Stefania skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Stefanía – Kostir þess að vera öðruvísi! “Ég er í tilvistarkreppu “

 

Hjá mér byrja flestir morgnar eins. Ég vakna snemma til þess að geta legið í rúminu með kaffibolla og horft á fréttir um pólitík. Mestmegnis Bandaríska en einnig alþjóðlega. Áður en ég fer út í daginn kem ég oftast einum eða tveimur Ted Talks fyrir. Þessi morgun byrjaði eins og aðrir, með kaffi í hönd hristi ég hausinn yfir Trump og var ánægð með Theresu May fyrir að setja kosningabaráttur á bið eftir atburði í Manchesterborg. Síðan valdi ég af handahófi Ted Talk á meðan ég kom mér á fætur. Myndbandið sem ég valdi var fyrirlestur Marianne Cantwell; „The hidden power of not (always) fitting in“. Vanalega eru þessir fyrirlestrar áhugaverðir en heyrðir með hálfu eyra stúlku sem veit ekki hverju hún á að klæðast eða hvernig skuli díla við hárið sitt, en þessi fyrirlestur var eitthvað allt annað. Með burstann í hárinu settist ég niður og horfði á þessa ungu konu lýsa mér sjálfri. Myndrætt setti hún upp persónuleika sem passar ekki í neitt box. Hún lýsti því hversu fáránlega ólík áhugamál hennar voru og hvaða augum hún liti lífið og ég var agndofa. Því að ef hún passaði hvergi inn í þá gerði ég það ekki heldur.

Ég er 26 ára og ég skil ekki hvers vegna ég hugsa ekki eins og aðrir í kring um mig. Mig langar ekki að safna mér fyrir íbúð, kaupa bíl og eignast börn. Ég hef verið yfir mig ástfangin í fortíðinni en aldrei hitt mann sem ég get hugsað mér að eyða ævinni með, því að ég hef engum kynnst sem skorar á mig og ýtir mér í átt að mínum fáránlegu draumum. Vinir mínir eru af öllum toga því að ég hef endalausan áhuga fyrir mismunandi hlutum. Þessi spurning um það hver ég raunverulega sé, í hvaða box ég flokkast veldur mér óhamingju. Þessi óróleiki og ótti um að ég muni aldrei verða fullkomlega sátt með líf mitt því ég muni alltaf vera leitandi að einhverju meira, einhverju nýju. Ég er í tilvistarkreppu þessa dagana því að mér finnst ég þurfa að velja mér braut, starfsframa eða lokatakmark og ég veit ekki neitt því að ég vil gera svo margt. Í bókahillunni minni eru forn trúarrit við hliðina á eðlisfræðibókum, Shakespeare við hliðina á Douglas Adams. Festar í tölvunni eru jafn margar síður um hvernig skuli kóða og það eru um sumartískuna 2017. Slayer við hlið N.W.A., Blake Shelton og Beethoven.

Ástæða þess að ég óttast framtíðina er vegna þess að mér finnst ég hvergi passa inn í. Ég sé ekki fyrir mér tímapunkt þar sem ég er sátt því að það eina sem hræðir mig meira en að vera föst í þessu ástandi óstöðugleika er að vera föst í einhverju einu boxi.

En hlustandi á þessa bresku konu tala fékk ég innblástur. Ég verð að hætta að finnast ég persónuleikalaus vegna þess að ég get ekki takmarkað mig og líta frekar á það að ég hafi stóran persónuleika, sem nær yfir fullt af boxum sem er allt í lagi að skoppa á milli. Ég þarf ekki að vera eins og allir hinir og láta samfélagslegan þrýsting hafa svona mikil andleg áhrif á mig.

Því að það er allt í lagi að vera ekki eins og aðrir. Þú þarft að skapa þína eigin framtíð og fylgja eigin hjarta. Það er allt í lagi að svara þessum óþolandi spurningum; „Hvað ætlarðu að starfa við?“, „Hvenær ætlarðu að finna þér maka/eignast börn/kaupa íbúð?“ með því að segja einfaldlega „Ég veit það ekki ennþá, en það gerist ef að það á að gerast“. Hættu að troða þér í box og smíðaðu bát, sigldu hvert sem þú vilt á hverjum tímapunkti og fremst af öllu – hættu að hugsa um álit annara.

Stefanía