Stefania skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Stefanía – Hættum að nota orðið „bara“

Frá því að maður er barn er manni kennt að vanda mál sitt og  gæta að því hvernig maður talar við annað fólk. Við sýnum kurteisi, þökkum fyrir okkur og höldum því fyrir okkur sjálf ef að nýja peysan sem vinkonan var að kaupa er hræðilega ljót.

Fyrir nokkru síðan heyrði ég heilræði sem mér finnst afskaplega gott. Það var að maður á aldrei að segja bara þegar kemur að peningum. Mér fannst þetta virkilega góð áminning, vegna þess að staða manna er svo afskaplega misjöfn og það sem einn telur mikið er dropi í hafið hjá öðrum.

En þetta lét mig hugsa betur út í þetta orð: „bara“, og hvernig ég sjálf og aðrir notum það í daglegu lífi.

„Ég er bara að vinna á þessum stað“, „Ég er bara í skóla“, „Ég hef farið til útlanda en bara til Danmerkur.“, „Ég er uppgefin en samt á ég bara eitt barn.“

Afhverju erum við að gera lítið úr lífi okkar? Það er frábært að hafa vinnu, sama hvar hún er, það eru forréttindi að geta ferðast, skóli er heljarinnar vinna og hvað þá barn! Meira að segja þegar ég reyndi að setja þetta orð í jákvæðara form líkt og „ég á bara eitt próf eftir“, þá er það samt ekki hvetjandi. Þetta seinasta próf getur verið það erfiðasta af öllum.

Þetta litla orð nær að gera lítið úr hlutum sem eru margir hverjir stórmerkilegir. Það skiptir svo miklu máli að geta verið stolt/ur af sjálfum sér og því sem maður er að gera í lífinu. Að finna til þakklætis fyrir það sem maður á. Gott sjálfstraust getur bætt lífsgæðin til muna, og með því að setja orðið bara inn í setningar sem koma að manni sjálfum eða því sem maður gerir þá heggur það á sjálfsmyndina.

Ég held það sé góður ávani að reyna að hætta að nota orðið „bara“, eða í það minnsta að vera meðvitaður um það í hvaða aðstæðum það birtist.

 

Stefanía