Stefania skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Stefanía – Bækur til að lesa um jólin

Ég elska bækur og hef alltaf gert. Frá því að ég lærði að lesa hef ég heillast af því að geta lært, uppgötvað, upplifað tilfinningar og aðstæður sem eru mér ókunnar í gegn um blaðsíðurnar. Ég er stelpan sem eyddi tímunum saman í horni inni á bókasafni Mosfellsbæjar með nefið ofan í bók, þar til starfsmennirnir létu mig vita að mamma hefði hringt og ég ætti að fara heim því það væri kominn matur.

Það eru of fáir í dag sem taka sér tíma til þess að lesa, en er þá ekki jólafríið hið fullkomna tækifæri til þess? Það er eitthvað svo ótrúlega kósý við það að liggja uppi í sófa, undir teppi með konfekt og hverfa inn í ímyndunarheim, burt frá stressinu sem fylgir jólunum. Til að koma ykkur af stað, ef ykkur vantar tillögur að lesefni þá tók ég saman nokkrar af mínum uppáhalds bókum sem ég mæli eindregið með.

 

The Godfather/Guðfaðirinn eftir Mario Puzo.
Já ég veit, þið eruð pottþétt búin að sjá myndina en gefið bókinni séns, hún er mun betri.

 

Misery/Eymd eftir Stephen King.
King er uppáhalds rithöfundurinn minn og hefur skrifað óheyrilega margar stórkostlegar bækur (t.d. The Shawshank Redemption, The Green Mile, It, The Shining), en Misery er ein af mínum uppáhalds, þú þorir varla að anda úr spennu!

 

Le Petit Prince/The Little Prince/Litli prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupéry.
Þessi bók er svo miklu meira en barnabók og tilvalin ef þig langar að lesa eitthvað fallegt og hjartahlýjandi.

 

Pride and Prejudice/Hroki og hleypidómar eftir Jane Austen.
Ég er ekki það mikið fyrir rómantískar sögur en þetta er ein besta bók sem hefur verið skrifuð og ætti eiginlega að vera skylda fyrir alla að lesa.

 

Picture of Dorian Gray/Myndin af Dorian Gray eftir Oscar Wilde.
Wilde er einn stórkostlegasti höfundur sem uppi hefur verið (að mínu mati) og þessi bók nær að vera bæði lærdómsrík, heimspekileg, spennandi og ótrúlega fyndin á sama tíma.

 

Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness.
Ég veit að það telst nær guðlasti að segja það sem Íslendingur en ég er ekki hrifin af Laxness. Mér finnst flestar bækurnar hans drepleiðinlegar en Sjálfstætt fólk er æðisleg og Bjartur í Sumarhúsum er einn skemmtilegasti karakter sem íslenskar bókmenntir hafa gefið af sér.

 

Hundraåringen som klev ut genom fönstret och försvann/Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir Jonas Jonasson.
Þessi bók er svo fyndin. Skrifuð í nokkurs konar Forrest Gump (líka frábær bók) stíl og er bæði falleg og, ég endurtek, svo fyndin.

 

Og fyrir þá sem vilja alvöru lestur um jólin, þá er nóg af bókaseríum úr að velja. Mínar uppáhalds eru The Dark Tower serían eftir Stephen King, Song of Ice and Fire, betur þekkt sem Game of Thrones serían, eftir George R.. R Martin og Lord of the Rings/Hringadróttinssaga eftir J. R. R. Tolkien.

Auðvitað er þetta bara brotabrot af góðum bókum en vonandi er þetta hvatning til þess að gera jólafríið enn betra með smá bókalestri.

Gleðileg bókajól!

Stefanía