Oddny Silja skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Oddný Silja – Ólétt í 18 vikur….. en tilfinningin er meira eins og 18 mánuðir

Getum við aðeins rætt þetta “blóm í eggi” dæmi

Auðvitað er þetta allt saman kraftaverk veraldar og undur lífs mín en getum við aðeins rætt þetta “blóm í eggi” dæmi? Já það er ekki þannig fyrir alla. Þetta er nefnilega eins og svo margt með okkur mannfólkið að meðgöngur eru mismunandi eins og þær eru margar. Sumar konur finna ekkert nema gleði og ljóma eins og glimmerdolla í 9 mánuði, til hamingju með það (nei þetta verður víst aldrei alveg einlægt, “ég vissi ekki að ég var ólétt fyrr en ég var gengin 20 vikur hahaha” – Já, HA HA HA…).

Sumar hins vegar…. Sumar fá einhver einkenni, aðrar virðast fá þær öll. Ég er líklega þar í miðjunni, en fyrstu 3 mánuðirnir hafa báðar meðgöngur verið innilega óbærilegar og ömurlegar. Fyrsta meðgangan þó bærilegri þar sem það var nú fyrsta meðgangan, lífbeinið vissi ekki hvað var í vændum þarna þegar það yrði slitið í tvennt við komu 20 merku höfðingjans, þá vissi líkaminn líka ekki ennþá hvað brjóstsviði var því maga opið var ennþá svo dásamlega vel haldið og kunni að loka sér almennilega, og svo skulum við ekki vanmeta hvað það gerir fyrir ólétta konu að geta lagt sig allar frístundir.

            Eina viðeigandi ælufatan á mínu heimili

Það er ekki hægt með 16 mánaða barn, trúið mér. 16 mánaða barni er nákvæmlega sama hvort þú þurfir að æla eða ekki og stingur frekar hendi undir bununa heldur en t.d að rétta manni Omaggio vasa sem er auðvitað eina viðeigandi ælufatan fyrir vandláta.

Jæja Meðganga 2. Og já maður gerir þetta aftur, maður virðist fá tímabundið minnisleysi eftir að maður fær barnið sitt í fangið sem þurrkar út allar minningar um slæm einkenni. Ég man meir að segja áður en ég varð ólétt aftur núna eftir að hafa lýst því hvað ég var heppin því ég upplifði svo FRÁBÆRA meðgöngu. Sem hún reyndar var eftir að ógleðin hætti en meina það er þá hálf meðgangan, ekki öll.

Fyrir litlar ælur

 

Allavega, líkaminn var ekki lengi að rifja upp gömlu góðu ógleðina og ekki bara það heldur komu öll einkenni sem ég rétt snerti á síðast á viku 41 beint í æð á viku 2 nuna, JESS! Heví næs brjóstsviði, upprifjun lífbeinsins á síðustu fæðingu við hverja ranga hreyfingu, ennþá meiri ælur, hægðatregða… JÁ, ég sagði það, elskulega hægðatregðan mætt í öllu sínu veldi, fjórfalt JESS! Og svo mà ekki tala um þessa hluti en ég er búin þennan hérna pakka “æj eg er svo slöpp í maganum ég verð bara heima í kvöld”, nei, ég er bara stífluð og kemst ekki neitt, mig langar ekki í matarboð þegar ég hef ekki farið á klósettið í 5 daga takk! Hvað væri bara miklu auðveldara, betra og skemmtilegra að geta sagt “Já nei ég kemst ekki þar sem eg er með ca 7kg af hægðum svamlandi um í iðrum mér, og þegar ég segi svamlandi meina ég pikkfastar og komast hvorki lönd né strönd” (of grafískt? Sorry, ég er alveg að verða hjúkrunarfræðingur og orðin ónæm hvers kyns kúka lýsingum ). Svo er það líka bara rosalega fyndið, hver hefur ekki gaman af smá kúka húmor? Allt verður betra ef maður getur gert grín og hlegið, þannig lifir maður þetta af.

Það sagt! Ég vona að engin kona sem er að reyna að verða ólétt núna eða kona sem ætlar ekki að eignast börn strax eða jafnvel kona sem er að reyna en tekst ekki til enn sem komið er lesi þetta og taki þetta of bókstaflega sem aðal kvörtun lífs míns eða sem vanvirðingu vegna þess að ég er (og allt grín frá núna) einlæglega þakklát fyrir það að ég á eitt heilbrigt barn og annað á leiðinni, ekki sjálfgefið það er ljóst.

Það má heldur ekki lesa yfir þetta og hugsa “já ég legg nú ekki í þessa skemmtiferð!”. Þú gætir algjörlega verið þessi sem uppgötvar barnið bara á leiðinni út! Í raun verður að líta á þessi orð sem eitt risastórt persónulegt púst óléttu konunnar sem veit samt að þetta gengur allt yfir og á einhverskonar lygilega skömmum tíma. Og þràtt fyrir öll þessi einkenni myndi ég gera þetta aftur 100x fyrir Benjamín, ég mun reyndar ekki gera þetta 100x fyrir öll ófæddu börnin mín enda bara óskynsamlegt að eignast 100 börn en þið ættuð að skilja hvað ég er að fara.

Og að ógleymdum hreyfingum í bumbunni sem eru 100% forréttindi að fá að upplifa, virkilega með því besta í heimi.

Að lokum.

Hér eru nokkrar ábendingar um það sem skal látið ósagt við konur sem eru með ógleði 24/7 í 3 mánuði.

1. “Æji, þetta klárast fljótt.” Það líður engum þannig með 3 mánaða ælupest og fyrir utan það að við vitum það, okkur langar bara að deyja á meðan við bíðum.

2. “Ertu búin að prófa að fara út að ganga?” Ferð þú mikið út að ganga með ælupest?

3. “Ertu búin að prófa…?” JÁ! ÉG ER BÚIN AÐ PRÓFA ALLT!

4. “Já ertu með svona morgunógleði?” Nei, ég er með sólarhringsógleði sem hættir aldrei, allan sólarhringinn, í margar margar vikur.

5. “Ertu þá að æla bara allan daginn?” Sko, ef þú ert að tala við mig þá hef ég litið upp úr klósettinu þá stundina, enn og aftur, ímyndaðu þér hvernig þú ert með ælupest?

6. “Já Okei ertu þannig, ég fann aldrei nein einkenni en fyndið” Já sko, ég get kannski rætt það eftir að ógleðin hættir en nei það er ekki fyndið og nei ég vil ekkiræða það nánar.

Það eru sennilega fleiri hlutir þar sem manni langar ekki að heyra orð fra neinum þegar manni er stanslaust óglatt en ég læt þetta nöldur nægja í bili, þangað til næsta og kannski nýja einkenni mætir! (Djók, ég lofa)

Ég er svo á snapchat fyrir áhugasama : oddnysilja