Stefania skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Stefanía – Kraftur breyttar hugsunnar

Okkar vanmetnasta verkfæri er okkar eigin hugur. Hugurinn er nefnilega ótrúlega kröftugt fyrirbæri. Ein helsta sönnun þess er lyfleysa, saklausar töflur án nokkurrar virkni sem hafa ótrúleg áhrif á líðan einstaklinga. Af hverju? Afþví að við trúum því. Þú getur breytt öllu lífi þínu með því einu að breyta því hvernig þú hugsar.

Það er margt sem fer í taugarnar á manni dags daglega. Kannski er það hálfvitinn sem svínaði fyrir þig í umferðinni, eða manneskjan sem tróð sér fram fyrir þig í röðinni. kannski er það vinnufélaginn sem eignar sér heiðurinn fyrir þína vinnu eða vinkonan sem á það til að koma með illkvittnar athugasemdir. Atvik sem þessi geta haft áhrif á skapið okkar út daginn eða lengur. Verkefni dagsins verða erfiðari og við sjálf leiðinlegri fyrir vikið.

En hérna er tækifæri til þess að hafa bein áhrif á hugann. Vegna þess að þú veist ekki ástæðuna á bakvið gjörðir annara þá getur þú skapað þær ástæður í huga þínum.

Vissulega er skiljanlegt að fyllast pirringi í garð vinnufélaga sem tekur heiðurinn fyrir þín verk vegna þess að hann er sjálfselskur og sama um aðra. En kannski er það alls ekki ástæðan. Ef til vill er viðkomandi í fjárhagserfiðleikum eða það eru vandræði á heimilinu sem gera það að verkum að hann er ekki að sinna starfi sínu nógu vel. Kannski er hann hræddur um að missa vinnuna og grípur því til þeirra ráða að eigna sér þína vinnu, þrátt fyrir að hann viti upp á sig sökina. Það er erfiðara að vera pirruð út í þessa manneskju ekki satt?

Með því að þjálfa hugann til þess að líta á hlutina á marga mismunandi vegu getur þú valið þér hvaða áhrif fólk og atburðir hafa á þig.

Ég hugsa að flestir séu almennt ekki að reyna að vera fífl. Að muna að allir eiga sína slæmu daga, að við erum öll óörugg í einhverjum aðstæðum og bregðumst mismunandi við þeim getur gert kraftaverk þegar kemur að okkar eigin líðan. Í stað þess að koma heim full gremju yfir leiðinlegum athugasemdum getur þú fundið fyrir samkennd gagnvart þeim sem hafa slíkt óöryggi að þau þurfi að gera lítið úr öðrum til þess að láta sér líða betur. Þú getur fundið fyrir þakklæti yfir því að þú hafir ekki þörf til þess að gera hið sama.

Næst þegar að þú tekur eftir því að pirringur og gremja í garð einstaklings birtist innra með þér, prófaðu að staldra við og ímynda þér aðrar ástæður fyrir þessari hegðun. Veldu síðan hverju þú kýst að trúa, hvað lætur gremjuna hverfa og haltu áfram út í daginn þinn laus við óþarfa vanlíðan.

Stefanía