Stefania skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Stefanía – Endurskyn. Þegar það var keyrt á mig og það var mér að kenna

Endurskinsmerki!!

 

Ekki voða sexý umræðuefni. En ég vil segja ykkur sögu um það hvers vegna þetta skiptir mig máli.

Fyrir nokkrum árum, um vetrarkvöld, var ég að ganga yfir götu þegar bíll birtist og keyrði mig niður. Þetta var ekki alvarlegt enda var bílinn að beyja inn á aðalgötu og var á mjög litlum hraða og ég slapp með skrámu. Bíllinn snarstoppar og er hreyfingarlaus í kannski mínútu. Ég stend upp og til að dusta af mér og geri mér þá grein fyrir því hvernig ég er klædd. Ég er í svartri úlpu, svörtum buxum, með svarta húfu og heyrnatól í eyrum.

Í miðri uppgötvun minni opnast hurðin á bílnum og bílstjórinn stígur út. Ég horfi á þennan strák, sem leit út fyrir að hafa fengið bílpróf fyrir korteri, og skelfingarsvipinn í augum hans. Ég byrja að útskýra að það sé allt í lagi með mig og þetta hafi ekki verið honum að kenna þegar hann tekur utan um mig og knúsar mig og biðst afsökunnar í sífelldu. Ég sannfæri hann um að þetta sé allt í góðu og hann fer aftur í bílinn með tár í augum.

Hjartað mitt brotnaði þegar þessi strákur hélt utan um mig. Vegna þess að þetta var ekki honum að kenna. Það var kolniðamyrkur og það var engin leið til þess að koma auga á mig!

Núna er kominn vetur á ný og Ísland er aftur búið að sveipa sig sinni svörtu hulu. Á morgnanna sést glitta í endurskinsmerki lítilla barna á leið í skólann sem virðast vera ein á ferð, þar til betur er litið og með þeim er foreldri sem er ósýnilegt í myrkrinu.

Ég hefði getað eyðilagt líf tveggja manneskja þetta kvöld, míns og stráksins undir stýri, vegna heimsku. Vegna þess að ábyrgðin liggur ekki bara hjá bílstjórum, heldur hjá gangandi og hjólandi vegfarendum líka.

Ekki vera jafn vitlaus og ég var. Sýnum ábyrgð og verum fyrirmyndir.

Stefanía