Stefania skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Stefanía – „Oj hvað þú ert horuð“ Að setja út á líkama annara er ekki í lagi!

Ég átti í talsverðum erfiðleikum við það að byrja á þessari grein, vegna þess að það virðist oft sem ekki sé hægt að benda á eitt vandamál án þess að það sé túlkað sem verið sé að gera lítið úr öðru. Það er ekki ætlun mín. Mér finnst ég hinsvegar knúin til þess að vekja athygli á vandamáli sem hefur haft mikil áhrif á mig sjálfa og fólk sem ég elska.

Ég hef alltaf verið grönn. Ég var hræðilega matvant barn og mamma keypti fyrir mig sérstaka kaloríumikla drykki því það var oft á tíðum það eina sem ég vildi ofan í mig láta. Þrátt fyrir þetta var ég ekki óheilbrigt barn, mig skorti ekki vítamín né önur mikilvæg efni. Þrátt fyrir það fékk ég oft að heyra niðrandi orð, líkt og hvað ég væri horuð, hvort ég fengi ekkert að borða heima hjá mér og hvað ég liti illa út.

Þetta sagði fullorðið fólk við 9 ára barn og sá ekkert athugavert við það.

Í dag er mikil fræðsla um hin slæmu áhrif fitu-skammar (e. fat shaming) – og það er frábært. Það er hins vegar ekkert sagt um hina hliðina á peningnum, og það er ekki í lagi. Enn í dag hef ég og fólk í kring um mig, jafnt stúlkur sem strákar, fengið að heyra ljótar athugasemdir um eigin líkama á almannafæri. Þá helst á stöðum eins og líkamsræktarstöðvum og í sundi. Skammarlaust hefur ókunnugt fólk tekið sér það bessaleyfi að gera lítið úr þeim, og það sem verra er, að fólk sem að verður vitni af þessu áreiti stígur ekki inn í og bendir á að þetta sé röng hegðun.

Ég var ekki 9 ára að svelta mig og ég átti ekki skilið að sagt væri við mig að líkami minn væri ljótur og óeðlilegur.

Mér finnst súrrealískt að þurfa að biðla til almennings að láta það vera að setja út á líkama ókunnugra, sama hvort þér kunni að finnast manneskjan of feit eða of mjó, þá hefur þú engan rétt til þess að gera lítið úr viðkomandi, sérstaklega ef að um börn er að ræða.

Við eigum að elska okkur, í öllum stærðum og elska líkamann sem við búum í.

Sama hvernig þú lítur út, stattu með sjálfum þér og fólki sem þarf á þér að halda.

 

Stefanía (og litla Stef)