Stefania skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Stefanía – Hlutir sem ég ætla að hætta að gera áður en ég dey

„Hlutir sem þú verður að gera áður en þú deyrð“

Það er til endalaus af bókum, greinum og bíómyndum sem fjalla um þetta málefni. Að skrifa „Bucket“ lista og gæta þess að uppfylla allskyns markmið áður en maðurinn með ljáinn bankar á dyr. Ég er sjálf með endalaust af þessum listum. Þeir breytast reglulega, ég tel það ekki lengur líklegt að ég muni ganga í hjónaband með Ryan Giggs eða komast að því hvað raunverulega varð um rússnesku prinsessuna Anastasíu, en ýmislegt hefur haldist í gegn um tímann. Eins og þessi blessaði bátur. Ég hef alltaf ætlað mér að eignast bát (stundum að smíða hann) og sigla um höfin. Við vitum hinsvegar aldrei hvenær við munum deyja, og hafa listar sem þessi verið áminning að láta draumanna rætast fyrr en það er of seint. En er ég á leiðinni að kaupa mér bát núna? Nei. Hvað í ósköpunum ætti ég að gera við bát? Ég hef ekki peninga til þess að halda honum við eða geyma hann, ég þyrfti að læra að sigla og fá allskyns leyfi til þess eins að geyma bát í Reykjarvíkurhöfn sem ég myndi sigla rétt út fyrir í þau fáu skipti sem veður leyfir.

Ég er ekki að tala gegn því að hafa markmið, og ég vona að einhverntímann muni ég hafa tíma og pening til þess að sigla um hafið með skipstjórahatt, en það er ekki markmið sem ég ætla hugsa um núna. Því að þótt það sé margt sem mig langi að gera, þá er líka margt sem mig langar að hætta að gera. Ég tel að slíkur listi eigi mun betur við í lífi mínu í dag.

Þegar ég horfi yfir ævina mína þá sé ég að það eru hlutirnir sem ég ákvað að hætta að gera sem hafa haft jákvæð áhrif á líf mitt frekar en annað. Mitt andlega ástand snerist alveg við þegar ég hætti í vondu sambandi og lífið umbreyttist þegar ég lagði flöskuna á hilluna. Þessar ákvarðanir höfði líka áhrif á fólkið í kring um mig, ég hef a.m.k. ekki enn lent í því að einhver segi „algjör synd að þú sért hætt að drekka, þú sem varst svo skemmtileg þegar þú varst full“. Því ætla ég að reyna að einblína á stóra samhengið og hvaða hluti ég vil taka út úr lífi mínu. Svo eitthvað sé nefnt:

„Hlutir sem ég ætla hætta að gera áður en ég dey“

1.      Þykjast ekki þurfa á kortaleiðbeiningum að halda.

Ég eyddi góðum hálftíma í morgun að ráfa um Granda í leit að Íslandsbanka, í grenjandi rigningu í þokkabót. Hefði ég getað tekið upp Google Maps og sparað mér þessa vitleysu? Já, en þrjóska ég var fullviss um að ég gæti fundið út úr þessu sjálf. Atvik sem þessi eiga sér stað í hverri viku, ég er gjörsamlega ratlaus og verð að hætta að halda öðru fram.

2.      Segjast ætla út að hlaupa.

Ég hata að hlaupa. Gjörsamlega þoli það ekki. Til hvers í ósköpunum er ég að segjast ætla gera eitthvað sem að ég veit að er ekki að fara að gerast? Það er ekki eins og fólk muni verða agndofa yfir þessum upplýsingum, „Vá, hún ætlar að hlaupa! Mangað!“ Nei. Fullt af fólki hleypur út um allt og öllum er slétt sama. Undir þetta fellur líka fleira, ég þarf yfirhöfuð að hætta að halda því fram að ég ætli að gera eitthvað sem ég mun ekki gera. Það er gjörsamlega tilgangslaust og lætur mig einungis vera svekkta yfir sjálfri mér fyrir að láta ekki verða af því.

3.      Ofhugsa og endurskrifa fortíðina.

Ég veit ekki hversu miklum tíma ég hef eytt í það að velta mér upp úr einhverju sem að ég sagði eða gerði fyrir löngu síðan. Og ekki bara alvarlegum hlutum, ó nei, ég hef legið andvaka að skammast mín yfir einhverju sem ég gerði í fimmta bekk í grunnskóla. Og þessi hugsun um „hvað ef“ ég hefði ekki gert hitt eða þetta og gert eitthvað annað í staðinn. Mér þykir leitt að tilkynna það að fortíðin er búin, það er ekkert sem hægt er að gera í henni, og enginn er að pæla jafn mikið í þessu og þú sjálf.

Þessi listi heldur ansi lengi áfram, að hætta að þykjast vera einhver önnur en ég er, hætta að reyna að stjórna öðru fólki, hætta að eyða peningum í óþarfa, hætta að skoða kommentakerfi og svo ótal margt fleira. Því að tíminn sem við höfum hér á jörðu er takmarkaður, og hversu mikið getum við ekki vitað. Ég hvet alla til þess að eltast við drauma sína og stroka út af „bucket“ listum sínum hafi þeir kost á því. En þangað til held ég að það sé meinholt að gera lista yfir hluti sem má sleppa og tileinka sér það dagsdaglega.

 Ég ætla hvetja ykkur núna til að gera ykkar lista!

Kveðja

Stefanía