Oddny Silja skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Oddný Silja – Nokkrar staðreyndir um listeríu

LISTERÍA

Stundum langar mig að blogga um skemmtilega hluti (yfirleitt) en í dag langar mig henda í örstutta fræðslu, kannski ekki skemmtilestur dagsins en þess virði fyrir óléttar konur að líta yfir.

Ég eins og margir hafa tekið eftir fréttum um bakteríuna Listeríu (listeria monocytogenes) og vægast sagt hræðilegum afleiðingum hennar. Við lesum fréttirnar með sorg í hjarta en jafnframt rak ég augun í það að þar eru að koma fram alls ófullnægjandi upplýsingar um bakteríuna sjálfa.

Ég ætla því að telja upp nokkrar staðreyndir og bið alla um að deila eins og vindurinn þar sem ég tel að vitneskjan um hana og afleiðingar hennar séu ekki á allra vitorði.

Listería er baktería sem finnst víða í náttúrunni ásamt fjölda dýrategunda. Hún smitast helst með matvælum. Þó hún sé nánast alltaf hættulaus fullfrísku ungu fólki þá getur hún verið lífshættuleg fóstrum, nýfæddum börnum, öldruðum og ónæmisskertu fólki.

Hún smitast með matvælum og þær upplýsingar sem mér hefur helst vantað eru í upptalningum á þeim matvælum sem bakterían finnst í. Algengast er að nefnd séu matvælin fiskur og ógerilsneyddar mjólkurvörur. Hins vegar má finna bakteríuna mun víðar og ég tel mikilvægt að það sé á vitorði sem flestra hvar hún hefur fundist (Landlæknir, 2017).

Listería hefur fundist í ógerilsneyddum ostum en einnig unnum kjötvörum svo sem kjötáleggi ofl.

Listería hefur fundist í eftirfarandi matvælum :

– Hráu kjöti, það á líka við um nautasteik sem er ekki nógu vel elduð.

– Unnum kjötvörum, kjötáleggi. Hráskinka til dæmis en einnig í elduðu kjúklingaáleggi sem hefur þá krossmengast eftir matvinnslu

– Grænmeti til dæmis káli í poka

– Ávöxtum til dæmis frosnum ávöxtum í pokum

– Ógerilsneyddum mjólkurvörum t.d. innfluttum ostum (camenbert, mygluostar ofl.) en þess má geta að flestir íslenskir ostar eru gerilsneyddir. (Mast)

 

Listería hefur valdið hópsýkingum í Bandaríkjunum sem staðfest voru í eftirfarandi matvælum : Rjómaost (eins og áður sagði, ólíklegt að slíkt finnist hér þar sem ÍSLENSKIR ostar eru gerilsneyddir), frosnu grænmeti, pökkuðu salati (eitthvað sem gæti leynst í íslenskum verslunum enda oft um innflutt grænmeti að ræða) ís, tilbúnum karamellu eplum (eitthvað sem ég hef stundum rekist á á bandarískum dögum í Hagkaup t.d.) og hunangsmelónum, þessi tilfelli komu upp á árunum 2011-2017. (CDC, 2017)

 

Almennar ráðleggingar

-Sjóða/hita fisk og kjöt vel (kjarni >70°C)

-Skola hrátt grænmeti fyrir neyslu

-Halda soðnum matvælum frá hráum matvælum til að hindra krossmengun. Þvoið alltaf skurðarbretti og önnur áhöld þegar skipt er úr einni gerð hráefnis yfir í aðra.

-Forðast ógerilsneydda mjólk.

-Einstaklingar úr áhættuhóp ættu að varast að borða hráan fisk, ósoðin og/eða lítið hitaðan mat.

(Mast)

 

Nú að almennum heilráðum frá mér.

Ekki örvænta ef þú ert ófrísk, þetta þýðir ekki að þú getir ekki neytt margra þessara matvæla heldur einungis að kynna þér hvernig þú getur minnkað líkur á sýkingu. *Til dæmis, lærðu að gerilsneyða egg, það er tekur 3 mínútur og þá geturðu notið smáköku deigsins og bernaise sósunnar um jólin eins og allir hinir. Skolaðu vel grænmetið þitt og sjóddu frosnu berin í einu holli og frystu aftur. Fáðu þér íslenskan camenbert og geymdu ekki melónuna þína frammi á eldhúsborði eftir að þú skerð í hana heldur kæli. (Gerilsneyða egg : Setja egg í 60 gráðu heitt vatn í 3 mínútur á að vera nóg til að drepa þær bakteríur sem finnast utan á eggjum, þá helst salmonellu sem getur sýkt menn) 

Annað sem ég vil nefna, ég hef of oft heyrt frá fólki (sérstaklega konum) og jafnvel frá ófrískum konum segja öðrum ófrískum konum að slaka á, þær hafi nú borðað allt á sínum meðgöngum og allt í lagi með þeirra börn. „Hvaaa fáðu þér smá sushi, það skaðar nú engan!“ Nema kannski litla ófædda barnið þitt ef þessi munnbiti sem þú fékkst þér var sýktur af bakteríunni!

ATH – Það skiptir ekki máli hvort við fáum okkur einn munnbita eða baðkar af hráum fisk eða öðrum sýktum matvælum, það er jafn hættulegt barninu þínu.

Svo er mikilvægt að vita að þessi listi hér er ekki tæmandi, líklega er ekki til alveg tæmandi listi þar sem krossmengun getur átt sér stað, þ.e. bakterían getur mengast utan á aðra hluti en upphaflega voru sýktir og þannig borist í mannfólk. Mikilvægast er að kynna sér þetta sjálfur og fara eins varlega og hægt er með réttum handtökum í eldhúsinu og að sneiða fram hjá því þar sem algengast er að bakterían finnist.

Muna svo að 9 mánuðir er dropi í hafi af lífi barnsins þíns, þú getur lagt þínar langanir á hilluna þennan stutta tíma. Þú (vonandi) myndir ekki reykja og ekki drekka áfengi, þetta er af sama meiði, við erum tilbúin að gera flest ef ekki allt fyrir heilsu barnanna okkar.

Dustum nú rykið af gömlu góðu heimilisfræðinni, vöndum okkur við matreiðslu matvæla og eigum örugga meðgöngu.

*Leiðrétting : Listería hefur ekki sýkt menn í gegnum egg en þó ber að varast eggin vegna salmonellu sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir ófrískar konur og því um að gera að neyta gerilsneyddra eggja á meðgöngu.

** HÉR má finna góðar upplýsingar um mataræði á meðgöngu og nánari upplýsingar um listeríu og salmonellu frá matvælastofnun ríkisins í Ástralíu fyrir áhugasama.

 

Heimildaskrá

Centers for Disease Control and Prevention (2017). Listeria Outbreaks. Sótt af https://www.cdc.gov/listeria/outbreaks/index.html

Landlæknir (maí, 2017). Listería. Sótt af https://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item13085/Listeria

Mast. Listeria monocytogenes. Sótt af http://www.mast.is/matvaeli/matarsykingar/listeriamonocytogenes/

Ég er svo á snapchat fyrir áhugasama : oddnysilja