Stefania skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Stefanía – Að lifa í núinu, afhverju skiptir það máli?

Að lifa í núinu

Það er sífellt meiri vakning í gangi hvað varðar núvitund. Ég verð hins vegar að viðurkenna það að ég hef aldrei skilið hvað það í rauninni er. Ég hef prófað núvitundar-hugleiðslu og lært um hugræna atferlismeðferð en ég hef alltaf verið jafn týnd hvað þetta varðar (þótt ég hafi ekki alltaf viðurkennt það).

Því hefur það komið mér sérstaklega á óvart undanfarið að ég virðist vera að fatta þetta, amk á þann hátt sem að hentar mér. Ég á nefnilega við það vandamál sem að ég er viss um að einkennir mjög marga, að ofhugsa gjörsamlega allar aðstæður. Hausinn á mér er fær um að rýna í hvert einasta orð, hreyfingu eða svipbrigði einhvers og koma með trilljón mismunandi túlkanir. Að taka lítið vandamál og gera það að því stærsta sem hefur nokkurn tímann komið fyrir.

Maður að nafni Matt Killlingsworth bjó til app fyrir snjallsíma, sem á sama tíma var sennilega stærsta rannsókn á líðan manna í tengslum við núvitund. Með gífurlega stórt úrtak um allan heim sendi hann reglulegar spurningar um líðan einstaklingsins á því augnabliki. Ef þið viljið vita meira um þetta er hægt að kíkja á: https://www.trackyourhappiness.org/

Það sem hann komst að var að fólk sem var annars hugar, lét hugann reika, var iðuelga ekki jafn ánægt og það fólk sem var að einbeita sér að því sem var í gangi í núinu. Það sem kom honum sérstaklega á óvart var að það sama gilti án tillits til þess hvað fólk var að gera, hvort þau væru að njóta sín eða vinna að leiðinlegu verkefni. Sama hvort það var að láta hugann reika til betri tíma eða einhvers sem það kveið fyrir.

Fólkið sem var í núinu var ánægðara.

En hvernig getum við haldið okkur í núinu? Núna er ég langt frá því að vera sérfræðingur á þessu sviði en ég get hinsvegar sagt ykkur hvað virkar fyrir mig!

Það sem ég gæti mest að er að vera meðvituð um það þegar ég er að ofhugsa/oftúlka aðstæður og skilja að ég hef kraftinn til þess að stoppa þessar hugsanir. Ég kýs að einbeita mér að fótunum mínum, þegar ég fatta að ég er komin einhvert lengst í ímyndaða framtíð þá beini ég athyglinni að fótunum, finn að ég stend á jörðinni og er hérna, núna.

Þetta þarf ég stundum að gera 80 sinnum á dag, en mér finnst þetta snilld. Með því að stöðva þetta sífellda hugarferðalag er ég langt um skilvirkari og á betri samskipti við fólkið í kring um mig (ég raunverulega hlusta).

Stefanía