Stefania skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Stefanía – Hugmyndir af frábærum fyrstu stefnumótum!

Stefnumótamenning hefur aldrei verið ríkjandi á Íslandi, en mér finnst kominn tími til þess að breyta því. Það þarf ekki blómvönd og kvöldmat á dýrasta stað borgarinnar til þess að eiga frábært kvöld, en getum við plís hætt að takmarka „stefnumót“ við netflix stund eða að fara heim saman af djamminu?

En fólki sem að langar að gera eitthvað öðruvísi er oft í vandræðum með hvað það eigi þá að gera. Því hef ég sett saman lítinn lista af tillögum um hvað þú getur gert til þess að eiga eftirminnilegt kvöld.

Fjallganga

Eitt skemmtilegasta deit sem ég hef farið á var ganga upp Esjuna. Það hljómar kannski steikt en við náðum að spjalla um allt mögulegt á leiðinni og sigurtilfinningin þegar við náðum upp á topp gerði það enn betra.

Göngutúrar eru líka frábærir. Ísland er með svo mikið af fallegum stöðum, t.d. Elliðaárdalur, þar sem er hægt að njóta náttúrufegurðar og kynnast manneskjunni betur.

Skíði/snjóbretti

Afhverju ekki að kíkja í Bláfjöll og eyða deginum í að gera eitthvað sem að þér finnst skemmtilegt? Þegar báðir aðilar skemmta sér fara þeir ósjálfrátt að tengja góðar tilfinningar við hvort annað, svo er hægt að spjalla betur saman yfir kósý kakóbolla í enda dags.

Þetta þarf alls ekki að takmarkast við skíði. Það er hægt að fara á skauta, í klifurhúsið, í badmington, bogfimi eða eitthvað af mörgum sport-stöðum Íslands.

Salsa

Salsa Iceland er með ókeypis prufutíma fyrir byrjendur í JL húsinu á miðvikudögum kl 19:30. Hversu skemmtilegt?

Salt Eldhús

Salt Eldhús er með fullt af námskeiðum þar sem er kennt að elda og baka allt mögulegt. Þátttakendur elda allan mat frá grunni og það er ótrúlega skemmtilegt að fá að skapa eitthvað, eða í versta falli vera hræðillegur kokkur og geta hlegið að því.

Grandi

Kvöldið getur byrjað á Flatey (var þar um daginn, geðveikar pizzur) eða einhverjum öðrum veitingastað, fá sér ís eða köku og rölt svo um bryggjuna. Það er sérstaklega fallegt þegar búið er að skreyta bátana jólaljósum og hver veit hvort að norðurljósin láti sjá sig.

Ég hvet ykkur öll til þess að stíga út fyrir þæginarammann sem er bíó eða kaffibolli og eiga öðruvísi og eftirminnilegt stefnumót!

 

Stefanía