Oddny Silja skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Oddný Silja – Sorry hvað ég er mygluð!

Ohh….

OHHHHH!!!

(Lesist upphátt og mjög dramatískt)

Eruð þið ekki orðin spennt? “Afhverju OHH, afhverju er hún brjáluð núna?”. Hver elskar ekki að lesa færslur sem byrja á “OHH”? Ég meina…

Ég var að horfa á snapchat um daginn, þá meina ég story hjá hinum og þessum. Stelpurnar voru annaðhvort mjög fínar og uppstrílaðar eða þá ómálaðar og byrjuðu story svona “ Sorry hvað ég er ógeðsleg í dag, svona er ég bara þegar ég er mygluð á mánudagsmorgni” – Þið fattið, hófu mál á því að afsaka útlit sitt með einhverjum hætti. Og já, áður en þið ætlið að ná mér glóðvolgri þá viðurkenni ég það fyrst að ég hef algörlega verið þarna! “ Sorry ég er sjúklega mygluð…”

Hvað er að hérna? Getum við ekki lengur hitt fólk án þess að afsaka hvernig við fæddumst? Ég byrja daginn mjög sjaldan svona heima. “Æji Atli sorry hvað ég vaknaði ógeðslega ómáluð ,mygluð og andfúl, ekki horfa á hárið mitt það er ógreitt, fékk líka óvænt þessa bólu, æji ertu ekki bara með poka?”

Ég held að ég sé nokkuð sátt við mig en svo svo eru stanslausar áminningar sem banka uppá og minna mig á það að ég er alveg ágæt, bara ekki jafn góð og ég gæti verið. Samfélagið, fjölmiðlar, samfélagsmiðlar, annað fólk úti á götu, annað fólk sem ég þekki (oh já ég fór þangað, saaamfélagið. Lofa samt að restin er skemmtilegri (“lofa”)) vinnur svolítið á móti þessari sátt. Ég er í raun hvött til að breyta mér og bæta alla daga, ekki bara vera sátt. Og það er svo margt!

Ég er hvött til þess lita, slétta ef þú ert með krullur en krulla ef þú ert með slétt, raka, plokka, vaxa, klippa, geisla, breyta eða bæta hárvöxt út um víðan völl á kroppnum. Tek það fram að ég hef aldrei gripið Atla (eða samfélagið ef út í það er farið) með rakvélina á lofti hótandi að raka á mér ökklana í svefni, það er ég sem sé um allan raksturinn og breytingar víðast hvar. Ég er 100% sökudólgur raksturs á eigin líkama þrátt fyrir að vera reyna skoða aðeins víðara samhengi.

Ég er hvött til þess að líma á mig hár á stöðum þar sem þess er óskað af öðru fólki, gervi augnhár. Hafið þið prófað svoleiðis? Maður sér hálfa sjón það kvöld! Tek það aftur fram að hvorki systir mín né Atli hafa staðið yfir  mér með tonnatakið og latex augnhárin (eða þið vitið, úr hverju sem þau eru gerð) vegna þess þau geta ekki lengur horft framan í þessa stutt-augnhárahærðu konu sem ég er, nei enn og aftur þá er það ég sem sé um gervið, límið og latexið.

Ég er hvött til þess að breyta um húðlit, eðlilega. Hver myndi bara sætta sig við eigin húðlit? Ég meina, kommon, árið er 2017! Minn er t.d. skjannahvítur, ég verð eins og blað á veturnar, OJ! Ókei þá er tvennt í boði, krabbamein í boði sólbekkja bæjarins / sólarinnar sjálfrar eða þá að maka mig í einni sterkustu lykt sem fyrirfinnst “fake-tan brúnku lykt” sem skilur eftir sig klístur og appelsínugula hnúa sama hvað þú gerir og hver þú ert. Leiðilegt að segja ykkur það en það er bara enginn hanski frá hinum heilaga tropez að fara bjarga því og við verðum því öll með gula hnúa fram að næstu brúnkutæknibyltingu.

Ég er hvött til þess að mála mig alla daga og er stundum spurð hvort ég sé lasin ef ég fer út ómáluð í febrúar. Og talandi um húðlit, til hvers að vera brúnn ef þú hefur ekki óflekkaða húð? Það væri algjörlega galið að fara út á meðal fólks með bólu sem er sjáanleg á enninu. En ég verð líka að muna að contoura, ég get breytt öllu því sem amar að þann morguninn til dæmis grenna nefið, kinnar, höku, fengið meiri skerpu, nei vitið ég veit annars ekki alveg hvað þetta countour dæmi gerir en ég geri samt mitt allra besta við að fylgja öllum youtube myndböndum sem ég finn um efnið af hinum stúlkunum sem ekki sjá sér fært að vera sáttar við sjálfan sig öllum stundum.

