Stefania skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Stefanía – Götufólk Íslands. Ekki dæma það sem þú þekkir ekki

Í vinnunni minni hitti ég mikið magn ferðamanna sem finnst Ísland merkilegt og spennandi land. Ég fæ margar spurningar um hitt og þetta sem er ólíkt með Íslandi og öðrum löndum, ég held að algengasta sé hvort það megi í alvörunni vera með bjór á almannafæri. En það er önnur spurning sem hefur komið upp oftar en einu sinni og það er hvort að það sé fólk sem búi á götunni á Íslandi.

Ísland er fámennt land miðað við flest önnur og þó svo það sé ekki jafn áberandi og í stórborgum þá er vissulega fólk á Íslandi sem að á ekki í nein hús að sækja. Það er fólkið sem við lítum hornauga þegar þau ráfa um göturnar eða liggur meðvitundarlaust á bekk á Austurvelli. Það er maðurinn í kraftgallanum sem talar við sjálfan sig. Maðurinn sem við segjum börnunum okkar að sé lasinn. Sem við segjum sjálfum okkur að hann geti sjálfum sér um kennt. Fyllibytta, geðsjúklingur eða aumingi.
Þetta er fólkið á jaðri samfélagsins. Fólkið sem við umberum en komum ekki nálægt. En hver er munurinn á þessu fólki og okkur?

Við fæðumst ekki öll jöfn.

Nú tala ég sem alkóhólisti og manneskja sem sem hefur þjáðst af þunglyndi í mörg ár. Hvar væri ég ef að ég ætti ekki fjölskyldu mína og vini? Fólkið í kring um mig hefur alltaf staðið með mér, hefur elskað mig og hvatt mig áfram. Það hefur sýnt mér hversu fallegt lífið er og hve mikið ég hef upp á að bjóða.
En ef ég ætti engan að? Hvað ef ég hefði fæðst í líf ofbeldis og misnotkunnar? Hvað ef að ég hefði engan til þess að leita til, engan til þess að hjálpa mér?
Ég trúi því staðfastlega að sjálfsábyrgð sé grundvöllur alls bata. Það er á mína ábyrgð að drekka ekki, en til þess að axla þessa ábyrgð þarf einstaklingur að vera í lágmarksjafnvægi. Leiðin þangað getur verið löng og brött.
Ísland býr að mörgum frábærum samtökum sem að leitast við að leggja fólki lið sem hefur orðið undir í lífinu og það er ótrúlega mikið af fallegum sálum sem að hjálpa fólki án þess að ætlast nokkurs í staðinn. En það eru líka gífurlega miklur fordómar í samfélaginu gagnvart fólki sem þurfti ef til vill að ganga í gegn um þrautir sem við getum ekki ímyndað okkur.

Næst þegar þú gengur framhjá „ógæfufólki“ og brettir upp á nefið vil ég að þú spyrjir þig hvar þú værir hefðir þú fengið sömu spil á hendi?

Ekki dæma það sem þú þekkir ekki. Ekki koma illa fram við fólk því að það er í annari stöðu en þú. Við erum öll manneskjur sem erum hluti af því samfélagi sem litla Ísland er. Gerum það að góðu, virðingarverðu og hjálpsömu samfélagi.

 

Stefanía