Ritstjórn KRÓM skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Skemmtilegar gönguleiðir á Höfuðborgarsvæðinu

Það getur verið gaman að hóa saman vinum og fjölskyldu í skemmtilega göngu, sérstaklega ef tekið er með nesti og góður tími tekin í að spjalla saman  og skoða umhverfið.

 

Á skáldaslóð

Mjög auðveld og þægileg gönguleið enda öll á malbikuðum stíg. Gengið er frá skátaheimili í Mosfellsbæ sem er rétt suðaustan við íþróttahúsið. Farið undir Vesturlandsveg og eftir stíg til norðurs. Gengið meðfram Helgafelli og inn Mosfellsdal að Gljúfrasteini. Þar má taka strætó til baka eins og við gerum eða ganga sömu leið til baka.

Nánari lýsing:
Einhvers staðar var þessi gönguleið nefnd Á skáldaslóð og er sá titill fenginn að láni hér. Þetta er fín kvöldganga, nú eða ef fólk vill skokka,hjóla eða ganga rösklega sér til heilsubótar. Við ökum inn í Mosfellsbæ við N1 og beygjum strax niður brekkuna til hægri og ökum alveg niður. Þar má leggja við skátaheimilið nú eða við íþróttamiðstöðin þar sem fá má göngukort.

Fljótlega eftir að við komum inn á Þingvallaveg sjáum við leifar af mannvirkjum í hlíðinni upp að Helgafelli. Þetta eru mannvirki frá síðari heimsstyrjöldinni, vatnstankar. Þeir voru notaðir til að dæla vatni í sjúkrahús sem þarna var og hét Helgafell hospital.

Í Mosfellsdal er töluverð og fjölbreytt byggð. Þar eru skógræktarstöðvar, geymslur Almannavarna, íbúðarhús, meðferðarheimili, kirkja og auðvitað Gljúfrasteinn, heimili nóbelsskáldsins, Halldórs Laxness.

 

 

Hvaleyrarvatn

Eitt fallegasta vatnið í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eða réttara sagt eitt fallegasta umhverfið. Við leggjum bílnum við fyrsta bílastæðið þegar við komum frá Kaldárselsvegi en þar fyrir framan er Sandvík. Göngum svo umhverfis vatnið á ágætis stíg og endum aftur á bílastæði. Þeir sem vilja lengja hringinn eða taka annan lítinn með geta gengið hring í Höfðaskógi sem er austan við vatnið.

 

Ástjörn – Ásfjall

Eitt besta útsýnisfjall höfuðborgarsvæðisins – mögulega líka það eina. Af Ásfjallli sést afskaplega vel yfir byggðir og ekki síður fjallahringinn umhverfis. Við leggjum bílnum við Ásvallalaug eða íþróttasvæði Hauka. Þaðan göngum við meðfram veginum með Ástjörn á hægri hönd. Leiðin liggur svo á stíg upp á við meðfram byggðinni. Við förum svo út af malbikuðum stíg og stígurinn sjálfur upp á fjallið er nokkuð augljós og þægilegur.

Nánari lýsing:
Ástjörnin er friðland en þar verpir meðal annars flórgoði. Ekki eru þau mörg pörin þar en takist manni að sjá flórgoðann er það skemmtileg sjón. Hægt er að lengja leiðina um tæpa 3 km. með því að ganga hringinn í kring um tjörnina. Við höldum hinsvegar áfram upp hlíðina með Ásfjall á aðra hönd og byggðina á hina. Þegar við komum efst í brekkkuna snörum við okkur út í hlíðina og komum fljótlega á gamlan stíg eða vegslóða. Honum fylgjum við upp á fjallið.

Á toppi fjallsins er hringsjá sem nauðsynlegt er að stúdera. Þar er einnig stór hlaðin ferhyrnd varða, Ásfjallsvarða. Hún var upphaflega hlaðin af sjómönnum sem kennileiti en síðar endurhlaðin sem virki af breskum hermönnum í seinni heimsstyrjöldinni.