Ég er hvött til að hafa ekki undirhökuna sem ég sannarlega fæddist með. Og guð minn góður hvað ég hef hatað mjúku kinnarnar og höku(r)na(r) góðu lengi. Ég hef alltaf verið í kjörþyngd (næstum því, fyrir utan þarna eina árið á Ítalíu…) en lært jafnt og þétt frá því ég var 8 ára að hata stóru bollu kinnarnar sem frænkur vilja ennþá klípa, klípa,klípa  (ég er 30 ára höfum það í huga) og mjúka hálsinum sem vindur upp á sig 7 fellingar þegar ég lít til hægri eða vinstri. Ég hef meir að segja farið til lýtalæknis og spurt hvernig væri hægt að laga þessa ógeðslegu undirhöku (Ég er ekki að grínast) Jæja ég lét nú ekki af því verða en þar var hausinn staðsettur. Við erum nefnilega allar hvattar til að hafa minni undirhöku, stærri brjóst, stærri eða minni rass, hærri augu, stærri varir, minna útstæð eyru. Við erum svo ómögulegar eins og við fæddumst að við það er í boði að lama vöðva, sprauta fylliefnum, strekkja húðina með skurðaðgerð ofl í þeim dúr. Ekki skrýtið að manni hafi langað að fylgja straumnum, þvílíkt úrval af “gerðumigbetri” aðgerðum! Og þvílíkur fjöldi sem kýs þá leið. Sem ég er ekki að dæma því ég hef sjálf hugsað þangað en ég dæmi það að pressan skuli vera þannig að við treystum okkur ekki til að klára lífið vegna einhvers sem við kemur útliti.

Ég er hvött til að gera ALLT sem í mínu valdi stendur til að vera ekki með slit á líkamanum.

*Þessi punktur eyðileggur mig hinsvegar afþví þeir sem hvetja til þess að fá ekki og vera ekki með slit eru oftar en ekki mæður, við aðrar mæður, systur, vinkonur, konur. Við erum að “ráðleggja” öðrum í kringum okkur hvaða krem gagnaðist þeim, hvaða aðferðir, gefa vinkonum okkar slit-krem í gjafir á meðgöngunni. Falleg hugsun ég veit það, yndisleg, en AF HVERJU (og núna kom caps lock því ég er með mikla munnræpu í puttunum og ég vil að þið takið eftir hér) erum við ekki frekar að hvetja hvor aðra við að sætta sig við og elska líkamann okkar. Nákvæmlega. EINS. OG. HANN. ER.

Ég man eftir að hafa fengið svo mörg tips, bera olíu á daglega, mér gefin allskonar krem og fleira í þessum dúr en færri sögðu einfaldlega : “Oddný, ef það koma slit þá skiptir það ekki máli því slit segja ekki til um heilbrigði né hamingju”.

Að lokum, ég er hvött til að (vá hvað þetta varð óvart svakalega dramatísk færsla!) til að horfa í spegilinn og vera óánægð með það sem ég sé, það eru allir að selja mér vörur eða hugmyndir sem fá mig til að trúa því, detox, húðhreinsun, skúr skrúbb og bón, krem, makeup, aðgerðir… Ég veit ekki sjálf hversu oft ég hef horft í spegilinn og hugsað “ ég er ógeðsleg í dag”. Ég er ÓGEÐSLEG, ha? Ég? Bíddu, síðast þegar ég tékkaði í kommon sensið mitt var bara ekkert að mér heldur þvert á móti er ég stórfalleg með galla og kosti að gera mitt besta við að vera heilbrigð og hamingjusöm.

Skiljið þið núna afhverju ég byrjaði á “OHHH” ? Þetta er þreytandi nefnilega. Og útlitið kemur til með að breytast það er eina sem er örugg þannig ég myndi veðja á að vera glaður fyrst og svo fallegur, eða þið skiljið.

Einbeitum okkur bara að því að vera glöð og kát og snarhættum að segja að við séum ógeðsleg og stanslaust að afsaka einhverja myglu, hvaða rugl er það eiginlega?

Lífið er stutt og allt það, þótt við getum ekki eytt slæmum áhrif samfélagsmiðla eða hegðun annarra á þeirri mínútu getum við klárlega haft áhrif á það sem við hugsum. Heilbrigði og hamingju er nefnilega ekki að finna í undirhökufitusogi (ó plís plís plís að ég verði loksins fræg fyrir að hafa viðurkennt þetta fyrir þeim sem náðu að lesa það langt!), youtube vídjóum og slitlausum líkama heldur inni í hausnum.

Í næstu færslu verður svo næsta sjálfshjálparbók “hvernig á að vera hamingjusamur þótt maður eigi ekki pening fyrir undirhökufitusogi” og “hvernig á að vera hamingjusamur stjórnandi á facebookgrúppu”.

Djók, næst hendi ég inn einni örstuttri uppskrift ókei? Ókei.

Ég er svo á snapchat fyrir áhugasama : oddnysilja