Stefania skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Stefanía – Afhverju það er mikilvægt að læra nýja hluti!!

Ég er ekki gömul manneskja. Þrátt fyrir sjokkið sem að ég upplifi við þá tilhugsun að krakkar sem fæddir eru árið 1997 eru núna staðsettir í sama háskóla og ég, þá veit ég að ég á langt líf fullt af möguleikum framundan og að það eru forréttindi að fá að eldast. Hins vegar hef ég tekið eftir því að því eldra sem fólk verður því minna leggur það sig fram við að læra nýja hluti. Við sem manneskjur eigum það til að festast í sama forminu.

Tökum sem dæmi vinnuna. Flestir koma sér fyrir í vinnu og leitast við að standa sig sem best. Eftir ákveðinn tíma þá kunnum við á allt og erum hæfir og flottir starfsmenn. En á þessum tímapunkti hættum við líka að læra.

Ég er ein af þessum manneskjum sem að hefur óbilandi þörf til þess að vera sífellt að stússast í einhverju. Ég fæ reglulega hugmyndir um að mála húsgögnin mín eða breyta fötunum mínum, sem hefur oftar en ekki hörmulegar afleiðingar.

En ég hef komist að því að það er hægt að nýta þennan óróleika til góðs. Í dag er endalaust streymi upplýsinga í gegn um internetið og hefur YouTube orðið besti vinur minn. Fólk frá öllum heimshornum hefur nefnilega sest fyrir framan myndavél og sýnt hvað það kann, og hefur kennt mér ótrúlegustu hluti. Það hefur kennt mér að hekla og mála og elda. Hvernig ég get nýtt mér efni og áhöld sem að eru til á heimilinu til þess að breyta til án þess að eyðileggja nein húsgögn!

Og þrátt fyrir að ég geri þetta fyrst og fremst mér til skemmtunnar þá hefur þetta líka haft dásamlegar afleiðingar. Ég lærði að tala táknmál með endalausum æfingum – ég vissi ekki að það væri raunverulega hægt að fá harðsperrur í fingurnar – sem ég bjóst ekki við að nýta. En síðan kom heyrnarlaus maður í vinnuna til mín og ánægja hans yfir því að geta spjallað við mig var mér ómetanleg.

Við erum aldrei of gömul til þess að læra og internetið býður upp á fría kennslu. Hvort sem þig langar til þess að geta tekið upp gítar í næstu veislu, prjónað föt á barnið þitt eða spjarað þig á tungumáli innfæddra í næsta fríi. Þér eru allir möguleikar opnir og ég hvet þig eindregið  til þess að nýta þá!

 

www.youtube.com – Byrjaðu í dag

 

Stefanía