 

Ofan Rauðavatns

Gönguleið sem kemur skemmtilega á óvart, enn ein perlan í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Við byrjum á því að aka að Morgunblaðshöllinni í Hádegismóum og niður slóða þar að Rauðavatni, ökum örstutt meðfram vatninu og svo slóða upp brekku framhjá sumarhúsi. Þar finnum við bílastæði og skiljum bílinn eftir. Við eltum svo góðan göngustíg sem liggur upp brekkuna og tökum hægri beygju þegar hann skiptist eftir um 100 metra. Gangan liggur svo eftir hryggjum ofan Rauðavatns í hálfsveig að Suðurlandsvegi, niður að vatninu, meðfram því og tilbaka á bílastæðið.

Nánari lýsing:
Hér við Rauðavatn voru tekin fyrstu skrefin í skógrækt fyrir um hundrað árum síðan. Var það Skógræktarfélag Reykjavíkur sem gerði það og var svæðið lengi í umsjón þess félags.

Rauðavatn er ekki stórt vatn, aðeins 0,32 km2 og víðast aðeins um einn metri á dýpt og um einn og hálfur metri þar sem það er dýpst. Hvergi rennur úr Rauðavatni og vatnasvið þess er afar lítið. Það er því að mestu leyti háð sveiflum í veðurfari hvað varðar stærð og vöxt.


Flokkar:
 Styttri ferðir (1-4 klst)Fjölskyldan

 

Umhverfis Elliðavatn

Ágætlega drjúg ganga en alls ekki erfið. Kemur nokkuð vel á óvart enda gaman að upplifa breytingar og fjölbreytni umhverfis Elliðavatns. Við hefjum gönguna við Elliðavatn, bæinn. Bílinn skiljum við eftir á bílastæðinu og göngum beint niður að vatninu. Við eltum þar góðan göngustíg og má segja að hann leiði okkur hálfan hringinn. Þegar við komum að Þingahverfinu í Kópavogi eltum við til skiptis stíga og götur að Elliðastíflu. Þar förum við í hálfgert U og förum svo stíg í útjaðri Norðlingaholts. Sá stígur leiðir okkur að veginum rétt fyrir ofan Rauðhóla og er þá skammur spölur aftur að bílnum. Góður hringur að baki.

Nánari lýsing:
Við hefjum gönguna hjá Elliðabænum sem nú hýsir starfsemi Skógræktarfélagsins hér í Heiðmörk. Áður var Elliðabærinn í alfaraleið. Þjóðleiðin til Reykjavíkur lá suður fyrir Elliðavatn svo ferðalangar þyrftu ekki að ríða Elliðaárnar. Var því oft gestkvæmt á bænum. Einar Benediktsson skáld fæddist á Elliðabænum árið 1864. Sagan segir að hann hafi oft riðið suður fyrir vatnið á leið sinni til Reykjavíkur og vegna þess hví myrkfælinn hann var hafi hann því stundum fengið sér aðeins of mikið neðan í því á leiðinni.

Við eltum stíginn sem liggur meðfram vatninu. Yfir vatnið má sjá hvað byggðin hefur vaxið vestan þess. Fuglalíf er umtalsvert við vatnið og víða við stíginn má finna fræðsluskilti Skógræktarfélagsins um fuglalíf og gróður. Eftir stutta göngu komum við einum merkasta stað okkar Íslendinga, Þingnesi.

Áfram er gengið, fyrir Vatnsvík og fljótlega sjáum við vel Þingahverfið. Best er að ganga Elliðahvammsveginn yfir í Granda- og Fornahvarf. Þá blasir við okkur Elliðavatnsstíflan. Meðalrennsli Elliðaá er um 5,5 teningsmetrar á sekúndu en oft fer það niður í um fimmtung af því. Stíflan var reist árið 1926 og við það fóru svokölluð Elliðavatnsengi á kaf. Við það breyttist og minnkaði fuglalíf á svæðinu.

Við göngum áfram, förum í hálfgert U yfir brú og yfir í Norðlingaholt. Þaðan liggur stígur að Heiðmerkuvegi og þaðan er örstutt að upphafsstað okkar.


Flokkar:
 Styttri ferðir (1-4 klst)Fjölskyldan

HÉR má sjá fleiri gönguleiðir

Kveðja

KRÓM
Munið eftir að líka við okkur á facebook HÉR