Íris Tara skrifar Flokkað undir Matur & Vín.

Olga Helena deilir með okkur uppskrift af hollu og góðu bananabrauði

Hollt bananabrauð sem að allir fíla!

Ég komst yfir þessa uppskrift fyrir nokkrum árum og frá því að ég bakaði þetta brauð fyrst hefur það verið í miklu uppáhaldi enda bráðhollt og fáránlega gott. Þetta brauð er skothelt, passar einhvern veginn við öll tilefni. Stundum kemur það fyrir að ég baka nokkur brauð í einu, sker þau niður, frysti og tek svo 2-3 sneiðar með í skólann/vinnu. Ég mæli með þessu brauði sem millimál á matarplaninu fyrir mína kúnna.

Brauðið er sykur-, ger- og hveitilaust. Það er algengt að ef fólk heyrir að eitthvað matarkyns sé sykurlaust þá ákveður það fyrirfram að það sé ekki gott. Í þessu tilfelli þá þarf bara engan sykur, bananarnir gefa svo sætt og gott bragð og stevían gerir gæfu muninn. Ég hef allavega ekki enn hitt manneskju sem að finnst þetta brauð ekki gott. Mæli með að prófa að baka þetta góða bananabrauð!

Bananabrauð

6 dl Haframjöl
(ég nota tröllahafra)

4 dl Eggjahvítur

2 Heil egg

1 Matskeið kanill

1-2 tappar vanilludropar

1-2 matskeiðar stevía

1 Teskeið lyftiduft

3-4 Þroskaðir banana

Einnig er gaman að breyta til og láta t.d. gróft kókosmjöl, sólkjarnafræ eða graskersfræ í uppskriftina.

Stillum ofninn í 180°C, helst með blæstri. Hrærum öllum hráefnunum vel saman, banana stappaðir niður og bætt við i lokin. Spreyja Pam í bökunarform og bökum í miðjum ofni í kringum 40-50 mínútur.

Stevia fæst í Hagkaup, Bónus, Krónunni og fleiri stöðum. Prófa sig áfram með hana, rosa bragðmikil og við þurfum ekki mikið.

Þá er það bara að henda í eitt brauð, smyrja á það smá smjöri og osti meðan það er enþá heitt og njóta án samviskubits.

Kveðja,
Olga Helena