Stefania skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Stefanía – Karlmenn hafa líka tilfinningalegan tilvistarrétt

Ég er feministi.

Það þýðir að ég trúi því að jafnrétti eigi að ríkja í samfélaginu, sama hvers kyns þú ert.

Baráttumál jafnréttis eru jafn mörg og þau eru mikilvæg, en eitt af því sem að mér finnst ekki lögð næg áhersla á er réttur karlmanna til þess að tjá tilfinningar sínar.

Ég er ekki að halda því fram að kynin séu eins. Ég held því hinsvegar fram að allar manneskjur hafa tilfinningar og að samfélagið veiti okkur ekki sama rétt til þess að tjá þær. Ég leyfi mér að segja að karlmenn séu almennt líkamlega sterkari en tilfinningalega veikari.

Karlmenn eru ólíklegri til þess að segja frá einelti, kynferðislegu ofbeldi og þunglyndi. Þeir eiga að vera sterkir og harðir af sér. Þeir eiga að „bera sig karlmannlega“.

Yfirgnæfandi fjöldi þeirra sem að fremja sjálfsmorð á Íslandi eru ungir karlmenn.

Til drengja eru gerðar aðrar kröfur en til stúlkna og teygjast þessi áhrif til allra anga samfélagsins. Frá heimilum til menntastofnanna og út á vinnumarkaðinn. Af fjölskyldu, vinum og yfirvaldi.

Ég man þegar ég var barn og það var gert grín að dreng sem að valdi að fara í sauma frekar en smíði. Afhverju?

Afhverju mátti ég gráta þegar að ég meiddi mig en strákunum var sagt að vera sterkir og harka þetta af sér?

Við þurfum að leggja okkur fram sem samfélag að breyta þessu. Kynin þurfa að eiga jafnan rétt sama á hvaða grundvelli.

Hvetjum drengina okkar til þess að tjá sig og sýnum þeim að það er ekki samasemmerki á milli þess að vera tilfinningasamur og veiklyndur.

Stefanía