Stefania skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Stefanía – Nokkur ráð til að vinna gegn skammdegisþunglyndi

Haustið er uppáhalds árstíð margra sökum litadýrðar fallandi laufa og kertaljósa á dimmum kvöldum.

Þrátt fyrir allt hið fallega sem einkennir haustið er þetta erfiður tími fyrir marga og mig þar að meðal. Lækkandi sól þessa árstíma hefur mikil áhrif á mína andlegu líðan og er skammdegisþunglyndi algengt meðal Íslendinga. Við erum svo norðanlega á þessum hnetti okkar að breytingin frá hinu bjarta sumari er í mun meiri mæli en á flestum öðrum stöðum.

Eins og ég segi hefur haustið alltaf haft áhrif á lundarfar mitt og hef ég því í gegn um árin komið mér upp allskyns hefðum sem að hjálpa mér á þessum myrku tímum.

Hér eru nokkrar þeirra:

 

Hvítar ljósaseríur

Ég set gjarnan upp hvítar „jóla“seríur í gluggakistur og hengi þær fyrir ofan rúmið mitt. Þessi litlu ljós gefa bæði birtu og eru afar kósý í leiðinni.

 

Dagsljóslampi

Eitt af því sem að hefur haft hvað mest áhrif á mig er dagsljóslampinn minn. Ég stilli honum yfirleitt upp á náttborðið í september svo að hann er það fyrsta sem ég kveiki á þegar ég vakna. Ekki nóg með það að hann jafnast á við tvo kaffibolla þegar kemur að því að vekja mann heldur hefur ljósið ótrúlega eiginleika og veitir mér nauðsynlega orku áður en ég fer út í myrkrið.

 

Hreyfing

 

Það hefur sýnt sig og sannað að hreyfing eykur endorfín og serótónín í heilanum. Þessi gleðihormón geta skipt sköpum, sérstaklega á þessum tíma árs. Ég þekki það vel að vilja frekar kúra undir teppi með bók heldur en að hreyfa mig en þetta er nauðsynleg viðbót við daginn minn, þó ekki sé nema hálftíma ganga þegar bjart er úti.

 

D vítamín

D vítamín er gífurlega mikilvægt vítamín sem dregur úr líkum á breinkröm, hjarta og æðasjúkdómum, varnar við flensu og lengi mætti telja. Þar sem við fáum D vítamín helst frá sólarljósi er mikilvægt að bæta upp fyrir skortinn sem fylgir með lækkandi sól.

 

Að eyða tíma með fjölskyldu og vinum

Það hljómar kannski ekki mjög vísindalega en það hjálpar mér ótrúlega mikið að umkringja mig fólki sem ég elska þegar tekur að dimma. Það nærir hjartað á einhvern ólýsanlegan hátt og minnir mig á hversu fallegt lífið er með þessu ótrúlega dýrmæta fólki sem ég er svo heppin að eiga að.

Ég vona að eitthvað af þessum ráðum mínum hjálpi þeim sem að eiga erfitt með þennan tíma árs og ef að þið lumið á fleiri ráðum hvet ég ykkur til þess að deila þeim með fólkinu í kring um ykkur. Það hefur meiri áhrif en ykkur grunar.

Stefanía