sérlega vel í þessa óléttu konu frekar en aðrar. Meðgangan sér því auðvitað fyrir því að þetta eru hlutir sem mig langar stöðugt í, í raun svo sannfærandi að ég fullorðin manneskjan ræð ekki við mig. Hver myndi lika neita óléttri konu um súkkulaði?

Hægðatregðan heldur sig í skefjum svona flesta daga en skv mínum útreikningum og fyrri reynslu er hun bara að undirbúa sig fyrir hinn fullkomna storm. Alger teppa eftir nýafstaðna fæðingu, það er markmið hennar. Fullkomið sambland að mati meðgöngunnar.

Fyrirvaraverkirnir byrjuðu á viku 3 þessa meðgönguna. Því líkamanum finnst auðvitað mikilvægt að undirbúa líkamann undir fæðingu höfðingans, ég er algjörlega sammála svosem en gæti hann ekki undirbúið sig á viku? Munið þið þegar ykkur var lofað “svo er svo yndislegt að þú ferð ekki á túr í 9 mánuði!” ? Ég man það líka… Það eru engar blæðingar en verkirnir eru verri og tíðari, þvílík svik!

Núna flæðir allt facebook og instagram í auglýsingum af skiptiborðum, bleyjum og rassakremum, því skyndilega eftir að hafa googlað eitthvað tvennt (okei kannski 873 hluti) þá hef ég einungis áhuga á börnum og bleyjuskiptum… Eða það heldur facebook allavega.

Hef reyndar ekki pissað í mig í dag, oft. Það er ágætt.

Bjúgur, brjóstsviði, tregða, rakstursleysi, grenjuköst og túrverkir – allt partur af prógramminu, eins og blóm. í. eggi…

Ofan á ofantalið er þessi 19 mánaða mjög lítið tillitsamur. Honum er nákvæmlega sama þótt hann kúki í sig verstu lykt norðan alpafjalla á milli æla hjá mér eða þurfi að láta taka sig upp og knúsa á meðan líkaminn minn er í fullri vinnu við að gliðna í sundur fyrir neðan nafla.

Nú, áður en allt verður vitlaust

 

Þarna í seinna skiptið sem ég tók mig til og gerði mig sæta á þessari meðgöngu

 

Í fyrsta lagi þá er algjör og 100% kaldhæðni bakvið fæðingaráhyggjurnar enda eðlilegur hárvöxtur ekki áhyggjur né vandamál þeirra sem taka á móti manneskjum út um göt sem vanallega eru ekki breiðari en fingurbjörg. Bara, alls ekki.

Í öðru lagi, ég geri mér grein fyrir því hversu fullkomlega heppin ég er og vegna þess að ég mér er það ljóst þá er ég 100% hamingjusöm. Brjóstsviði skiptir engu máli í stóru myndinni og ég get bara hætt að háma í mig appelsínur ef hann truflar mig. Fyrirvaraverkir eru einmitt það og þeir ganga yfir eins og allt þetta ferli sem ég er svo heppin að fá að upplifa, með hægðatregðu og öllu sem er innifalið. Þetta er best í heimi á sama tíma og þetta er vinna. Svo þarf ég ekki annað en að horfa frumburðinn á meðan hann reynir að skilja og knúsa stækkandi bumbu móður sinnar “úsa bumbu, úsa litla bróóóir” og hitt gleymist.

Það sagt þá er voðalega gott að eiga svona dagbók til að pústa aðeins þegar maður getur ekki lengur staðið óstuddur á fætur úr sófanum sínum. Ekki endilega afþvi maður getur það ekki líkamlega heldur er maður bara eitthvað svo, óléttur.

Og eitt að lokum, ég ætla að gefa ráð aldrei þessu vant.

Áttu von á barni? Fyrsta barni? Átt ekki annað barn fyrir og getur lagt þig hvenær sem er? Með eðlilega þröngt magaop og ekki ennþá kynnst brjóstsviða?

N J Ó T T U!

Þið hin, hafið það gott!

Oddný Silja

Ég er svo á snapchat fyrir áhugasama : oddnysilja